
Wikimedia Commons
ÖBÍ réttindasamtök gera eftirfarandi athugasemdir við frumvarp um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um heilbrigðisþjónustu (hækkun almenns frítekjumarks ellilífeyris o.fl.). ÖBÍ er reiðubúið til samráðs, ráðgjafar og samvinnu á öllum stigum málsins.
Um 4. gr. breytingar á ákvæðum laga um almannatryggingar um aldursviðbót
ÖBÍ lýsa yfir stuðningi við þá tillögu frumvarpsins að bundið verði í lög að aldursviðbót á lífeyri örorkulífeyristaka haldist ævilangt. Samkvæmt núgildandi lögum missa örorkulífeyristakar aldursviðbótina við 67 ára aldur. Breytingin er til þess fallin að bæta stöðu fjölda fólks sem vegna langvinnra veikinda, slysa eða fötlunar ná ekki eða aðeins takmarkað að ávinna sér lífeyrisréttindi í lífeyrissjóðum.
Í greinargerð með frumvarpinu um 4. gr.) kemur fram hvaða hópar örorkulífeyristaka munu eiga rétt á aldursviðbót til viðbótar við ellilífeyri verði frumvarpið að lögum. Annars vegar séu það þau sem þegar eru komin á ellilífeyri, en uppfylltu á fyrri tíð það skilyrði að hafa verið metin til a.m.k. 75% örorku fyrir 44 ára aldur. Hins vegar séu það þau sem hefja munu töku ellilífeyris eftir að greiðsluflokkurinn kemur til framkvæmda og uppfylla á því tímamarki skilyrði fyrir greiðslu nýs örorkulífeyris eða hlutaörorkulífeyris.
ÖBÍ bendir á að ýmsir hópar sem rétt eiga á aldursviðbót í núverandi almannatryggingakerfi munu ekki eiga rétt á aldursviðbót samhliða ellilífeyri samkvæmt frumvarpinu. ÖBÍ hvetur til þess að tryggt verði að þeir sem þurfi á viðbótinni að halda njóti hennar. Ljóst er að þeir sem áttu rétt á aldursviðbót í greiðslukerfinu sem var í gildi til 31. ágúst 2025, en fengu örorkumat 44 ára eða eldri, munu að óbreyttu ekki eiga rétt á aldursviðbót samhliða ellilífeyri, ÖBÍ telur það alvarlega afturför. Samkvæmt fyrra greiðslukerfi áttu þeir sem fengu greiddan endurhæfingarlífeyri rétt á aldursviðbót. Það á ekki við í núverandi greiðslukerfi sem tók gildi 1. september sl.
Um 2. gr. um að leggja niður stjórn TR
Í stað þess að leggja stjórn Tryggingastofnunar (TR) niður, leggur ÖBÍ til að hlutverk stjórnarinnar verði eflt til að veita starfsemi TR eftirlit og aðhald. Verði það gert með m.a. með því að tryggja í lögum setu fulltrúa lífeyristaka í stjórninni. Til dæmis gætu hagsmunasamtök fatlaðs fólks og eldri borgara haft rétt til að tilnefna stjórnarmenn.
Um 5. gr. Hækkun almenns frítekjumarks ellilífeyris
ÖBÍ styður kröfu Landssamband eldri borgara (LEB) um að almenna frítekjumarkið verði kr. 100.000.- (eitt hundrað þúsund krónur) eigi síðar en 1. janúar 2027 [Umsögn LEB um frumvarpið, dags. 2. desember 2025].
Ekkert um okkur án okkar!
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka
Gunnar Alexander Ólafsson
hagfræðingur ÖBÍ réttindasamtaka
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
félagsráðgjafi ÖBÍ réttindasamtaka
Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ réttindasamtaka
Almannatryggingar og heilbrigðisþjónusta (hækkun almenns frítekjumarks ellilífeyris o.fl.)
269. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 5. desember 2025
ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) eru heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi. Hlutverk samtakanna er að koma fram fyrir hönd fatlaðs fólks í hverskyns hagsmunamálum.

