Skip to main content
AðgengiUmsögn

Drög að hvítbók um samgöngumál og umhverfismatsskýrsla

By 21. apríl 2023júní 19th, 2024No Comments

„Fötluðu fólki hefur ekki verið auðveldað að taka þátt í orkuskiptum. Bifreiðakaupastyrkir Tryggingastofnunar hafa varla hækkað frá árinu 2009“

Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um drög að hvítbók um samgöngumál.

Íslenskt samfélag hefur ekki verið byggt með þeim hætti að allir geti sem best notið. Fatlað fólk hefur setið á hakanum varðandi aðgengi sem hamlar því að það geti lifað sjálfstæðu lífi.

Til stendur að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, SRFF, en í honum eru skuldbindingar á hendur íslenskra stjórnvalda að „bera kennsl á og útrýma hindrunum og tálmunum aðgengis, skulu meðal annars ná til bygginga, vega, samgangna og annarrar aðstöðu innan dyra sem utan,“ skv. 9. gr. og „gera árangursríkar ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk geti farið allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði þess í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt, meðal annars með því að greiða fyrir því að fatlað fólk geti farið allra sinna ferða með þeim hætti og á þeim tíma sem það kýs og á viðráðanlegu verði“ skv. 20. gr.

ÖBÍ réttindasamtök fagna því að í hvítbók um samgöngumál sé borið kennsl á og gerðar ráðstafanir til að fjarlægja aðgengishindranir fatlaðs fólks í samgöngum.

Góðir innviðir, þ.á.m. samgöngur, rjúfa einangrun og stuðla að betra og sjálfstæðara lífi fatlaðs fólks. Þeir gera því frekar kleift að stunda atvinnu og nám, iðka tómstundir og líkamsrækt og umgangast vini og fjölskyldu, en ekki síður minnka þeir þjónustuþörf þess og eru hagkvæmir öllu samfélaginu.

Algild hönnun er skilvirk hönnun og þegar samgönguáætlanir munu fyrst taka mið af þörfum fatlaðs fólks í umferðinni þá verður afraksturinn betri fyrir alla. Hagkvæmar samgöngur eru þær sem nýtast öllum sem best. Því er undarlegt að það teljist ekki til lykilviðfangsefna í áætluninni að mæta þeim.

Þegar kemur að viðhaldi í samgönguinnviðum eru stjórnvöld hvött til að þess sé gætt að nýta tækifærið og byggja upp og bæta aðgengi fyrir fatlað fólk. Vegagerðin hefur gefið út afar góðar leiðbeiningar sem rétt væri að fara eftir við allar framkvæmdir utandyra um allt land.[1]

Bent er á að íslensk löggjöf skyldar aðila til að gera samgöngumannvirki aðgengileg fyrir alla við uppbyggingu eða endurbætur, að þjálfa starfsfólk í þjónustu við fatlaða, að gera allar upplýsingar aðgengilegar og upplýsandi um aðgengi og síðast en ekki síst að taka aðeins í notkun almenningssamgöngutæki, hvort sem eru almenningsvagnar, flugvélar eða bátar, sem eru aðgengileg fötluðu fólki jafnt sem ófötluðu. Því hefur ekki verið vel framfylgt.

Það er mikilvægt að efla og auka vægi almenningssamgangna um land allt. Það styrkir byggðir landsins, er umhverfisvænt og gefur fólki aukið val um að nýta aðra samgöngumáta en einkabílinn. Strætisvagnar eru að mestu leyti óaðgengilegir hreyfihömluðu fólki, sérstaklega landsbyggðastrætó og biðstöðvar eru í lamasessi eins og sjá má í úttekt sem ÖBÍ lét framkvæma.[2]

Flugrútan er heldur ekki aðgengileg hreyfihömluðu fólki og getur kostnaður þess til ferðalaga því verið talsvert hærri en annarra og varla hægt að segja að Keflavíkurflugvöllur mæti þörfum millilanda- og tengiflugs fyrir fatlaða flugfarþega. Því er ánægjulegt að sjá að til standi að móta uppbyggingaráætlun til að takast á við þennan vanda, sbr. aðgerð 4.1.2, sem vonandi tekst að fjármagna.

Vegna þessa hefur fatlað fólk enn lítið svigrúm til að taka þátt í uppbyggingu umhverfislega sjálfbærra samgangna en rétt er að benda á að margt fatlað fólk er og verður háð einkabílnum um að komast milli staða. Því verður að gæta betur að því að þrengingar og fækkun bílastæða í nafni sjálfbærni og lýðheilsu verði ekki til að fjölga hindrunum.

Fötluðu fólki hefur ekki verið auðveldað að taka þátt í orkuskiptum. Bifreiðakaupastyrkir Tryggingastofnunar hafa varla hækkað [3] frá árinu 2009 og því neyðast margir til að keyra áfram á gömlum skrjóðum með síauknum viðhalds- og eldsneytiskostnaði. Einnig eru hleðslustöðvar fyrir rafbíla mjög víða óaðgengilegar fötluðu fólki því engar reglur hafa verið settar um staðsetningu þeirra.

Aðgengishópur ÖBÍ sá sig tilneyddan til að senda ábendingar [4] til helstu uppsetningaraðila vorið 2022 í von um að það myndi auka vitund þeirra og framkvæmdagleði. Því er gleðilegt að nú eigi að móta hönnunarleiðbeiningar vegna hleðslustöðva, sbr. aðgerð 4.1.3, en tímaramminn er ansi rúmur. Það er hægt að útbúa góðar leiðbeiningar á skömmum tíma og er mikilvægt því uppbygging hleðslustöðva fyrir rafbíla er gríðarlega ör.

Að gefnu tilefni er ítrekað að stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF), enda segir í 3. mgr. 4. gr., „aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“.

Ekkert um okkur án okkar.

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ

Tilvísanir

1 Reykjavíkurborg og Vegagerðin. (2019). Hönnun fyrir alla: Algild hönnun utandyra [Leiðbeiningar PDF]
2 ÖBÍ réttindasamtök. (2022, 17. nóvember). Slæmt aðgengi að nærri öllum biðstöðvum strætisvagna á landsvísu“ [Frétt]
3 Fjárhæðir hækkuðu fyrst með reglugerð nr. 997/2015 þrátt fyrir að verðlag hafði hækkað umtalsvert á 6 ára tímabili. Aftur voru fjárhæðir hækkaðar árið 2021, en í þetta sinn aðeins á sérútbúnum og dýrum bifreiðum, með reglugerð nr. 905/2021.
4 Sjá fylgiskjal með umsögninni.


Drög að hvítbók um samgöngumál og umhverfismatsskýrsla. Mál nr. 66/2023. Innviðaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 21. apríl 2023


Fylgiskjal 

 

Ábendingar um aðgengi að hleðslustöðvum fyrir rafbíla

Rafbílavæðingin gengur gríðarlega hratt og hleðslustöðvar spretta upp eins og gorkúlur. Það hefur valdið því að ekki er alltaf hugað nægilega vel að aðgengi hreyfihamlaðs fólks að stöðvunum. Það er alltaf betra og ódýrara að setja hlutina rétt upp í byrjun en að þurfa að lagfæra þá síðar.

Málefnahópur ÖBÍ um aðgengi hefur því tekið saman nokkrar ráðleggingar handa þeim sem bera ábyrgð á uppsetningu hleðslustöðva fyrir rafbíla um hvað hafa þarf í huga til að hreyfihamlað fólk geti hlaðið bílana sína.

Aðgengi hreyfihamlaðs fólks verður að vera sem best að ÖLLUM hleðslustöðvum. Fatlað fólk notar ekki aðeins bílastæði hreyfihamlaðra. Margir geta notað almenn stæði, ekki síst þau sem eru rúm. Hraðhleðslustöðvar þurfa einnig að vera aðgengilegar.

Gott viðmið við uppsetningu hleðslustöðva og greiðsluvéla er að þær séu í seilingarfjarlægð fyrir sitjandi einstakling og að umferðarleiðin sé greið frá bílastæði.

Helstu atriði sem huga þarf að við uppsetningu stöðvanna:

Seilingarfjarlægð

Til þess að geta hlaðið rafbíl, þurfa notendur bæði að ná í hleðsluhandfangið /innstunguna og komast að greiðsluvélinni til að greiða fyrir þjónustuna. Þess vegna þarf að huga að því að allir notendur, þar með talið fólk í hjólastólum, nái á þessa tvo staði.

Algengt er að hleðslustöðvar séu settar upp á einhvers konar palla en það er ekki nauðsynlegt. Ef ástæða er talin til að tryggja árekstrarvörn fyrir stöðvarnar er vænlegast að staðsetja stólpa til hliðar eða utan við stöðvarnar sem á að vera hægt að koma þannig fyrir að þeir hindri ekki aðgengi að hleðsluhandfangi eða greiðsluvél. Besta útfærslan er hins vegar að hafa sem fæstar hindranir í umhverfi stöðvanna.

Ef hleðslustöðin þarf að vera uppi á palli, verður hleðsluhandfangið og greiðsluvélin að vera fremst á pallinum. Hleðsluhandfang og greiðslurauf/takkaborð mega ekki vera hærra yfir yfirborði en 110 cm, svo að sitjandi manneskja geti náð til þeirra, sbr. viðmið á bls. 49 í riti Vegagerðarinnar: „Hönnun fyrir alla: Algild hönnun utandyra“ . Þetta á einnig við um upphengdar rafhleðslustöðvar, s.s. í bílastæðakjöllurum.

Umferðarleiðir

Huga verður að greiðu aðgengi að hleðslustöðvum. Ekki staðsetja þær á möl, ekki setja upp óþarfa hindranir og ef ástæða þykir til að setja þær upp á gangstétt eða pall verður umferðarleið hreyfihamlaðra að þeim að vera greið frá bílastæði.

Fyrir framan rafhleðslustöðvar og greiðsluvélar þarf að vera a.m.k. 130 cm snúningsrými, sem er lágmarkssnúningsflötur fyrir einstakling í hjólastól. Bil milli árekstrarvarnarstólpa verður að vera a.m.k. 90 cm.

Bílastæði eiga ekki að vera í halla. Það skapar mikla hættu fyrir fólk sem er óstöðugt á fótunum og fólk sem notar hjálpartæki getur misst þau frá sér.

Rafhleðslustöðvar mega ekki hindra aðgengi hreyfihamlaðs fólks, sem þarf 90 cm til að komast leiðar sinnar. Því miður eru of mörg dæmi um að gönguleiðir séu tepptar.