
„Það má ekki gleymast að fatlað fólk er líka starfsfólk hins opinbera og á sem slíkt rétt á fullu aðgengi að upplýsingalausnum og tækni“
ÖBÍ réttindasamtök fagna innilega að nú sé unnið að frumvarpi til laga um aðgengi að opinberum vefsetrum og smáforritum opinberra aðila. Frumvarpsdrögin sem hér eru til umsagnar hafa átt sér langan aðdraganda og verið mikið áherslumál fötlunarhreyfingarinnar undanfarin ár, og er það mikið gleðiefni að vinnan sé komin á þetta stig.
Undanfarin ár hefur stafræn þróun verið í miklum vexti og skortur á vöktun og skýru lagaumhverfi hefur valdið því að hópar fólks hafa verið skildir eftir. Afleiðingin hefur verið sú að hóparnir hafa upplifað lélegra aðgengi að þjónustu og jafnvel þjónusturof. Staðreyndin er sú að meint hagræðing sem stafræn umbreyting á að hafa í för með sér, hefur ekki raungerst að fullu þar sem tilteknir hópar fólks, t.a.m. fatlað fólk og aldraðir, hafa ekki getað nýtt stafræna þjónustu, sökum hönnunargalla. Það hefur leitt til einangrunar og öryggisleysis, þar sem varaleiðir hafa verið vandfundnar og ekki í sömu gæðum og almenn þjónusta. Með því að hanna stafrænar lausnir sem uppfylla aðgengisstaðla er komið í veg fyrir aðgengishindranir sem gerir fleirum fært að lifa sjálfstæðu lífi og þar með minnka stuðningsþörf.
Jafnframt er það mikilvægt að hið opinbera haldi áfram þessari vegferð og geri í framhaldinu kröfur til einkaaðila, líkt og gert er í Evrópu og Bandaríkjunum, svo flest þjónusta á markaði verði í boði fyrir fjölbreyttari hópa.
ÖBÍ lýsir yfir ánægju með þá leið sem í frumvarpsdrögunum er farin, með annars vegar rammalöggjöf og hins vegar reglugerð. ÖBÍ hefur fullan skilning á því að hluti tilskipunar sé þess eðlis að mikilvægt sé að ráðherra hafi tækifæri til þess að uppfæra tæknileg viðmið, en samtökin hafa frá upphafi lagt áherslu á að grundvallarviðmið tilskipunarinnar rati í íslensk lög.
Jafnframt hafa samtökin skilning á því að útvarpsstarfsemi sé undanskilin þessum tilteknu lögum, í fullri vissu um að sambærilegar kröfur verði lögfestar í lögum sem snúa sérstaklega að útvarpsrekstri. ÖBÍ treystir því að það verði gert hratt og örugglega þar sem það er ótækt að ríkið styðji við efnisframleiðslu sem útilokar tiltekna hópa í samfélaginu.
ÖBÍ fagnar því að leik- og grunnskólastarf sé ekki undanskilið og þá sérstaklega vegna þeirra skýringa sem fram koma í greinargerð. Það skiptir sköpum fyrir fatlað fólk að hindrunum sé rutt úr vegi á sem flestum stöðum svo það geti sinnt skyldum sínum og störfum eins og ófatlað fólk.
Í greinargerð með frumvarpsdrögunum er tæpt á því að Umbra taki að sér hlutverk vöktunaraðila sem skilgreint verður í lögunum. ÖBÍ telur það vera ágætis fyrirkomulag og vera í takt við þá áherslu samtakanna um að tryggja bæði innra og ytra aðgengi að upplýsingum og þjónustu hins opinbera. Það má ekki gleymast að fatlað fólk er líka starfsfólk hins opinbera og á sem slíkt rétt á fullu aðgengi að upplýsingalausnum og tækni. En hver sem vöktunaraðilinn verður er mikilvægt að viðkomandi sæki sér viðeigandi þekkingu og menntun og leggi áherslu á að þeir sem smíða, hanna og þjónusta kerfi hins opinbera geri slíkt hið sama (CPACC og WAS vottun).
Lykilatriði í bæði algildri hönnun og viðeigandi aðlögun er samtal og samráð við notendur, eins og stjórnvöld hafa lagt áherslu á undanfarið. Óháð hönnunarstöðlum, rafrænni vöktun og kæruleiðum er ávallt nauðsynlegt að hafa virkt samráð við hagaðila til þess að tryggja að stafræn umbreyting henti sem flestum. Í dag er starfræktur „Samráðsvettvangur fyrir innleiðingu á rafrænni þjónustu og auðkenningu hjá hinu opinbera“, og vill ÖBÍ leggja það til að sá hópur verði að föstum vettvangi fyrir samráð hins opinbera við hagaðila og tengdur við vöktunaraðila.
Virðingarfyllst,
Alma Ýr Ingólfsdóttir,
formaður ÖBÍ réttindasamtaka
Rósa María Hjörvar,
stafrænn verkefnastjóri ÖBÍ réttindasamtaka
Aðgengi að vefsetrum og smáforritum opinberra aðila
Mál nr. S-200/2025. Fjármála- og efnahagsráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 24. október 2025

