Skip to main content
AðgengiHeilbrigðismálHúsnæðismálUmsögn

Aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024–2028

By 11. apríl 2023apríl 13th, 2023No Comments

„Í 54. gr. sérstakrar skýrslu Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks frá 2019 er tekið fram að eldra fólk með fötlun á ekki að vera vistað varanlega á stofnun í þeim eina tilgangi að fá heilbrigðisaðstoð.“

Umsögn ÖBÍ – réttindasamtaka um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024–2028, þskj. 1351, mál 860.

ÖBÍ – réttindasamtök telja mikilvægt að stjórnvöld skapi skýra framtíðarsýn í þjónustu við eldra fólk. Eldri borgarar eru fjölbreyttur samfélagshópur með ólíkar þjónustuþarfir sem þingsáætlunartillagan þarf að taka tillit til. Tillagan er umfangsmikil og mælir fyrir um margar aðgerðir sem vert er að styðja við. ÖBÍ vill þó koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum.

1.
Bætt aðgengi fólks með heilabilun og aðstandenda þeirra að sérhæfðum stuðning dugir skammt ef þjónustunotendur vita ekki að þjónustan sé til staðar. Brýnt er að tilgreina þann fagaðila sem ber ábyrgð á að upplýsa þjónustunotendur um allan þann sérhæfða stuðning sem standi til boða í upphafi. Þannig er stuðlað að því að allir einstaklingar fái sömu upplýsingar óháð búsetu og persónulegri þekkingu á velferðarkerfinu.

2.
Við myndun starfshóps um endurskoðun laga og bráðabirgðarákvæðis á aðgerðaráætluninni er brýnt að þjónustunotendur og aðstandendur þeirra eigi fulltrúa í vinnu starfshópsinns. Ljóst er að tillögur starfshópsins munu vega þungt við endurskipulagningu laga og annarra kerfisbreytinga. Því þarf að tryggja að þeir einstaklingar sem málið varða eigi sér málsvara á frumstigi endurskoðunar.

3.
Skortur á hentugu búsetuúrræði, þjónustuíbúðum, íbúðakjörnum og hjúkrunarrýmum fyrir eldra fólk er langvarandi vandamál og brýnt að bregðast við með heildstæðri nálgun. Í 4. gr. Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) um almennar skuldbindingar kemur m.a. fram að aðildaríkin skuldbinda sig til:

„að framkvæma eða gangast fyrir rannsóknum og þróun á algildri hönnun framleiðsluvara, þjónustu, tækja og aðstöðu í samræmi við 2. gr. samnings þessa, sem breyta þarf sem allra minnst og með sem minnstum tilkostnaði til þess að mæta sérstökum þörfum fatlaðs fólks, til að stuðla að framboði á þeim og notkun og til að stuðla að algildri hönnun í þróun staðla og leiðbeininga.“

Með aukinni innleiðingu á algildri hönnun við uppbyggingu almennra sem og sértækra íbúða getur eldra fólk búið lengur í eigin íbúðum. Í 4. gr. sérstakrar skýrslu Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks frá 2019 kemur fram að u.þ.b. 46% eldra fólks í heiminum glími við einhverskonar skerðingar. Sértækar breytingar á húsnæði geta verið kostnaðarsamar og því farsælast að almennar íbúðir framtíðarinnar henti öllum en ekki sumum. ÖBÍ – réttindasamtök leggja áherslu á að algild hönnun og aðgengi fyrir alla verði leiðarstef þingsályktunartillögunnar sem og í öðrum uppbyggingar- og áætlunargerðum stjórnvalda.

4.
Eldra fólk með fötlun er viðkvæmur hópur sem þarf að taka sérstaklega tillit til. Í 54. gr. sérstakrar skýrslu Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks frá 2019 er tekið fram að eldra fólk með fötlun á ekki að vera vistað varanlega á stofnun í þeim eina tilgangi að fá heilbrigðisaðstoð. Því er mikilvægt að tillögur í lið A er snúa að samþættingu og lið B er snýr að virkni tilgreini hvernig aðgerðaráætlunin muni þjónusta þennan hóp.

5.
Einn samtengdur þáttur er hluti einstaklinga undir 67 ára aldri sem býr á hjúkrunarheimilum fyrir eldra fólk. Samkvæmt skýrslu starfshóps um heildarendurskoðun laga nr. 38/2018 frá árinu 2022 búa 138 fatlaðir einstaklingar á hjúkrunarheimilum fyrir eldra fólk sökum skorts á viðeigandi búsetuúrræðum. Við innlögn á hjúkrunarheimili og aðrar sjúkrastofnanir má gera ráð fyrir því að sjálfstæði, mannréttindum og lífsgæðum einstaklings sé fórnað. Í áliti Umboðsmanns Alþingis (nr. 9897/2018) er að finna gott dæmi um þetta. Þar er staðfest að stjórnvöld hafi ekki virt sjálfsákvörðunarrétt fatlaðs einstaklings og að dvöl á hjúkrunarheimili geti takmarkað persónufrelsi, athafnafrelsi og friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu með ýmsum hætti. Sú staða rýrir einnig verulega lífsgæði þess eldra fólks sem bíður eftir að fá varanlega búsetu á hjúkrunarheimili. Með því að tryggja fötluðum einstaklingum sem þurfa sértæka aðstoð viðeigandi búsetuúrræði losnar fjöldi rýma fyrir eldra fólk sem bíður eftir plássi á hjúkrunarheimili.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ


Aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024–2028. 860. mál, þingsályktunartillaga.
Umsögn ÖBÍ, 11. apríl 2023