
Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkraskrár, stafræn sjúkraskrá o.fl.).
ÖBÍ réttindasamtök fagna öllum tilraunum til þess að auka samfellu, öryggi og aðgengi að upplýsingum innan heilbrigðiskerfisins. Það er mikilvægt út frá samfélagslegum sjónarmiðum og sjónarmiðum sjúklinga, að gögn séu stafræn og gerð eins aðgengileg og kostur er, innan þeirra löggjafar sem hér á við.
Það er því miður landlæg plága innan heilbrigðisgeirans að stafrænar lausnir séu þróaðar án samráðs við notendahópa. Því er það tilviljunum háð hvort lausnirnar reynast nýtilegar þegar á hólminn er komið. Þarfagreiningum er ábótavant, ekki er nægilega vel hugað að samfellu á milli kerfa og aðgengismál eru í ólestri.
Það er nauðsynlegt að ráðuneytið og stofnanir innan heilbrigðiskerfisins tileinki sér þekkingu á sviði stafræns aðgengis og hvernig haga skuli þróun kerfa og gagna til þess að mæta stöðlum, bæði hvað varðar WCAG og EN 301 549.
Það er einnig nauðsynlegt að ráðuneytið og stofnanir þess skilgreining hvað átt sé við þegar talað er um „aðgengi“, hvaða viðmið og lágmarkskröfur eigi að miða við og liggi til grundvallar.
Ef ná á fram raunverulegri hagkvæmni með stafvæðingu heilbrigðiskerfisins er mikilvægt að sjúklingar geti í raun notað þau kerfi sem hönnuð eru. Sú er ekki alltaf raunin og því er brýnt að formgera ferli sem tryggja bæði innleiðingu staðla og aðkomu notenda.
Ekkert um okkur án okkar!
Virðingarfyllst,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka
Rósa María Hjörvar
stafrænn aðgengisfulltrúi ÖBÍ
Sjúkraskrár (stafræn sjúkraskrá o.fl.)
69. mál, lagafrumvarp
Umsögn ÖBí, 2. október 2025

