Skip to main content

Í umsögn þessari kynna ÖBÍ réttindasamtök helstu áherslumál sín og tillögur í tengslum við frumvarp ríkisstjórnarinnar til fjárlaga 2025. ÖBÍ leggur áherslu á sex atriði í umsögn sinni; kjaramál, málefni fatlaðs fólks, heilbrigðismál, húsnæðis- og skipulagsmál, vinnumarkaðsmál og fjölskyldumál.

Kjaramál og málefni fatlaðs fólks – málefnasvið 27

Víxlverkun lífeyrisgreiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóða

Breytingar á örorkulífeyriskerfi almannatrygginga sem tóku gildi 1. september sl. fólu í sér hækkanir á örorkulífeyri hjá langflestum lífeyristökum. En sú kjarabót sem lífeyristökum var lofað með breytingunum verður að engu fyrir þá lífeyristaka sem fá einnig greiðslur frá lífeyrissjóðum.

Fyrirséð er að lífeyrissjóðirnir muni skerða örorkulífeyri vegna hækkana á greiðslum almannatrygginga. Um er að ræða vandamál sem nefnt hefur verið víxlverkun á milli þessara tveggja kerfa. Vegna þess munu heildar lífeyrisgreiðslur fjölmargra ekkert hækka, þrátt fyrir gefin loforð, og í sumum tilvikum kunna þær að verða lægri en þær voru fyrir breytingu kerfisins. Í frumvarpi til fjárlaga er ekki gert ráð fyrir þeim kostnaði sem víxlverkunin leiðir af sér.

Í frumvarpi sem ríkisstjórnin lagði fram á síðasta þingi  var þessi kostnaður metinn þannig að árleg útgjöld ríkissjóðs gætu aukist um tvo milljarða og tekjur örorkulífeyristaka lækkað um fjóra milljarða á sama tíma og útgjöld lífeyrissjóða lækkuðu um 6 milljarða.

Þá er hvergi í frumvarpinu gert ráð fyrir áframhaldandi greiðslu framlags ríkissjóðs til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða. Að mati ÖBÍ er framlagið mikilvægt þeim lífeyrissjóðum sem hafa háa örorkutíðni og kann brottfall þess að leiða til skerðinga á réttindum og greiðslu örorku- og ellilífeyris frá þeim. ÖBÍ telur mikilvægt að koma í veg fyrir að það raungerist. Verði breyting á fjárlagafrumvarpinu hvað jöfnunarframlagið varðar sem leiðir til lausnar á vandamáli víxlverkunar mun ÖBÍ styðja heilshugar við breytinguna.

  • ÖBÍ telur nauðsynlegt að fundin verði hið fyrsta varanleg lausn á víxlverkun örorkulífeyrisgreiðslna.

Réttindagæsla fyrir fatlað fólk – Mannréttindastofnun Íslands

Gert er ráð fyrir því að framlög til Mannréttindastofnunar Íslands verði 265 milljónir á næsta ári og aukist um 88 milljónir frá árinu 2025. Aukningu í framlögum má rekja til þess að réttindagæslumenn flytjast til stofnunarinnar frá félags- og húsnæðismálaráðuneytinu. Um hlutverk Mannréttindastofnunar Íslands segir í 2. gr. laga nr. 88/2024 stofnunin skuli vinna að því að opinberir aðilar og einkaaðilar virði mannréttindi á öllum sviðum samfélagsins. Þá sinnir stofnunin réttindagæslu fatlaðs fólks.

Til þess að stofnunin nái að sinna hlutverki sínu og ná fram markmiðum sínum, vottun A líkt og mannréttindastofnanir á Norðurlöndunum hafa fengið, þarf nægjanlegt fjármagn að vera til staðar. Réttindagæsla fatlaðs fólks er gríðarlega mikilvæg fötluðu fólki sem á erfitt með að gæta hagsmuna sinna.

  • ÖBÍ leggur til að aukið verði við fjármagn til Mannréttindastofnunar Íslands svo stofnunin nái að starfa sem skyldi.

NPA samningar

ÖBÍ gagnrýnir að hvergi er að finna í fumvarpinu upplýsingar um upphæð sem ríkisstjórnin áætlar til NPA samninga.

  • ÖBÍ kallar eftir að upplýst verði um upphæð fjármagns sem ætlað er í NPA samninga. Enn fremur að tryggt verði að ríki og sveitarfélög uppfylli skyldur sínar um veitingu NPA samkvæmt lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem nú stendur til að lögfesta.

Heilbrigðismál

Sjúkrahúsþjónusta – málefnasvið 23

Á málefnasviðinu eru aukin framlög til rekstrar og til fjárfestinga að raungildi. Hið aukna framlag til rekstrar sem nemur um 5.7 milljörðum á m.a. að nýta til að efla meðferðarúrræði við fíknivanda, og til reksturs átta nýrra öryggisvistunarrýma. Á móti kemur aðhaldskrafa sem nemur þremur milljörðum sem er m.a. ætlað að nást með betri nýtingu tækja og mannafla, árangursríkari innkaupum, og stofnun fagráðs um forgangsröðun. ÖBÍ telur gagnrýnivert að fyrir aðra umræðu fjárlaga eru boðaðar frekari aðhaldsaðgerðir. Það er afskaplega erfitt að meta framlög til málefnasviðsins þegar allar upplýsingar skortir um komandi aðhald.

  • ÖBÍ leggur til að boðaðar aðhaldsaðgerðir verði dregnar til baka.

Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa – málefnasvið 24

Framlög til Heilsugæslunnar aukast umfram raungildi um tæpa tvo milljarða samkvæmt frumvarpinu. Í hinum auknu framlögum er tekið tillit til raunvaxtar. Framlög verða aukin til ýmissa þátta eins og geðheilbrigðismála, ásamt meðferðarúrræðum við fíknivanda, og vegna Upplýsingamiðstöðvar heilsugæslunnar. Á móti er boðuð aðhaldskrafa uppá einn milljarð vegna aukinnar greiðsluþátttöku almennings sem verður útfærð fyrir aðra umræðu fjárlaga.

ÖBÍ telur gagnrýnivert að boðaðar séu miklar álögur á almenning vegna heilbrigðisþjónustu fyrir aðra umræðu fjárlaga í stað þess að kynna þær þegar í frumvarpinu.

  • ÖBÍ leggur til hætt verði við boðaða aðhaldskröfu um einn milljarð vegna aukinnar greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu.

Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta – málefnasvið 25

Framlög til endurhæfingar verða um 8,7 milljarðar á næsta ári og lækka um 271 milljón á milli ára í krónum talið, en raunlækkunin er meiri eða um 312 milljónir. Að mati ÖBÍ gengur þessi lækkun gegn markmiðum nýs örorkulífeyriskerfis um að efla endurhæfingarúrræði og að auka líkur á endurkomu fólks á vinnumarkað.

Til viðbótar eru tímabundin framlög til mikilvægra endurhæfingaraðila (SÁÁ, Samhjálpar, Endurhæfingarstöðvar Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, Parkinsonsamtakanna, Krísuvíkursamtakanna og Ljóssins) felld niður. ÖBÍ fagnar hækkun framlaga til meðferðarúrræða við fíknivanda um 425 milljónir.

  • ÖBÍ leggur til að framlög til ofangreindra samtaka og endurhæfingaraðila verði aukin um 270 milljónir til þess að þau geti áfram sinnt mikilvægu endurhæfingastarfi með óbreyttum hætti.

Lyf og lækningarvörur – málefnasvið 26

Í hjálpartækjahluta málefnasviðsins hækka framlögin um 290 milljónir en hefðu þurft að hækka um 317 milljónir að raungildi. Því er um raunlækkun að ræða. Í því ljósi vekur það furðu að markmið málefnasviðsins er að einfalda aðgang fólks að hjálpartækjum og tryggja jafnræði til notkun þeirra.

Í lyfjahluta málefnasviðsins verða framlög til lyfjamála um 830 milljónir á milli ára en þyrfti að hækka að raungildi um 1,3 milljarða. ÖBÍ setur spurningamerki um markmiðið sem felur í sér lækkun lyfjakostnaðar með endurskoðun á útgáfu lyfjaskírteina.  Ef fækka á þeim lyfjum sem greiðsluþátttaka lyfjaskírteina nær yfir, þá leggst ÖBÍ alfarið gegn slíkri framkvæmd.

  • ÖBÍ leggur til að fjárveiting til hjálpartækja fatlaðs fólks verði aukin um 150 milljónir til að fatlað fólk njóti sömu tækifæra í samfélaginu og lífs til jafns við aðra.
  • ÖBÍ leggst gegn fyrirhugaðri endurskoðun lyfjaskírteina sem leiðir til takmarkaðs aðgengis, og gegn aukinni kostnaðarþátttöku í dýrum og lífsnauðsynlegum lyfjum.

Húsnæðismál- og skipulagsmál – málefnasvið 31

Hlutdeildarlán, lánshæfismat og styrkur til að breyta húsnæði

ÖBÍ minnir stjórnvöld á stjórnarsáttmálann, þar sem kveðið er á um stofnun aðgengis- og aðlögunarsjóðs til að styrkja fatlað fólk til breytinga á húsnæði. ÖBÍ harmar að hvorki er gert ráð fyrir stofnun sjóðsins í fjárlagafrumvarpinu né fjármálaáætlun 2025-2029. Ísland er eina ríkið á Norðurlöndum sem býður ekki upp á neina styrki fyrir fatlað fólk sem þarf að breyta húsnæði sínu skerðinga sinnar vegna. Þá virka hlutdeildarlán í núverandi mynd ekki fyrir fatlað fólk.

Markmið um að einfalda regluverk með endurskoðun byggingarreglugerðar til að hraða uppbyggingu íbúða má ekki verða til þess að slakað verði á kröfum um algilda hönnun, slíkt getur falið í sér útilokun fyrir ákveðna hópa og frekari vandamál á húsnæðismarkaði.

  • ÖBÍ leggur til að aðgengissjóður verði settur á laggirnar.
  • ÖBÍ leggur til að hlutdeildarlán verði aðlöguð að þörfum fatlaðs fólks með nýjum lánaflokki.

Félagslegt leiguhúsnæði sveitarfélaga og óhagnaðardrifin leigufélög

Óhagnaðardrifin leigufélög gegna mikilvægu samfélagslegu hlutverki og stuðla að lægri húsnæðiskostnaði lágtekjufólks. Meðalleiguverð félagslegra íbúða á vegum sveitarfélaga er 16% dýrari og 64% dýrari hjá hagnaðardrifnum leigufélögum.

  • ÖBÍ leggur til að stofnframlög til bygginga félagslegra íbúða hækki um 107 miljónir til að viðhalda raungildi sínu.
  • ÖBÍ leggur til að stimpilgjöld hjá óhagnaðardrifnum leigufélögum verði lækkuð niður í 0,8%.
  • ÖBÍ leggur til að hækkun endurgreiðslna virðisaukaskatts til óhagnaðardrifinna leigufélaga verði hækkuð úr 35% í 100% vegna viðhaldskostnaðar og vinnu á verkstað.
  • ÖBÍ leggur til að HMS verði veitt heimild til að bjóða óhagnaðardrifnum leigufélögum sem sinna samfélagslegu hlutverki langtímalán á vöxtum undir markaðsvöxtum.

Vinnumarkaðsmál – málefnasvið 30

Framlög til vinnumarkaðsmála aukast að raungildi, m.a. vegna aukinnar atvinnuþátttöku fatlaðs fólks, starfsendurhæfingar og vegna spár um aukið atvinnuleysi.

  • Þrátt fyrir aukin framlög telur ÖBÍ þörf á að auka framlög um 240 milljónir til að styrkja Vinnumálastofnun við að fjölga atvinnutækifærum fyrir fatlað fólk.

Fjölskyldumál – málefnasvið 29

Framlög til Ráðgjafar- og greiningarstöðvar hækka lítið að raungildi, eða sem nemur fjölgun starfsmanna um einn og hálfan. Að mati ÖBÍ er hækkunin of lítil til þess að takast á við sívaxandi biðlista eftir þjónustu stofnunarinnar.

Framlög til Barna- og fjölskyldustofu hækka ekkert að raungildi sem verulega slæmt í ljósi skorts á viðeigandi úrræðum og meðferðarheimilum fyrir börn með fjölþættan vanda. Framlög til Sjónstöðvar dragast saman um 35 milljónir að raungildi sem leiðir til skertrar þjónustu. Fyrrgreindar stofnanir þjóna mjög viðkvæmum hópum og er mikilvægt að þær nái að sinna hlutverki sínu.

Í markmiði þrjú fyrir málefnasviðið segir að stytta eigi biðtíma eftir þjónustu við börn. Miðað við þau framlög sem fyrrnefndar stofnanir fá er vandséð hvernig þau markmið eiga að nást.

  • ÖBÍ leggur til að framlög til fyrrgreindra stofnanna verði auknar um 45 milljónir hver eða alls 135 miljónir til að gera þeim kleift að stytta biðlista eftir þjónustu.

6. Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra – málefnasvið 22.20

Framlög til Samskiptamiðstöðvar lækka um 13 milljónir að raungildi. Að mati ÖBÍ gengur þessi raunlækkun gegn markmiðum málefnasviðsins sem segir að efla skuli þjónustu við fólk sem notar táknmál.

  • ÖBÍ leggur til að framlag til Samskiptastöðvar verði aukið um 13 milljónir svo stonfunin geti viðhaldið sinni nauðsynlegu þjónustu.

Ekkert um okkur án okkar!

Virðingarfyllst,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka

Gunnar Alexander Ólafsson
hagfræðingur ÖBÍ

Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ

Rósa María Hjörvar
verkefnastjóri ÖBÍ

Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
félagsráðgjafi ÖBÍ

Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ


Fjárlög 2026
1. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 1. október 2025