
Fangelsið Litla Hrauni / Google maps
Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um frumvarp til laga um öryggisráðstafanir samkvæmt dómsúrlausn. Mál nr. S-177/2025. ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) eru heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi. Hlutverk samtakanna er að koma fram fyrir hönd fatlaðs fólks í hverskyns hagsmunamálum.
Almennar athugasemdir
ÖBÍ telur ljóst að vel flestir þeir einstaklingar sem munu verða fyrir áhrifum af frumvarpinu, verði það að lögum, teljist til fatlaðra einstaklinga.
ÖBÍ leggur ríka áherslu á mikilvægi þess að á öllum stigum málsins verði horft til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF). Ástæða þess að ráðist var í gerð samningsins á vettvangi Sameinuðu þjóðanna var sú staðreynd að fatlað fólk nýtur síður réttinda sinna, þ.m.t. grundvallar mannréttinda, en fólk almennt. Samningnum er því ætlað að vera leiðavísir um hvernig hægt er að stuðla að því að jafna þann mun.
Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. SRFF skulu aðildarríkin tryggja að fatlað fólk, til jafns við aðra, njóti réttar til frelsis og persónulegs öryggis og sé ekki svipt frelsi sínu með ólögmætum hætti eða geðþóttaákvörðunum og að frelsissvipting í hvaða mynd sem er, skuli fötlun ekki undir neinum kringumstæðum réttlæta frelsissviptingu.
Samkvæmt 2. mgr. skulu aðildarríkin tryggja fötluðu fólk sem svipt er frelsi sínu á einhvern hátt mannréttindi til jafns við aðra í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög og tryggja að meðferð þess samræmist markmiðum og meginreglum samningsins, meðal annars með því að tryggja því viðeigandi aðlögun.
Athugasemdir við einstakar greinar
Um 2. gr.
ÖBÍ fagnar því að fyrsta markmið laganna sé að framkvæmd öryggisráðstafana sé í hvívetna í samræmi við mannréttindi og að réttaröryggi þeirra sem sæta slíkum ráðstöfunum sé tryggt. Þessu makmiði ber að halda á lofti og tryggja að því verði fylgt eftir í allri framkvæmd.
ÖBÍ teljur óljóst hvað átt er við með virkri þátttöku í 4. tl. 2. gr. Lagt er til að það verði skýrt nánar í textanum.
ÖBÍ tekur undir markmið 5. tl. 2. gr. um að gætt sé að sjálfsákvörðunarrétti og lífsgæðum innan marka ráðstafana sem skjólstæðingum er gert að sæta. ÖBÍ telur að vísa mætti til 12. gr. SRFF í frumvarpinu eða taka efni þess ákvæðis upp í lögin í viðeigandi samhengi.
Um 4. gr.
ÖBÍ fagnar því að byggt sé á hugtaki viðeigandi aðlögunar í frumvarpinu, sbr. 13. tl. 4. gr. þess. ÖBÍ telur að vísa mætti oftar til viðeigandi aðlögunar í efnisákvæðum frumvarpsins eins og nánar er skýrt hér að neðan.
ÖBÍ leggur áherslu að að hugað verði vel að aðgengismálum við útfærslu hinnar nýju stofnunar. Huga þarf m.a. að aðgengi fyrir hreyfihamlaða, aðgengi fyrir sjón- og heyrnaskerta og skynrænu aðgengi.
Um 7. gr.
ÖBÍ fagnar ákvæði um fagráð og aðkomu hagsmunasamtaka fatlaðs fólks að því. ÖBÍ leggur til að í öllum þeim tilvkum sem kveðið er á um skyldu til atvikaskráningar í frumvarpinu, t.d. vegna nauðungar, verði tryggt að fagráð hafi aðgang að slíkum gögnum.
Um 10. gr.
Í 10. gr. er ákvæði um að miðstöðin skuli bjóða upp á regluleg námskeið, m.a. um mannréttindi. ÖBÍ leggur til að bætt verið við að starfsfólk fái fræðslu um málefni fatlaðs fólks, þ.m.t. um hugmyndafræðina að baki SRFF. ÖBÍ telur að uppfylla beri kröfur skv. 2. mgr. 13. gr. SRFF um fræðslu starfsfólks stofnunarinnar.
Um 25. gr.
Í 25. gr. er ákvæði um einstaklingsbundna þjónustuáætlun. ÖBÍ leggur til að bætt verði við ákvæðið nánari lýsingu á með hvaða hætti mat á þjónustuþörf verður notað til að tryggja viðeigandi heilbrigðis og velferðarþjónustu fyrir viðkomandi einstaklinga. Einnig að vísað verði til viðeigandi aðlögunar og hvernig hún verði tryggð á grundvelli matsins.
Um 27. gr.
ÖBÍ gerir athugasemd við að beiting nauðungar verði heimil samkvæmt lögunum til að koma í veg fyrir yfirvofandi stórfellt eignatjón. Hafa verður í huga hversu alvarlegt mannréttindabrot nauðung er í eðli sínu og að nauðung á grundvelli fötlunar telst til ólögmætrar mismununar.
Um ákvæði VI. og VII. kafla
ÖBÍ leggur til að í ákvæðum VI. og VII. kafla þar sem kveðið er á um þvinganir, takmarkanir, haldlagningu, upptöku o.þ.h. verði ætíð bætt ákvæði um skyldu til atvikaskráninga. Líkt og lagt var til varðandi 7. gr. skuli tryggt að slíkar atvikaskráningar verði aðgengilegar fagráði samkvæmt þeirri grein.
Um 30. gr.
Líkt og lagt var til í athugasemd við 5. tl. 2. gr. leggur ÖBÍ til að vísað verði til 12. gr. SRFF eða efni ákvæðisins verði tekið upp í frumvarpið.
Um 36. gr.
ÖBÍ bendir á að í 36. gr. vantar ákvæði um rit- og tánkmálstúlkun og leggur til að bætt verði úr því.
ÖBÍ er reiðubúið til samráðs og samvinnu á öllum stigum þessa máls. ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum verði ástæða til.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ
Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ
Drög að frumvarpi til laga um öryggisráðstafanir samkvæmt dómsúrlausn
Mál nr. S-177/2025. Félags- og húsnæðismálaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 10. október 2025

