
Adobe Stock
ÖBÍ réttindasamtök fagna frumvarpi fjármála- og efnahagsráðuneytisins um lögfestingu tilskipunar ESB 2016/2102 í íslensk lög. Aðgengilegar stafrænar lausnir eru forsenda þess að fatlað fólk geti nýtt sér þjónustu hins opinbera til jafns við aðra, í samræmi við ný lögfestan samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF).
ÖBÍ vill koma því á framfæri að Ísland er síðast í röð vestrænna ríkja til þess að innleiða stafrænt aðgengi í lög, sem hefur verið lögfest bæði innan ESB (EAA) og í Bandaríkjunum (ADA). Í starfi okkar með stafrænt aðgengi fyrir fatlað fólk hefur ekki borði á neinni neinni andstöðu við slíka löggjöf, heldur hafa allir aðilar sem ÖBÍ hefur unnið með talið það ávinning að fá skýr viðmið. Staða Íslands utan stafræns aðgengis hefur flækst fyrir nýsköpun og einangrað ÖBÍ og fatlað fólk hvað alþjóðasamstarf varðar og sóknarfæri á alþjóðavísu.
- ÖBÍ telur frumvarpið til lykilskrefa í átt að raunverulegu jafnrétti á sviði stafrænnar stjórnsýslu. Með lagasetningunni er tryggt að réttindi fatlaðs fólks séu ekki aðeins hluti af almennri stefnumótun heldur lagaleg skylda, með eftirliti og úrlausnarleiðum.
- Í því samhengi ítrekar ÖBÍ nauðsyn þess að vísa til Evrópustaðalsins EN 301 549 í reglugerð, svo að krafa um aðgengi sé ekki túlkuð of þröngt eða mismunandi eftir stofnunum.
Eftirlit þarf að vera sjálfstætt, gagnsætt og með raunhæfum viðurlögum ef opinber aðili bregst skyldum sínum. Þá þarf að tryggja einfaldar kvörtunar- og úrlausnaleiðir fyrir almenning, svo notendur sem verða fyrir hindrunum geti leitað réttar síns. - Breytingar á vefsetrum og smáforritum verður að þróa í nánu samráði við hagsmunasamtök fatlaðs fólks og notendur. Aðgengi er ekki hægt að meta einungis út frá tæknilegum stöðlum – raunveruleg notendaprófun eru nauðsynlegar.
- Mikilvægt er að hið opinbera tryggi fræðslu og stuðning við opinbera aðila, svo þeir hafi getu til að uppfylla kröfurnar. Sérstaklega hvað varðar útboðsferla og innkaup á lausnum.
- Fjölmiðlar sem nýta opinbera styrki þurfa að lúta sömu kröfum með einhverjum hætti þó að það verði ekki gert með þessari löggjöf.
- Mikilvægt er að grunn- og leiksskólar séu teknir með í þessa lagasetningu, þar sem það er undirstaða fyrir þátttöku og virkni bæði fyrir fötluð börn og fatlaða foreldra.
- Mikilvægt er að virkja fræðasamfélagið til þess að tryggja að þær kröfur sem gerðar eru til lausna verði hluti af menntun í bæði vefhönnun og forritun. Þetta er einnig mikilvægt í því skyni að tryggja samkeppnishæfni íslenskra lausna í alþjóða samhengi.
Hvað varðar athugasemdir í greinargerð um tímabundin neikvæð áhrif á ríkissjóð er vert að hafa í huga þann kostnað sem fellur til þegar stór hluti fatlaðs og eldra fólks er ósjálfbjarga gagnvart stafrænni stjórnsýslu, það á bæði við um kostnað hjá ríki og sveitarfélögum en ekki síður hjá aðstandendum og fötluðu fólki – sem verður af lögbundinni þjónustu.
Í dag eru meira eða minna öll samskipti á Íslandi stafræn, og þarf að fara í gegnum óteljandi stafræn viðmót á degi hverjum. Allt frá því að athuga veður og færð, skipulag skóladagsins, skráningu í nám, notkun heilbrigðisþjónustu, sækja um styrki eða vinnu eða ganga frá skattaskýrslunni. Fyrir fatlað fólk getur hvert einasta skref á þessari stafrænu vegferð verið hindrun. Það getur tekið óratíma að leysa einfalda hluti eða verið ógjörningur sökum hönnunargalla. Það er ótækt í samfélagi sem vill að fatlað fólk sé virkt og lifi sjálfstæðu lífi. Enda hefur engin fært rök fyrir því að stafræn þjónusta hins opinbera eigi að vera óaðgengileg. Raunin er hins vegar sú að áherslan týnist í öllum þeim ákvörðunum sem taka þarf þegar verið er að útbúa stafrænar lausnir. Það krefst að lögð sé áhersla á algilda hönnun á öllum stigum. Það kostar ekki meira að forrita og hanna með aðgengi að leiðarljósi, en tvíverknaður er ávallt kostnaðarsamur.
ÖBÍ styður heilshugar markmið frumvarpsins en leggur ríka áherslu á að lagasetningin verði ekki aðeins „rammalög“ á blaði. Hún þarf að tryggja raunveruleg réttindi með skýrum kröfum, eftirliti, úrræðum og virkri þátttöku notenda.
ÖBÍ hefur, eins og fram hefur komið í fyrri umsögnum, fullan skilning á því að RÚV sé undanskilið þessari löggjöf. Eins og fram kemur í greinargerð rímar það við útfærslur innan ESB, þar sem þessi löggjöf á uppruna sinn. En við það má bæta að ríki norður Evrópu, sem við oft berum okkur saman við, sáu litla ástæðu til þess að þessi lög myndu eiga við ríkisfjölmiðla þar í landi. Hefur það að gera með þá staðreynd að þessir fjölmiðlar eru, svo að segja, fæddir með aðgengislöggjöf sem þeir starfa innan. Þannig hvíla ríkar skyldur á ríkisfjölmiðlum Norðurlanda um aðgengi fyrir fatlað fólk. Ef þingið ákveður að undanskilja RÚV er það því áríðandi að gengið verði frá sambærilegri aðgengislöggjöf hvað varðar alla fjölmiðlun sem nýtur opinbera styrkja. Þá ber sérstaklega að athuga að aðgengi sé tryggt hjá þeim aðilum sem sinna almannavörnum.
Í 5. kafla greinargerðar með frumvarpinu, sjá bls. 5-6, vísa frumvarpshöfundar til athugasemda í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um drög að frumvarpinu í Samráðsgátt stjórnvalda. Segir þar að vegna umfjöllunar í umsögn sambandsins um stöðu sveitarfélaga sem rekstraraðila skóla og að þau kunni að vera háð utanaðkomandi birgjum um tölvukerfi skuli tekið fram að það er ávallt á ábyrgð þess sem veitir þjónustu að tryggja að hún uppfylli skilyrði laga, óháð því við hvaða birgja er skipt. Hér vísa frumvarpshöfundar til þess að það sé á ábyrgð sveitarfélaganna sjálfra að tryggja aðgengilegar stafrænar lausnir. ÖBÍ tekur undir þessi viðbrögð frumvarpshöfunda og lýsir jafnframt áhyggjum af þeirri afstöðu sambandsins sem birtist í umsögninni til ábyrgðar sinnar þegar kemur að stafrænu aðgengi. Að krefjast þess að fá að hafa óaðgengilegar lausnir í leik- og grunnskóla brýtur annars vegar á rétti fatlaðs fólks til menntunar og hins vegar á rétti fatlaðs fólks til þess að sinna foreldrahlutverki.
Líkt og áður hefur komið fram hefur Alþingi lögfest samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Samningurinn kveður á um að tryggja verður fötluðu fólki mannréttindi til jafns við annað fólk og leggur bann við hvers konar mismunun á grundvelli fötlunar, sbr. ákvæði 2. mgr. 5. gr. samningsins auk fleiri ákvæða. Samkvæmt 9. gr. samningsins ber íslenskum stjórnvöldum að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja fötluðu fólki aðgengi, til jafns við aðra, þ.m.t. samskiptatækni og -kerfi og að annarri aðstöðu og þjónustu sem opin er eða veitt almenningi. Slíkar viðeigandi ráðstafanir skulu samkvæmt ákvæðinu fela í sér að bera kennsl á og útrýma hindrunum og tálmunum aðgengis og skulu meðal annars ná til upplýsinga og samskipta auk annarrar þjónustu, þar á meðal rafrænnar þjónustu, sbr. b)- liður 1. mgr. Samkvæmt 2. mgr. 24. gr. samningsins skulu aðildarríkin tryggja réttinn til menntunar með því að tryggja að fatlað fólk sé ekki útilokað frá almenna menntakerfinu á grundvelli fötlunar og að viðeigandi aðlögun sé veitt í samræmi við þarfir einstaklinga. Að auki bendir ÖBÍ á að það er ekkert því til fyrirstöðu að sveitafélög velji á milli aðgengilegra stafrænna lausna enda mikið framboð af vottuðum lausnum.
Í fyrrnefndri umsögn Samband íslenskra sveitarfélaga vísar sambandið til ákvæðis í eigin stefnumörkun um að við innleiðingu stafrænna lausna þurfi að gæta að því að þær séu aðgengilegar fyrir alla hópa samfélagsins. ÖBÍ bendir á að hvorki í stefnumörkuninni né á öðrum vettvangi hefur verið skilgreindur neinn ábyrgðaraðili né viðmið fyrir stafrænt aðgengi. Að mati ÖBÍ verður heldur ekki séð að stefnan hafi skilað framförum í stafrænu aðgengi. Fjöldi fatlaðs fólks upplifir í dag þjónusturof, einangrun og auknar byrgðir í takt við stafvæðingu þjónustu sveitafélaga. Sveitarfélögin eru ábyrg fyrir því að tryggja að þær stafrænu lausnir sem þau notast við sem veitendur þjónustu séu aðgengilegar fötluðu fólki á jafnréttisgrundvelli. Ef sú ábyrgð er ekki öllu ljós er mikilvægi þess frumvarps sem hér er til umsagnar þeim mun meira.
ÖBÍ tekur undir mikilvægi dagsekta, sbr. 9. gr. frumvarpsins. Von ÖBÍ er þó að ekki verði nauðsynlegt að beita þeim, enda ætti öllum opinberum aðilum að reynast auðsótt að tryggja stafrænt aðgengi sem hluta af þjónustu sinni. ÖBÍ leggur til að komi til greiðslu dagsekta muni þær renna til TMF tölvumiðstöðvar fatlaðra sem er sjálfseignarstofnun sem gerir fötluðu fólki kleift að hagnýta sér stafræna tækni við nám og störf. Stofnunin er undirfjármögnuð og reynt hefur verið að sækja auka fjárveitingu til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga en án árangurs enn sem komið er. Því þó að aðgengilegar lausnir séu grunnforsenda fyrir þátttöku fatlaðs fólks er mikilvægt að huga að færni hópsins. Áríðandi er hægt sé að sækja sér hæfingu og endurhæfingu í notkun stoðtækni og aðgengislausna sem krefjast þjálfunar, aðgengi að upplýsingum um búnað og námskeiðum um notkun hans.
Við vonum að þessar athugasemdir komi að gagni við umræðu um frumvarpið innan nefndarinnar og erum ávallt reiðubúin til þess að svara spurningum sem upp geta komið.
Ekkert um okkur – án okkar!
Virðingarfyllst,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka
Rósa María Hjörvar
stafrænn verkefnastjóri ÖBÍ
Aðgengi að vefsetrum og smáforritum opinberra aðila
264. mál, lagafrumvarp
Umsögn ÖBÍ, 9. desember 2025

