Skip to main content
AðgengiUmsögn

Högun í upplýsingatækni í rekstri ríkisins

By 30. ágúst 2023júní 11th, 2024No Comments

„Kjarnaþjónusta í dag er útilokandi. Jaðarhópar fá ekki rafræn skilríki og hafa ekki aðgang að bankareikningum og rafrænni heilbrigðisþjónustu.“

Umsögn um áform um lagasetningu um frumvarp til laga um högun upplýsingatækni í rekstri ríkisins.

Blindrafélagið og ÖBÍ réttindasamtök fagna áformum um að samræma stefnu um upplýsingatækni í rekstri ríkisins. Það fylgir mikið óhagræði og kostnaður því þegar kerfi stofnana tala ekki eðlilega saman þar sem ábyrgð skarast. Það eykur flækjustig og álag fyrir fólk í viðkvæmri stöðu að þurfa að þvælast milli aðila.

Grunnhugsunin sé skilvirkni notendaupplifunar.

Við hönnun allra kerfa verður að beita hugmyndafræði algildrar hönnunar sem horfir fyrst og fremst til þarfa þeirra sem verða vanalega út undan. Kerfin mega ekki bara virka fyrir flesta eins og hefur viðgengist. Það er engin hagkvæmni fólgin í því að útbúa sérlausnir fyrir afmarkaða hópa. Það hefur líka sýnt sig að hönnun sem gagnast sérstaklega fötluðu fólki er jafnframt betri fyrir alla.

Viðurkennt er í umræddum áformum að erfitt sé að „uppfylla síauknar kröfur um notendaaðgengi, þjónustumiðaða hönnun, upplýsinga- og gagnaöryggi og hagkvæmni hver í sínu lagi, án þess að til staðar sé samræmd högun og […] viðmið“.  En ef aðgengi að kerfunum er ekki aukið þá nýtast lausnirnar ekki. Það er ekki skilvirkni ef lausnin virkar bara fyrir flesta. Það verður engin hagsæld og sparnaður ef kerfin gagnast ekki öllum.

Upplýsingaaðgengi sem lokar á persónulega þjónustu útilokar fólk.

Kjarnaþjónusta í dag er útilokandi. Jaðarhópar fá ekki rafræn skilríki og hafa ekki aðgang að bankareikningum og rafrænni heilbrigðisþjónustu. Snertiskjáir í umhverfi sem hafa víðast hvar yfirtekið móttökur þjónustustofnana gagnast ekki þeim sem sjá ekki á þá. Myndavélaeftirlitskerfi í bílastæðahúsum greina ekki stæðiskort fyrir hreyfihamlaða, sem eru því rukkaðir í trássi við lög.

Það er mikilvægt að það viðmót sem notandinn fer í gegnum fylgi alþjóðlega viðurkenndum stöðlum. Þegar lausnin er ekki fyrir alla má ekki láta hana yfirtaka eldra þjónustufyrirkomulag og yfirgefa þá sem eftir eru í verri stöðu en áður. Þegar aðgengi er ekki fyrir alla verður að vera hægt að tala við einhvern til að fá úrlausn mála.

Talað við önnur kerfi.

Í þessum áformum er öll áhersla lögð á samræmingu kerfa ríkisins. Það er líka mjög mikilvægt að þau tali með einföldum og skilvirkum hætti við kerfi aðila sem veita þjónustu sem skarast á við ábyrgð ríkisins, þ.e. kerfi sveitarfélaganna og einkaaðila sem eru á samningi við ríkið. Það er brýnt að fá þessa aðila að borðinu þegar í stað. Æskilegt er að í samningum sé gerð krafa um samnýtingu gagna í báðar áttir, sem felur í sér að kerfin séu sambærileg og uppfylli aðgengisstaðla.

Til stendur að innleiða Evrópsku aðgengistilskipunina (EAA) og veftilskipun ESB (WAD), en ekki er minnst á þau áform í þessu skjali. Allar þessar áætlanir verða að haldast í hendur.

Tryggja verður að ekkert kerfi verði keypt, smíðað eða notað sem uppfyllir ekki þær kröfur sem sem felast í ofangreindum tilskipunum.

Þá verður að gæta þess að kerfi sem sérstaklega eru ætluð opinberum starfsmönnum til afnota séu einnig fyllilega aðgengileg öllum því að annars er fatlað fólk útilokað frá því að starfa hjá ríkinu.

Notendur sem hagsmunaaðilar.

Eitt helsta markmið stefnu um stafræna þjónustu hins opinbera er betri opinber þjónusta. Því er sérstakt að sjá hversu mikil áhersla er lögð á verðmætasköpun og hagsæld í þessum áformum. Helstu hagsmunaaðilar eru samkvæmt þeim opinberir aðilar, einkum ráðuneyti og stofnanir. Almenningur og sérstaklega fólk í viðkvæmri stöðu, sem á hvað mest undir því að kerfin virki sem best, er ekki talið til hagsmunaaðila.

Blindrafélagið og ÖBÍ réttindasamtök leggja til að stjórnvöld geri nú þegar ráð fyrir virkri aðkomu samtakanna að þessum áformum. Gert sé ráð fyrir að fulltrúi fatlaðs fólk verði í samráðshópi með fulltrúum ráðuneyta. Þá verði haft samráð við samtök fatlaðs fólks til að tryggja betur notendaaðgengi og þjónustumiðaða hönnun sem vitað er að komi öllum að gagni.

Ekkert um okkur án okkar!

Virðingarfyllst,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ

Hlynur Þór Agnarsson
varaformaður aðgengishóps ÖBÍ og fyrrverandi aðgengisfulltrúi Blindrafélagsins


Áform um frumvarp til laga um högun í upplýsingatækni í rekstri ríkisins
Mál nr. 148/2023. Fjármála- og efnahagsráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 30. ágúst 2023