
© UNCHR / Flóttamannnastofnun Sameinuðu þjóðanna
ÖBÍ réttindasamtök líkt og fjöldi annarra mannúðarsamtaka, skilaði umsögn um drög að frumvarpi um brottfararstöð í samráðsgátt stjórnvalda í október 2025.
Fjölmörg samtök hafa lýst alvarlegum áhyggjum af þeim áformum sem felast í frumvarpinu. Áhyggjur ÖBÍ eru þær sömu og fyrr og ítrekaðar eru í fyrri athugasemdum. Að mati ÖBÍ hefur lítið sem ekkert tilllit verið tekið til athugasemda þeirra samtaka sem lýst hafa áhyggjum af málinu. Helstu áherslur ÖBÍ varðandi frumvarpið eru eftirfarandi:
• Óheimilt verði að vista börn í brottfararstöð
• Tryggja verður vernd og mannréttindi fatlaðs fólks til hins ítrasta
• Mannréttindi og þekking á málefnum fólks á flótta eiga að vera grundvöllur frumvarps um þetta efni
• Draga ætti verulega úr valdbeitingum og strangt eftirlit og skylda til atvikaskráninga verði tryggð
Óheimilt verði að vista börn í brottfararstöð
ÖBÍ leggst sem fyrr gegn því að heimilt verði að vista börn í brottfararstöð. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna er mótfallin varðhaldsvistunum barna, þ.m.t. barna á flótta. Byggir sú afstaða m.a. á því að samkvæmt rannsóknum getur varðhaldsvistun barna, óháð ástæðum og aðbúnaði, valdið börnum skaða. Samkvæmt stofnuninni getur það aldrei talist barni fyrir bestu að vera varðhaldsvistað.
Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) er sömuleiðis mótfallið varðhaldsvistunum barna. ÖBÍ tekur heils hugar undir athugasemdir sem önnur mannúðarsamtök á Íslandi hafa gert þess efnis að leitast verði við að nýta aðra valkosti en varðhaldsvistun (e. alternatives to detention).
Tryggja verður vernd og mannréttindi fatlaðs fólks til hins ítrasta
Að mati ÖBÍ ber að vernda faltað fólk frá því að vera vistað í brottfararstöð. Nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hefur nýlega gagnrýnt kanadísk stjórnvöld fyrir varðhaldsvistanir á fötluðum umsækjendum um alþjóðlega vernd og farendum og kallað eftir að þeim verði hætt.
Þá mælir Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna almennt gegn varðhaldsvistun fatlaðs fólks. ÖBÍ gagnrýnir að við gerð frumvarpsins virðist lítið tillit hafa verið tekið til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) sem Alþingi hefur nú samþykkt að lögfesta. Í frumvarpinu er ekki vísað til réttinda fatlaðs fólks heldur fellur fatlað fólk undir skilgreiningu einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu.
Að mati ÖBÍ er það ekki fullnægjandi til að tryggja mannréttindi fatlaðs fólks samkvæmt hinum nýsamþykktu lögum. SRFF grundvallast á þeirri staðreynd að fatlað fólk nýtur mannréttinda í mun minna mæli en annað fólk. Ákvæði hans kveða því á um tilteknar skyldur ríkja til að jafna það misrétti.
ÖBÍ bendir á að þegar hið opinbera telur þörf á að frelsissvipta einstaklinga er það oft í tengslum við fötlun viðkomandi. Í 1. mgr. 14. gr. SRFF kemur fram aðildarríkin skuli tryggja að fötlun skuli ekki undir neinum kringumstæðum réttlæta frelsissviptingu. Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. skulu aðildarríkin tryggja fötluðu fólki sem svipt er frelsi sínu á einhvern hátt mannréttindi til jafns við aðra í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög og tryggja að meðferð þess samræmist markmiðum og meginreglum samningsins, meðal annars með því að tryggja því viðeigandi aðlögun. Í ákvæðum frumvarpsins er hvergi vísað til slíkra sérstakra réttinda fatlaðs fólks.
Leggja ber áherslu á að tryggja fötluðu fólki á flótta viðeigndi heilbrigðis- og félagsþjónustu og vernda það frá sviptingum á frelsi þess og öðrum mannréttindum.
Mannréttindi og þekking á málefnum fólks á flótta eiga að vera grundvöllur frumvarps um þetta efni
Að mati ÖBÍ ætti að hefja vinnu við gerð frumvarpsins að nýju með breyttum áherslum. Fólk á flótta eru einstaklingar í viðkvæmri stöðu. Í frumvarpi sem felur í sér heimildir til frelsissviptinga og valdbeitinga gegn slíkum einstaklingum án sakar verður grundallaráherslan að vera á mannréttindi og mannúð sem og þekkingu á málefnum fólks á flótta. Að mati ÖBÍ er slíkur grundvöllur ekki tryggður í þessu frumvarpi. Frumvarpið einkennist fremur af því að vera byggt á lögum um fullnustu refsinga.
Að mati ÖBÍ er nokkur þversögn að í frumvarpi til laga um öryggisráðstafanir samkvæmt dómsúrlausn sem nýlega var til samráðs er áhersla á mannréttindi og velferð mun meiri en í því frumvarpi sem hér er til umsagnar. Þrátt fyrir það er brottfararstöð ætluð einstaklingum sem hafa sér ekkert til sakar unnið.
Að mati ÖBÍ þarf að kveða skýrt á um rétt mannúðarsamtaka til að hafa eftirlit með aðstæðum einstaklinga í brottfararstöð. Enn fremur leggur ÖBÍ til að í frumvarpinu verði kveðið á um fagráð sem sé til ráðgjafar stjórnendum brottfararstöðvar og hafi eftirlit með aðstæðum og mannréttindum einstaklinga. Í fagráði ættu m.a. sæti tilgreind félög, t.d. Rauði krossinn.
Þá leggur ÖBÍ til að í lögunum verði vísað til OPCAT eftirlits Umboðsmanns Alþingis, eftirlitsskyldna Mannréttindastofnunar Íslands og annarra eftirlitsaðila.
Draga ætti verulega úr valdbeitingum og strangt eftirlit og skylda til atvikaskráninga verði tryggð
ÖBÍ telur að draga ætti verulega úr þeim þvingunarúrræðum sem mælt er fyrir um í III. kafla frumvarpsins. Að mati ÖBÍ er með þeim farið of langt út fyrir þann tilgang frumvarpsins að tryggja að útlendingur sé á tilteknum stað þegar kemur að því að framkvæma flutning frá landinu. ÖBÍ leggur til að í tengslum við öll slík úrræði verði kveðið á um stranga skyldu til atvikaskráninga og að þær verði gerðar eftirlitsaðilum aðgengilegar sem og fagráði, sbr. tillögu í 1. kafla hér að framan.
ÖBÍ hugnast ekki ákvæði 15. og 16. gr. um heimild til beitingar agaviðurlaga. Að mati ÖBÍ er með því enn fremur farið of langt út fyrir tilgang frumvarpsins.
ÖBÍ leggst gegn hvers konar valdbeitingu og agaviðurlögum á hendur börnum og ítrekar andstöðu við að yfir höfuð verði heimilt að vista börn í brottfararstöð.
Aðrar athugasemdir
ÖBÍ gagnrýnir að við framsetningu málsins sé gefið í skyn að íslenska ríkinu sé skylt samkvæmt tilskipun 2008/115/EB að koma á fót sérútbúinni varðhaldsmiðstöð (e. specialised detention center). Að mati ÖBÍ felur tilskipunin ekki í sér slíka skyldu. Það sem raunverulega skiptir máli er að hætt verði þeirri framkvæmd sem nú er viðhöfð, að vista umsækjendur um alþjóðlega vernd í fangelsum við óviðunandi aðstæður. Það sem tilskipunin áskilur hins vegar er að vægari úrræða sé ætíð leitað áður en notast er við varðhald hafi viðkomandi ríki ákveðið að fara þá leið að notast við varðhald.
ÖBÍ mun koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum gerist þess þörf.
Ekkert um okkur án okkar!
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ
Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBí
Brottfararstöð
230. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 27. nóvember 2025
ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) eru heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi. Hlutverk samtakanna er að koma fram fyrir hönd fatlaðs fólks í hverskyns hagsmunamálum.

