
ÖBÍ réttindasamtök fagna tillögu frumvarpsins um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF). Í mörg ár hefur ÖBÍ beitt sér fyrir því að samningurinn verði lögfestur. Lögfesting samningsins er mjög mikilvægt skref í þá átt að tryggja fötluðu fólki mannréttindi til jafns við aðra.
ÖBÍ vill koma því á framfæri að nokkurs misskilnings virðist hafa gætt um eðli samningsins á Alþingi á síðasta löggjafarþingi. Umræðan á þinginu virtist að miklu leiti byggja á því að um væri að ræða löggjöf um veitingu velferðarþjónustu. Andstaða við lögfestingu samningsins var í miklum mæli tengd niðurstöðu skýrslu frá HLH ráðgjöf um aukinn kostnað við veitingu velferðarþjónustu. ÖBÍ virðist sem það kostnaðarmat sem birtist í skýrslunni sé öðru fremur upptalning á fjölda einstaklinga á biðlista eftir velferðarþjónustu og samantekt á kostnaði við að veita þjónustuna. ÖBÍ bendir á að um er að ræða þjónustu sem ríki og sveitarfélögum ber nú þegar samkvæmt lögum að veita óháð lögfestingu samningins.
Áréttað er að samningurinn er mannréttindasamningur. Ástæða þess að hafist var handa við gerð samningsins á vettvangi Sameinuðu þjóðanna er sú staðreynd að fatlað fólk nýtur mannréttinda í mun minna mæli en annað fólk. ÖBÍ telur fullvíst að allir landsmenn séu sammála um að við eigum öll að njóta mannrétinda í sama mæli. Samningnum er ætlað jafna stöðuna fyrir fatlað fólk og þess vegna er lögfestingin svo mikilvæg.
Nefna má dæmi um ákvæði í samningnum sem ætlað er að stuðla að því að fatlað fólk njóti mannréttinda til jafns við aðra. Í 11. gr. samningsins er kveðið á um skyldu til að tryggja vernd og öryggi fatlaðs fólks þegar hættuástand ríkir. Ákvæðið byggir m.a. á þeirri staðreynd að fatlað fólk er fjórum sinnum líklegra en ófatlað fólk til að láta lífið þegar hættuástand á borð við náttúruhamfarir skapast. Annað dæmi birtist í 6. gr. samningsins og kveður á um að veita beri fötluðum konum og stúlkum vernd frá ofbeldi. Ákvæðið byggir á þeirri staðreynd að fatlaðar konur og stúlkur eru miklu líklegri til þess að sæta hvers kyns ofbeldi og mismunun en aðrir. Með samningnum er reynt að jafna stöðuna í þágu fatlaðra kvenna og stúlkna.
ÖBÍ minnir á að Alþingi hefur unnið að lögfestingu SRFF í langan tíma. Efni og áhrif samningsins hafa að sama skapi lengi legið fyrir. Alþingi samþykkti hinn 20. mars 2024 þingsályktun um landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024-2027 og á meðal aðgerða í áætluninni var lögfesting samningsins. Hinn 4. júlí 2024 samþykkti Alþingi lög um Mannréttindastofnun Íslands en fyrirhuguð lögfesting samningsins var á meðal helstu ástæðna fyrir því að hafist var handa við gerð frumvarps um stofnunina.
Frumvarp um lögfestingu samningsins var lagt fram af þeim þrem stjórnmálaflokkum sem mynduðu síðustu ríkisstjórn og nú af öðrum þrem flokkum sem mynda núverandi ríkisstjórn. ÖBÍ kalla nú eftir upplýstri og málefnalegri umræðu um lögfestingu samningsins. ÖBÍ skorar á þingmenn alla að styðja bætta mannréttindavernd fatlaðs fólk og lögfestingu samningsins.
ÖBÍ áréttar mikilvægi þess að valfrjáls bókun við samninginn verði fullgild. Með henni yrði fötluðu fólki gert kleift að beina kvörtun til sérfræðinefndar um réttindi fatlaðs fólks á vegum Sameinuðu þjóðanna þegar það telur að farið sé gegn ákvæðum samningsins. Nefndin gefur álit í slíkum málum og er ætlað að stuðla að réttri framkvæmd á samningnum.
Að lokum ítrekar ÖBÍ mikilvægi þess að samráðsskylda stjórnvalda, sbr. 3. mgr., 4. gr. SRFF, verði virt sem grundvallarregla í málaflokknum, bæði hjá ríki og sveitarfélögum. ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari sjónarmiðum á seinni stigum málsins.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ
Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ
Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks
106. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 8. október 2025

