
Adobe Stock.
ÖBÍ réttindasamtök hafa fengið frumvarp um kílómetragjald á ökutæki til umsagnar og vilja koma áleiðis eftirfarandi athugasemdum og tillögum.
ÖBÍ hefur skilning á gera þurfi breytingar á gjaldtöku ökutækja, en útfærsla hennar þarf að vera réttlát gagnvart almenningi, og ekki síst fötluðu fólki.
Fatlað fólk sem rekur bíl má ekki við frekari álögum sem sýnir sig ekki síst í því að styrkir og uppbætur bjóðast til kaupa og til reksturs bifreiða, sem og lán til bílakaupa hjá Tryggingastofnun ríkisins (TR). Skilyrði til þess eru þó ströng og hópurinn sem um ræðir er þröngur. Í stórum dráttum er um að ræða fólk með hreyfihömlun sem þarf bíl til að geta stundað vinnu, skóla, reglubundna endurhæfingu eða sótt heilbrigðisþjónustu, sbr. reglugerð um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða, nr. 905/2021. Fjárhæðir styrkja og uppbóta hafa nánast staðið í stað frá árinu 2009 þar til 1. janúar 2024 þegar gerðar voru langþráðar breytingar með reglugerð nr. 1419/2023.
Fatlað fólk hefur dregist aftur úr og setið uppi með rekstrarþunga gamla jarðeldsneytisbíla á meðan rafbílavæðingin hefur gengið yfir landið. Það hefur oft lítið lánshæfi hjá fjármálafyrirtækjum og telst almennt til tekjulægstu hópa samfélagsins. Fatlað fólk er háðara einkabílnum en aðrir og geta þess til að nota almenningssamgöngur, að hjóla eða ganga oft takmörkuð. Í mörgum tilfellum þarf hreyfihamlað fólk að breyta bifreiðum og bæta við hjálpartækjum sem bæði gerir bifreiðakaupin dýrari og samtímis þyngja þær bifreiðarnar umtalsvert sem eykur á eldsneytiskostnað.
Réttlátara er að leggja kílómetragjald á almenning frekar en gjald sem tekur mið af eyðslu eldsneytis í ljósi þess að tekjuhærri hópar eru líklegri til að reka hreinorku- eða tengiltvinnbifreiðar. Útfærsla frumvarpsins byggir þó áfram á misskiptingu. Eins og FÍB bendir á er verið að jafna gjöld milli sparneytinna og orkufrekra, þungra bíla. Fyrirtækin munu borga minna en áður á kostnað almennings sem greiðir meira.
Niðurfelling vörugjalda á bensín og olíugjalds á dísilolíu á að fela í sér lækkun eldsneytisverðs, en sagan segir okkur að olíufélögunum er ekki treystandi og lækkun á eldsneytisverði á heimsmarkaði hefur sjaldnast skilað sér til íslenskra neytenda. Því þarf virkt eftirlit og aðhald til að sporna við hækkun á álagningu í kjölfar kerfisbreytinga.
ÖBÍ leggur til að sú viðbót verði gerð við 4. gr. frumvarpsins að bifreiðar sem keyptar eru á grundvelli reglugerðar um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra vegna bifreiða nr. 905/2021 og bifreiðar sem eru í eigu og eða reknar af hreyfihömluðu fólki, sbr. sömu reglugerð, séu undanþegnar gjaldskyldu kílómetragjalds. Enn fremur verði öðrum örorkulífeyristökum sem ekki uppfylla skilyrði um styrki og uppbætur frá TR veittur afsláttur af kílómetragjaldi.
Enn fremur er lagt til að strætókort verði frádráttarbær frá skatti til að búa til hvata fyrir almenning til að nýta sér almenningssamgöngur í auknum mæli.
ÖBÍ telur ofangreindar tillögur réttmætar í ljósi fyrrgreindra aðstæðna.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka
Gunnar Alexander Ólafsson
hagfræðingur ÖBÍ réttindasamtökum
Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ réttindasamtökum
Kílómetragjald á ökutæki
144. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 26. október 2025

