Skip to main content
KjaramálUmsögn

Breyting á ýmsum lögum vegna fjár­laga 2026

By 2. október 2025nóvember 14th, 2025No Comments

Hér á eftir verða lagðar fram athugasemdir ÖBÍ við einstaka liði og þætti frumvarps til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2026.

Verðlagsuppfærsla krónutöluskatta

Í frumvarpinu er lagt til að svokallaðir krónutöluskattar hækki um 3.7% í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins. Í ljósi þess að verðbólga hefur verið þrálát undanfarin ár og vel yfir verðlagsmarkmiðum Seðlabanka Íslands (2.5%) lítur ÖBÍ svo á að fyrrnefnd hækkun viðhaldi hærri verðbólgu en verðbólgumarkmiðin segja til um. Að mati ÖBÍ hefði það sýnt djörfung ef lagt hefði verið til að krónutöluhækkanir hefðu hækkað um 2.5% og með því hefði ríkisvaldið gengið fram fyrir skjöldu í baráttunni við verðbólguna og stuðlað að því að viðmið Seðlabankans næðust.

  • ÖBÍ leggur til að krónutöluskattar hækki um 2,5%.

Skerðing á lögum um tekjuskatt nr. 90/2003 – Lækkun barna- og vaxtabóta

Í frumvarpinu er lagt til að barnabætur verði óbreyttar á milli ára, þ.e. 21.000 milljónir, en hækki ekki í samræmi við verðlagsforsendur. Þetta þýðir í raun að barnabætur skerðast um 777 milljónir á milli ára miðað við 3.7% hækkun verðlags. Að auki lækka barnabætur sökum þess að viðmiðunarfjárhæðir verða ekki uppfærðar. Sú ákvörðun kemur sér verst fyrir tekjulægstu hópana, svo sem einhleypa foreldra með örorkulífeyri. Sem dæmi þá skerðir hækkun örorkulífeyris vegna kerfisbreytinga frá 1. september 2025 barnabætur foreldra sem fá greiddan örorkulífeyri eða sjúkra- og endurhæfingargreiðslur.

  • ÖBÍ leggur til að framlög vegna barnabóta hækki um 777 milljónir svo að þær viðhaldi raungildi sínu.

Vaxtabætur gegna mikilvægu hlutverki í að vernda tekjulága húsnæðiseigendur gegn sveiflukendum hækkunum vaxta í óstöðugu efnahagsumhverfi. ÖBÍ leggst gegn fyrirhugaðri snarpri lækkun vaxtabóta og niðurlagningu kerfisins árið 2027. ÖBÍ telur brýnt að stórar kerfisbreytingar sem þessar fái lýðræðislega umræðu og að samráð verði haft við hagaðila áður en ákvörðun er tekin. Í frumvarpinu er lagt til að vaxtabætur lækki töluvert á milli ára. Árið 2025 voru vaxtabætur um 2.100 milljónir en lagt er til að þær lækki niður í 800 milljónir og leggist af árið 2027. Í raun nemur lækkunin 1.377 milljónum sé tekið tillit til verðlagsbreytinga. Þessi lækkun vaxtabóta hefur sömu áhrif og nefnt er að ofan varðandi barnabætur og hittir fólk með lágar og meðaltekjur verst, líkt og ungt fólk, öryrkja og aldraða.

Í frumvarpinu er lagt til að húsnæðisbætur lækki um hálfan milljarð en þegar tekið er tillit til verðlagsbreytinga nemur lækkunin 927 milljónum. Það sama gildir um húsnæðisbætur sem og um barna- og vaxtabætur, það er að fyrirhuguð lækkun hittir tekjulága hópa verst.

  • ÖBÍ leggur til að vaxtabætur hækki um 1.377 milljónir í stað 800 milljóna framlags svo þær haldi sínu verðgildi.
  • ÖBÍ leggur til að hækka húsnæðisbætur fyrir árið 2026 um 927 milljónir til að bregðast við áhrifum 3,7% verðbólgu.

Hækkun skrásetningargjalds í opinbera háskóla

Í frumvarpinu er lagt til að skrásetningargjald í opinbera háskóla hækki úr 75.000 kr. í 100.000 kr. með vísan til þess að gjaldið hefur ekki hækkað frá árinu 2013. ÖBÍ telur hækkunina of bratta. Verði hækkunin að lögum leggur ÖBÍ frekar til að gjaldið verði hækkað í áföngum yfir lengri tíma. ÖBÍ stendur vörð um jafnt aðgengi að námi en kostnaður vegna náms getur verið hindrun fyrir fatlað fólk sem tilheyrir oft tekjulágum hópum.

  • ÖBÍ leggur til að draga úr hækkun skrásetningargjalda í opinbera háskóla.

Framkvæmdasjóður aldraðra

Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2026 er gert ráð fyrir því að 3.740 milljónir renni í Framkvæmdasjóð aldraðra. Í frumvarpinu er óskað eftir framlengingu á bráðabirgðaákvæði þar sem kveðið er á um að Framkvæmdasjóði aldraðra sé heimilt að verja fé til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða. Verði þetta samþykkt verður 25% af útgjöldum sjóðsins ráðstafað í rekstrarkostnað hjúkrunarrýma í stað uppbyggingar á hjúkrunarrýmum. Að mati ÖBÍ á gjald, sem allir á aldrinum 16–79 ára greiða til ríkissjóðs, að renna óskipt til Framkvæmdasjóðs aldraðra, hvert hlutverk er að byggja upp hjúkrunarrými fyrir aldraða.

  • ÖBÍ leggur til að framlög til Framkvæmdasjóðs aldraðra verði nýtt til uppbyggingar hjúkrunarrýma en ekki í rekstur.

Hækkanir umfram verðlag

Í 39.–50. gr. frumvarpsins eru tilgreindar hækkanir á gjöldum sem er að finna í lögum um aukatekjur ríkissjóðs nr. 88/1991. Þar eru lagðar til talsverðar hækkanir sem auka kostnað almennings, þar með talið öryrkja. Sem dæmi hækkar kostnaður við að ljúka einkaskiptum á dánarbúi úr 13.000 kr. í 20.300 kr. eða um 56.1%. Til viðbótar þessu er sett á nýtt gjald þegar sótt er um leyfi til setu í óskiptu búi hjá sýslumanni upp á 11.200 kr.

Fleiri dæmi snúa að hjúskap, en lagt er til að gjald vegna skráningar kaupmála hjá sýslumanni hækki úr 9.700 kr. í 13.600 kr. eða um 40%, og að leyfi fyrir lögskilnað hækki úr 6.500 kr. í 9.100 kr. eða um 40%. Samkvæmt frumvarpinu á að fella brott 50. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 og hækka verulega gjald fyrir skipun ráðsmanns og breytingar á störfum hans, úr 5.000 kr. í 21.655 kr. eða um 333% hækkun. Hér að ofan hafa verið tilgreind nokkur dæmi um töluverðar hækkanir, í einstökum tilfellum yfir 330%, á gjöldum sem almenningur þarf að leggja út vegna breyttra aðstæðna sinna.

  • ÖBÍ leggur til hóflegar hækkanir gjalda í lögum um aukatekjur ríkissjóðs.

Við það má bæta að ríkisstjórnin hefur lagt mikla vinnu í að finna gjöld sem hafa ekki hækkað í takt við verðlag. Að mati ÖBÍ ætti ríkisstjórnin einnig að leggja sams konar vinnu í að uppfæra eigna- og tekjuviðmið og bætur sem ekki hafa hækkað í takt við verðlagsþróun, svo sem örorkulífeyri.

Ekkert um okkur án okkar!

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka

Gunnar Alexander Ólafsson
félagsráðgjafi ÖBÍ

Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
hagfræðingur ÖBÍ

Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ


Breyting á ýmsum lögum vegna fjár­laga 2026
2. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 2. október 2025