
Reykjavíkurborg
Það er ánægjulegt að Reykjavíkurborg hefur lagt fram borgarhönnunarstefnu sem er í grófum dráttum vel úr garði gerð og hefur það að markmiði að byggja upp borgina út frá fólkinu sem í henni býr “þar sem samfélag, sérstaða, skipulag, skilvirkni, staðargæði og hönnun mynda leiðarljós.“ Fögur sýn tryggir þó ekki alltaf góða framkvæmd líkt og of mörg dæmi sýna.
Öll hönnun á að vera algild hönnun, hönnun sem lagar sig að þörfum allra. Hönnun sem uppfyllir þarfir og óskir fatlaðs fólks er betri og vandaðri hönnun fyrir alla. Það er vænlegast að horfa fyrst til þeirra þarfa áður en lengra er haldið. Annað greiðir aðeins fyrir jaðarsetningu og útilokun.
ÖBÍ réttindasamtök vilja koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri við Reykjavíkurborg í því skyni að hámarka megi aðgengi og upplifum allra að höfuðborginni svo hún megi verða fyrirmynd annarra byggðarlaga.
Áherslur stefnunnar
Það er gott og göfugt markmið að gera áætlanir sem byggja meira á sjálfbærni og öðrum samgöngumátum en við höfum vanist fram til þessa. Áætlanirnar þurfa að byggja á hvötum frekar en hindrunum.
Sú skylda hvílir á stjórnvöldum að afnema hindranir og gera fötluðu fólki kleift að búa þar sem það kýs og með þeim hætti sem það kýs. Hönnun nýrra hverfa þarf því að hámarka aðgengi fyrir öll og með svigrúm fyrir viðeigandi aðlögun. Fatlað fólk getur búið í nýjum byggðum með góðum tengingum við almenningssamgöngur en ekki allir geta notað strætó, hjólað eða gengið milli staða og alls ekki allt árið um kring.
Ef velja á þéttri íbúabyggð stað í landslagi sem byggir á miklum hæðarmun og útséð er að verði kalt og napurlegt á veturna með erfiðri færð fyrir alla umferð. Það er mjög erfitt að hanna íbúðahúsnæði út frá forsendum algildrar hönnunar ef byggt er uppi í hlíð. Hreyfihamlað fólk á erfitt með hæðarmun og sama hversu útsjónarsamir hönnuðir eru þá er alltaf æskilegra að byggja fjölbýlishús í láglendi. Annað getur átt við um einbýli en lágmarkskrafan ætti alltaf að vera að verslun, þjónusta, skólar og leiksvæði séu vel staðsett og með greiðum aðkomuleiðum.
Á Íslandi er ekki hægt að byggja ný hverfi án bílakjallara undir húsum og ætlast til að sérstök miðlæg bílahús í mörghundruð metra fjarlægð og stöku P-stæði úti á götu geti uppfyllt þarfir íbúa. Talað er fjálglega um blandaðar byggðir í áætlunum en starfsmenn borgarinnar láta samt ítrekað hafa eftir sér að fólk geti bara búið annars staðar ef þetta hentar ekki, eins og það sé ekki skortur á hentugu húsnæði fyrir fatlað fólk í borginni.
Til að minnka vægi einkabílsins þurfa aðstæður fyrir aðra umferð að vera afbragðsgóðar og ýmislegt hefur verið gert til þess. Göngu- og hjólastígar eru víða orðnir mjög góðir en það dugar ekki til. Vinsælt er að benda á Kaupmannahöfn og Málmey sem fyrirmyndarborgir alveg óháð því að aðstæður séu allt aðrar í Reykjavík. Það eru hjólaborgir því að þar er landslagið ekki hæðótt og bert. Sífellt fleiri hjóla hér á landi, sem er frábær þróun, en hlutfall hjólreiðamanna mun aldrei verða í námunda við það sem best gerist erlendis svo sem í Hollandi, Danmörku og á Skáni þar sem hvorki innviðir né náttúra bjóða upp á það.
Almenningssamgöngur eru til fyrirmyndar í ofantöldum borgum. Ferðatíminn er þar ásættanlegur innan borga, leiðarkerfið nær vel út í öll hverfi, tíðni ferða er mikil og netið þétt. Fyrst og fremst er það tiltækt.
Samkvæmt stefnu Reykjavíkurborgar er nú gert ráð fyrir að mikill minnihluti íbúa í nýjum hverfum muni reka bíl, sjá töflu 1. Samkvæmt viðmiðum er minna en bílastæði reiknað á íbúð á svæði 1 og ekki er gert ráð fyrir neinum bílastæðum við námsmannaíbúðir. Helsta ástæðan er að á því svæði er „aðgengi að góðum almenningssamgöngum innan göngufjarlægðar.“ Viðmið umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar um göngufæri eru 400 metrar. Þetta er draumsýn.
Áætlanir þurfa að haldast í hendur en gera það aftur á móti ekki. Víða er búið í nýjum hverfum sem byggð eru samkvæmt bílastæðastefnu Reykjavíkurborgar vegna tengingar við Borgarlínu sem er ekki enn í augsýn. Hvernig eiga íbúar að fara milli staða? Eiga allir að nota akstursþjónustu borgarinnar í millitíðinni? Þar sem stefnan er byggð á dönskum viðmiðum er rétt að minnast á að í Danmörku er bannað að byggja hverfi án virkra tenginga við almenningssamgöngur.
Jafnvel þegar allt þetta verður eins og best verður á kosið munu alltaf einhver þurfa að nota einkabílinn. Það er fólkið til dæmis sem notar stæðiskort fyrir hreyfihamlaða. Fólkið sem notar hjólastóla eða er valt á fótunum. Fólkið sem getur ekki gengið lengra en 200 metra á jafnsléttu. Fólkið sem getur því ekki með góðu móti farið út á biðstöð og upp í vagn í íslenskri veðráttu. Það er fólkið sem þarf áfram að reka bíl eða eiga annars á hættu að einangrast.
Bílastæði
Bílastæði fyrir hreyfihamlaða eiga að vera í 25 m að hámarki frá inngangi byggingar, skv. 6.2.4. gr. byggingarreglugerðar. Öll hönnun mannvirkja þarf að taka mið af þeirri kröfu. Þessum stæðum hefur fækkað í borginni og nýjustu áætlanir gera ráð fyrir nýjum hverfum án bílakjallara undir fjölbýlishúsum og þjónustu. Það bendir til þess að ekki sé nægur skilningur á þörfum fatlaðs fólks. Það nægir ekki að benda á laus stæði í næsta bílastæðahúsi. Þau eru jafnan of langt frá viðkomandi áfangastað í aðkomuleið sem er nær örugglega þakin hindrunum. Þeim mun lengri sem leiðin er, því erfiðara er að tryggja hindrunarlausa aðkomu. Á veturna á Íslandi er nánast tryggt að snjór og klaki liggi á yfirborði og hvass vindur rífi í fólk sem er veikburða vegna hreyfiskerðingar. Það býður upp á bráða hættu.
Birta og skjól – sjónlínur og kennileiti – fjölbreytt form, rými og upplifun
Þétt hefur verið byggt í borginni um langt skeið með þeim afleiðingum að eðlileg birta nær oft ekki inn í húsnæði og kaldir vindstrengir fara um örfoka götur. Það þarf að hleypa inn náttúrulegri birtu inn í rými til a.m.k. tveggja átta og á öllum hæðum. Krafa um birtu hefur alltaf verið veigamikil í okkar löggjöf þar til hún var tekin út úr núgildandi byggingarreglugerð með breytingu á síðasta áratugi. Síðan þá hefur verið byggt of þétt sem gerir útisvæði óaðlaðandi og hleypir ekki birtu inn á neðri hæðir. Það ýtir undir misskiptingu þar sem efnameira fólk getur greitt fyrir eðlilega birtu og hin efnaminni þurfa að lifa í skugga nágranna sinna á neðri hæðum.
Það er mjög jákvætt að borgin leggi nú áherslu á birtu, sól og skjól í áætlunum og vonandi að það skili sér í framkvæmd.
Sorplausnir
„Það getur reynst vandasamt að koma fyrir götugögnum og sorplausnum í miklum halla og því ætti að huga að hentugum svæðum fyrir slíka innviði á fyrstu stigum skipulags“ Hingað til hefur Reykjavíkurborg átt í miklum erfiðleikum með að finna hentug svæði fyrir sorplausnir innan skipulags óháð halla.
Samkvæmt 6.12.8 gr. byggingarreglugerðar skulu sorpgerði og sorpskýli ekki vera fjær inngangi byggingar en svarar 25 metrum. Ástæða þess er að hreyfihamlaðir íbúar þurfa að geta komið af sér heimilissorpi eins og aðrir í húsinu. Með breyttum flokkunaráherslum hafa rutt sér til rúms djúpgámalausnir á lóðum fjölbýlishúsa fyrir fjóra flokka endurvinnslu. Því miður hefur Reykjavíkurborg ekki tekist að finna leiðir í skipulagi til að virða þessa 25 metra reglu og hafa gámarnir oft og tíðum verið í mörghundruð metra fjarlægð frá inngangi í erfiðri umferðarleið fyrir fólk sem á erfitt með að athafna sig.
Í aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 fyrir Keldur og nágrenni er lagt til að „umsjón sorphirðu og endurvinnslu er almennt leyst með sérstöku úrvinnsluhúsi sem tengist hverri fasteign […] Söfnunarkerfi með röralausn liggur að einni eða fleiri söfnunarstöðvum í útjöðrum til að draga sem mest úr viðveru sorphirðubíla í hverfisgötum.“ Með réttri útfærslu gæti þessi tillaga leyst ýmsan vanda.
Gróður og kantsvæði
Í stefnunni er áhersla á allt umlykjandi gróður, en þess þarf að gæta að greiðum umferðarleiðum sé viðhaldið og ekki séu settir upp óþarfa tálmar í veg hreyfihamlaðs fólks. Greina má mikinn vilja til að brjóta upp umhverfið með ýmsum hætti til að gera það manneskjulegra en það þarf að passa að það verði ekki of hlaðið.
Breidd hindrunarlausrar gönguleiðar þarf að vera að minnsta kosti 1,80 m þar sem vænta má mikillar umferðar, þ.e. í opinberu rými. Þetta ákvæði byggingarreglugerðar virðist ekki vera virt í kafla 4.3 um kantsvæði, sbr. mynd:
„Á kantsvæðum má gjarnan nýta smágerðari hellur, götustein eða gróður til þess að mýkja umskiptin milli byggingar og almenningsrýmis,“ segir á bls. 51. Ekki er æskilegt að nota smágerðar hellur ef þær eru úr tilhöggnum náttúrusteini, grassteini eða mislitum hellum sem búa til óreiðukennt mynstur.
„Kantsvæði gegna lykilhlutverki í að skapa sjónræna og rýmislega tengingu milli einkarýmis og almenningsrýmis […]. Slíkar tengingar eru oft styrktar með þröskuldarýmum – þrepum, breiðari kantsvæðum, gróðri eða setsvæðum,“ segir á bls. 54. Það er ekki forsvaranlegt að setja upp þröskulda og þrep sem mynda hindranir fyrir hreyfihamlað fólk.
Inngangar
Í kafla 4.2 segir að góðir inngangar séu “sýnilegir, aðgengilegir og skýrt tengdir þeim hluta byggingarinnar sem þeir þjóna.“ Það er alveg rétt en það er því er áhugavert að á tveimur skýringarmyndum eru sýndir óaðgengilegir inngangar. Aðkomuleið að og inn um innganga þarf að vera greið, þ.e. nægilega breið, án kanta og trappa og sjálfvirk opnun á að vera tengd öllum inngangsdyrum, þar á meðal bílageymslum, í fjölbýlishúsum.
Tröppur og þröskuldar eða þungar hurðar í umferðarleiðum eru ekki aðeins aðgengishindrun heldur öryggisbrot sem getur skapað hættu fyrir fatlað fólk, börn og aldraða sem hafa ekki nægilegan kraft til að komast leiðar sinnar án hjálpar í slíkum aðstæðum.
Árið 2013 var gerð breyting á byggingarreglugerð þar sem skylda um að setja upp sjálfvirkan opnunarbúnað við útidyr og inngangsdyr í aðalumferðarleiðum var milduð.
Breytingin var rökstudd með því að ekki sé víst að dyrnar séu alltaf það þungar að það réttlæti að setja upp slíkan búnað. Í reglugerðinni er viðmiðið um að dyr „skulu þannig frágengnar að allir, þar með talið fólk í hjólastól, geti opnað þær án erfiðleika. Miða skal við að átak við að opna hurð sé mest 25 N á handfangi og mesti þrýstingur eða tog ekki yfir 40 N.“ Það ætti að þýða að þegar átakið er yfir viðmiði eigi að setja upp sjálfvirkan opnunarbúnað.
Framkvæmdin hefur ekki verið með þeim hætti og heilu hverfin rísa upp þar sem hreyfihamlað fólk kemst ekki hjálparlaust inn eða út úr nýjum húsum, enda vanti sjálfvirkan opnunarbúnað við alla innganga.
Athugasemd um orðalag
„Ákjósanlegt er að gólf á jarðhæðum séu í sömu hæð og gangstétt eða dvalarsvæði fyrir utan svo hægt sé að tryggja aðgengi fyrir alla hópa samfélagsins að inngöngum.“ Það er ekki „ákjósanlegt“ heldur skylda skv. ákvæðum byggingarreglugerðar. „Skulu“ væri því rétt orðalag.
Gönguleiðir og útisvæði
Á útisvæðum sem hönnuð eru á grundvelli algildrar hönnunar skal koma fyrir bekkjum með u.þ.b. 150 m millibili meðfram gönguleiðum,“ segir í 7.1.3. gr. byggingarreglugerðar.
Við gangstíga og í öllu almenningsrými þurfa að vera bekkir með armstoðum í góðri sethæð. Það er mikilvægt lýðheilsumál. Fólk með gönguskerðingu þarf að hreyfa sig og njóta umhverfisins, en ekki síður þarf það að geta hvílt sig. Ef bekkir eru af skornum skammti heldur fólk sig frekar heima.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ
Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ
Borgarhönnunarstefna Reykjavíkur
Reykjavíkurborg – Umhverfis- og skipulagssvið. Samráð 24.
Umsögn ÖBÍ, 23. október 2025

