Skip to main content
AðgengiRéttarkerfiUmsögn

Breytingar á réttarfarslöggjöf (miðlun og form gagna, fjarþinghöld og birting ákæru í stafrænu pósthólfi)

By 20. nóvember 2023nóvember 30th, 2023No Comments

Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála, lögum um meðferð einkamála og lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. (miðlun og form gagna, fjarþinghöld og birting ákæru í stafrænu pósthólfi)

Stafræn meðferð mála hefur ýmsa kosti. Hún getur aukið afköst, minnkað álag á starfsmenn og stofnanir, brúað kerfi, fækkað snúningum málsaðila og bætt upplýsingagjöf. Þó verður að muna að hluti landsmanna ýmist hefur ekki aðgang að eða getur ekki nýtt sér stafrænar lausnir eða hefur rafræn auðkenni sem þarf til að hafa aðgang að gögnum.

Málsmeðferð verður að vera á forsendum notandans. Ofuráhersla á staf- og rafrænar lausnir hefur oft valdið því að fyrri þjónustu- og stoðleiðir eru fjarlægðar með þeim „árangri“ að fólk í viðkvæmri stöðu er jaðarsett og útilokað. Varast þarf að ýta enn frekar undir slíka útilokun.

Afhending er ekki móttaka.
Við hönnun allra kerfa verður að beita hugmyndafræði algildrar hönnunar sem horfir fyrst til þarfa þeirra sem verða vanalega út undan. Kerfin mega ekki bara virka fyrir flesta eins og hefur viðgengist. Það er engin hagkvæmni fólgin í því að útbúa sérlausnir fyrir afmarkaða hópa þegar upp kemst að höfuðlausnin er útilokandi.

Til að fara inn á stafræn svæði þarf viðkomandi að hafa rafræn skilríki og geta beitt þeim til að sækja umrædd gögn. Stór hópur fólk hefur ekki rafræn skilríki vegna fötlunar og annar hópur hefur slík auðkenni en kann ekki með þau að fara. Þá verður að tryggja að viðtakendur séu í stakk búnir að skilja eðli máls, t.d. vegna þroskahömlunar eða tungumálaerfiðleika. Því er ekki hægt að líta svo á að gögn sem eru gerð aðgengileg séu þar með birt, afhending er ekki það sama og móttaka.

ÖBÍ réttindasamtök áskilja sér rétt til að koma að málinu á síðari stigum og lýsir yfir vilja til samráðs um efni frumvarpsins.

Af gefnu tilefni er ítrekað að stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF), enda segir í 3. mgr. 4. gr., „aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ


Breytingar á réttarfarslöggjöf (miðlun og form gagna, fjarþinghöld og birting ákæru í stafrænu pósthólfi)
Mál nr. 218/2023. Dómsmálaráðuneytið. Drög að frumvarpi til laga
Umsögn ÖBÍ, 20. nóvember 2023