
ÖBÍ réttindasamtök taka undir meginmarkmið þingsályktunar um mótun borgarstefnu fyrir árin 2025–2040 sem stuðlar að fjölbreyttum búsetukostum, fjölgun fjölbreyttra atvinnutækifæra, auknu aðgengi íbúa að þjónustu og sjálfbærri þróun byggða. Mikilvægt er að við mótun slíkrar stefnu verði tekið mið af ólíkri stöðu og þörfum allra íbúa, svo enginn verði skilinn eftir í skipulagslegri eða samfélagslegri framþróun.
Fram kemur í greinargerð að við mótun borgarstefnunnar hafi verið horft til viðmiða Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) þar sem meginmarkmið er að byggja upp snjallar, sjálfbærar og inngildandi borgir. ÖBÍ tekur undir þessa framtíðarsýn en ítrekar að skipulagsstefnur og kerfisbreytingar án raunverulegrar aðkomu fatlaðs fólks á hönnunarstigi leiða oft af sér lausnir sem virka fyrir suma en ekki fyrir alla. Í kjölfarið getur fatlað fólk orðið útilokað frá þátttöku í samfélaginu, húsnæðismarkaði og atvinnulífi. Því er brýnt að framkvæmdarvaldið tryggi samráð við hagsmunasamtök fatlaðs fólks og að slíkt samráð verði hluti af öllum stigum undirbúnings, mótunar og eftirfylgni borgarstefnunnar. Með því má draga úr þörf fyrir sérlausnir, fjármunir sparast og aðgerðir verða hagkvæmar, mannréttindamiðaðar og í anda samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF). ÖBÍ vill koma eftirfarandi athugasemdum og tillögum á framfæri.
Samræmi milli sveitarfélaga og skýrir verkferlar
Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að borgarstefna sé sameiginlegt stefnumið ríkis og sveitarfélaga sem byggir á samræmdum ákvörðunum um skipulag, fjármögnun og þróun byggðakjarna. ÖBÍ tekur undir þetta markmið, en bendir á að reynslan sýni að án samræmdra verkferla og eftirlits getur mismunur milli sveitarfélaga leitt til ójafnræðis og misréttis í þjónustu og aðgengi. Í skýrslu Gæða- og eftirlitsstofnunar (GEV) frá febrúar á þessu ári má lesa áfellisdóm yfir meirihluta sveitarfélaga landsins í velferðamálum. Samkvæmt skýrslunni hafa reglur margra sveitarfélaga um stoð- og stuðningsþjónustu verið óuppfærðar um árabil og eru þær í ósamræmi við gildandi lög og reglugerðir. Afleiðingin er sú að réttindi og þjónusta verða misjöfn eftir búsetu, sem gengur gegn markmiðum jafnræðis og inngildingar. Sveitarfélög eru ólík að stærð, fjárhagsstöðu og getu, en það má ekki leiða til þess að einstaklingar sem þurfa á þjónustu að halda falli milli kerfa. Því þarf að tryggja samræmd verkferli, skýr hugtök og gagnsæjar verklagsreglur sem ná þvert á sveitarfélög.
ÖBÍ leggur áherslu á að Innviðaráðuneytið skilgreini hvernig borgarstefna muni tryggja að allir aðilar vinni að sameiginlegum markmiðum, þar á meðal með samræmdum ferlum þegar íbúar þurfa að sækja lögbundna þjónustu milli byggðakjarna eða sveitarfélaga. Þá þarf að útfæra hvernig eftirlit og stuðningur við innleiðingu verði skipulagður svo tryggt sé að þjónustunotendur falli ekki milli skips og bryggju.
ÖBÍ leggur til að:
- Tilgreint verði sérstaklega í þingsályktunartillögunni hvernig borgarstefna muni tryggja sveitarfélögum aðhald og stuðning.
- Þróaðir verði verkferlar til að samræma reglur sveitarfélaga um þjónustu og stuðning, með áherslu á að enginn notandi falli milli kerfa.
Lykilviðfangsefni og inngilding í borgarstefnu
Í þingsályktunartillögunni er lögð áhersla á fimm lykilviðfangsefni: Atvinnulíf og nýsköpun, alþjóðlega samkeppnishæfni, innviði og umhverfi, heilbrigðis- og félagsmál, og menntun og menningu. ÖBÍ telur að uppsetning lykilviðfangsefnanna móta ágætan ramma um áherslur stefnunnar, en ítrekar að félagsleg þátttaka, aðgengi og inngilding verði að vera þverlæg og skýr í öllum þessum málaflokkum.
Stefna sem miðar að því að efla borgarsvæði verður að tryggja að allir geti tekið jafnan þátt í samfélaginu. Það á jafnt við um aðgengi að atvinnu, menntun og þjónustu, eins og aðkomu að menningar- og tómstundalífi. Ef stefnan á að vera raunhæf þarf að beita aðferðafræði algildrar hönnunar við skipulag og þróun byggðar. Algild hönnun er lykillinn að því að byggja upp borgarsvæði sem eru fyrir alla. Hún felur í sér hönnun framleiðsluvara, umhverfis, áætlana og þjónustu sem allt fólk getur nýtt sér, án þess að þurfa sérstakar breytingar eða sérlausnir. Slíkt skipulag sparar fé til lengri tíma, eykur lífsgæði og dregur úr félagslegri einangrun.
ÖBÍ bendir á að fyrirhuguð sameining Skipulagsstofnunar og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar geti haft veruleg áhrif á innleiðingu borgarstefnu. Sameiningin getur eflt heildaryfirsýn yfir landnotkun, húsnæðisþörf og innviðauppbyggingu, en sameining ein og sér tryggir ekki árangur. Hlutverk, markmið og verkferlar hinnar nýju stofnunar verða að vera skýrir frá upphafi, sérstaklega hvað varðar aðgengi, inngildingu og eftirlit. Þar sem ábyrgð á aðgengismálum hefur hingað til verið dreifð milli stofnana er tækifæri til að skýra eina ábyrgðarkeðju og draga úr skörunum og óskilvirkni. Með markvissri stefnumótun og góðum undirbúningi getur sameinuð stofnun orðið leiðandi afl í innleiðingu og fræðslu um algilda hönnun, í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt SRFF.
ÖBÍ leggur til að innviðaráðuneytið tryggi að:
- Algild hönnun verði notuð sem leiðarljós í allri stefnumótun borgarstefnunnar.
- Þróunaráætlanir stefnunnar verði unnar í samráði við hagsmunasamtök fatlaðs fólks.
Þannig má stuðla að því að stefnan inniberi ekki einungis efnahagslega ágóða heldur einnig samfélagslega ágóða og styðji sveitarfélög í að framfylgja lögbundu hlutverki sínu í þjónustu fyrir fatlað fólk.
Aðgengismál og búsetufrelsi fatlaðs fólks
ÖBÍ fagnar því að við útfærslu markmiða borgarstefnu sé lögð áhersla á búsetufrelsi og fjölbreytt búsetuform. Í greinargerð frumvarpsins er vísað til þess að lífsgæði fólks byggist á því að geta búið þar sem það kýs, í búsetuformi sem því hentar, og njóti sambærilegra umhverfisgæða og þjónustu hvar sem er á landinu.
Þrátt fyrir fögur fyrirheit er aðgengilegt húsnæði hverfandi. Núgildandi byggingarreglugerð nr.112/2012 á að tryggja að húsnæði uppfyllti öryggis- og rýmisþarfir fatlaðs fólks, en í framkvæmd hefur það ekki gengið eftir. Margir fólk býr við ófullnægjandi aðgengi, þar sem hindranir á borð við þröskulda, tröppur eða skort á lyftum útiloka sjálfstæða búsetu. Eldra fólk og fatlað fólk neyðis til að flytja nauðug úr heimilum sínum í þjónustuíbúðir eða á hjúkrunarheimili þegar aðstæður gera þeim ókleift að nýta eigið húsnæði. Slíkt gengur þvert á markmið um búsetufrelsi og sjálfstæðs lífs.
Á sama tíma þrengir að möguleikum fatlaðs fólks til að ferðast sjálfstætt, þar sem margir samgöngumátar eru óðgengilegir. Almenningssamgöngur og biðstöðvar eru víða óaðgengilegar hreyfihömluðu fólki, bæði vegna óinngildandi innkaupastefnu og ónógs viðhalds. Þá eru tengingar nýrra íbúðahverfa oft ekki hannaðar með hreyfihamlað fólk í huga og bílastæðaskilmálar taka ekki alltaf mið af raunhæfum þörfum fólks sem notar hjálpartæki eða ferðir með aðstoð. Húsnæðis- og samgönguáætlanir þurfa að haldast í hendur. Það dugar ekki að búa í góðri íbúð ef aðgengi að umhverfinu, samgöngum og þjónustu er skert.
ÖBÍ leggur til borgarstefnan inniberi skýrar áherslur um mikilvægi þess að:
- Tryggt verði að nýbyggingar og endurbætur á húsnæði fylgi viðmiðum algildrar hönnunar og að slík viðmið séu bindandi í skipulags- og byggingarferlum.
- Framfylgd byggingarreglugerðar verði efld með virku eftirliti, skýrari ábyrgð og úrbótakröfum þegar misbrestur verður.
- Samgönguinnviðir (almenningssamgöngur, biðstöðvar, göngu- og hjólastígar) verði hannaðir og reknir með aðgengi að leiðarljósi, þar á meðal með skilyrtum kröfum til innkaupa- og þjónustustaðla.
Samráð og framkvæmd
Frumvarpið gerir ráð fyrir að innviðaráðherra stofni formlegan samráðsvettvang ríkis og borgarsvæða þar sem þróun borgarstefnu og aðgerðaáætlun verður mótuð. ÖBÍ fagnar þessari áherslu og telur hana tækifæri til að efla samhæfingu. Hins vegar verður að tryggja að vettvangurinn verði ekki einungis fyrir stjórnsýsluna, heldur verði vettvangur þar sem íbúum og hagaðilum gefst tækifæri til að taka þátt í samráði á frumstigi, þar á meðal hagsmunasamtaka fatlaðs fólks.
ÖBÍ hvetur til þess að samráðsvettvangur verði skipaður þannig að fulltrúar fatlaðs fólks hafi fast sæti við borðið þegar stefnumótun fer fram. Með því verði tryggt að sjónarmið inngildingar og aðgengis verði innbyggð í stefnu og framkvæmd frá upphafi. Þá er mikilvægt að vinna þróunaráætlun fyrir svæðin sem samþættir húsnæðisuppbyggingu, skipulag samgangna og félagslega innviði með mælaborði árangursvísa um aðgengi, búsetufrelsi og þátttöku.
Borgarstefna sem ætlað er að stuðla að sjálfbærni, samkeppnishæfni og velferð verður að byggjast á mannréttindum, samráði og virðingu fyrir fjölbreytileika samfélagsins.
ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ
Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ
Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ
Borgarstefna fyrir árin 2025–2040
85. mál, þingsályktunartillaga.
Umsögn ÖBÍ, 9. október 2025

