Skip to main content
AðgengiAtvinnumálHeilbrigðismálHúsnæðismálKjaramálMenntamálUmsögn

Innleiðing Íslands á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun

By 25. maí 2023No Comments

Umsögn ÖBÍ – réttindasamtaka um innleiðingu Íslands á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Mál nr. 98/2023.

ÖBÍ – réttindasamtök telja mikilvægt að unnið sé áfram með markvissum hætti að innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Virkt samráð, full fjármagnaðar aðgerðir og eftirfylgni er lykillinn að árangursríkri innleiðingu á heimsmarkmiðunum. Stöðumat Forsætisráðuneytisins á innleiðingu heimsmarkmiðanna er umfangsmikil og mælir fyrir um margar aðgerðir sem vert er að styðja við. ÖBÍ vill þó koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum.

1. 
Rannsókn Vörðu rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins sem kynnt var í byrjun september 2021 opinberaði þá nöturlegu staðreynd að 80% fatlaðs fólks eiga erfitt eða mjög erfitt með að láta enda ná saman um hver mánaðarmót, verst standa einstæðir foreldrar. Frá því könnunin var gerð hefur ástandið versnað. Verðbólga jókst talsvert og hefur verið í kringum 10% frá júlí 2022, þá hefur húsnæðiskostnaður hækkað umtalsvert. Hvoru tveggja bitnar verst á tekjulágum. Það er hagsmunamál þjóðarinnar að útrýma fátækt og koma þarf í veg fyrir að fatlað fólk og fjölskyldur þess lifi í fátækt. ÖBÍ leggur til að íslensk stjórnvöld innleiði eftirtaldar áherslur sem aðgerðir við innleiðingu heimsmarkmiðanna:

• Hækka þarf framfærslu fatlaðs fólks til að tryggja því raunverulega viðunandi lífskjör og afkomuöryggi.
• Setja þarf ákvæði í lög sem tryggja sífellt batnandi lífsskilyrði og gegnsæi við ákvörðun um hækkun greiðslna.
• Brýn nauðsyn er að einfalda greiðslukerfi almannatrygginga, draga verulega úr tekjutengingum, byggja inn hvata til atvinnuþátttöku og gera það aðgengilegra og gagnsærra.
• Tryggja þarf fötluðu fólki og fjölskyldum þess nægilega aðstoð frá hinu opinbera til þess að standa straum af útgjöldum vegna fötlunar.

2.
Heilbrigðisþjónusta verður að vera aðgengileg öllum óháð efnahag og búsetu. Samkvæmt nýlegri rannsókn Félagsvísindastofnunar um lífskjör og heilbrigðis- þjónustu á Ísland hefur 31 prósent örorkulífeyristaka með fullt örorkumat hætt við eða frestað læknisheimsókn vegna kostnaðar. Jafnframt hefur 38 prósent einstaklinga í sama hópi hætt við eða frestað því að fara til sjúkraþjálfara vegna sömu forsenda. Það er því ljóst að ekki sitja allir við sama borð þegar kemur að aðgengi að heilbrigðisþjónustu. ÖBÍ leggur til að íslensk stjórnvöld innleiði eftirtaldar áherslur sem aðgerðir við innleiðingu heimsmarkmiðanna:

• Lækka kostnaðarhlutdeild og einfalda greiðsluþáttökukerfin með það að markmiði að heilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls.
• Aðgangur verði tryggður að endurgjaldslausri sálfræðiþjónustu og aukinni þjónustu geðlækna fyrir bæði börn og fullorðna.
• Tryggt verði að fólk fái heilbrigðisþjónustu á réttum tíma, á réttum stað í samfellu. Unnið verði að því að útrýma biðlistum eftir greiningum og aðgerðum.
• Betra og víðtækara aðgengi verði að hjálpartækjum og lækka þarf kostnaðarhlut notenda þeirra.
• Koma á embætti umboðsmanns sjúklinga í samstarfi við Alþingi og stjórnvöld
• Vinna markvisst í heilsueflandi úrræðum og settur verði kraftur í að gera úrræðin aðgengileg fyrir ólíka hópa.

3.
Aðgengi að öruggu og viðunandi húsnæði er ein að grundvallar forsendum þess að skapa velsældar samfélag á Íslandi. Verð á íbúðar- og leiguhúsnæði hefur farið ört vaxandi á síðastliðnum árum. Ýmsar ástæður liggja þar að baki en þó ber helst að nefna uppsafnaðan skort á íbúðum sem stuðlar að aukinni eftirspurn og hærra markaðsverði. Byrði húsnæðiskostnaðar er of þung og vegur þyngst meðal hópa samfélagsins sem standa hvað höllustum fæti, t.a.m. fólk á örorkulífeyri. ÖBÍ leggur til að íslensk stjórnvöld innleiði eftirtaldar áherslur sem aðgerðir við innleiðingu heimsmarkmiðanna:

• Lækka húsnæðiskostnað fatlaðs fólks
• Tryggja efnaminna fólki meiri stuðning í húsnæðismálum
• Útrýma biðlistum eftir leiguhúsnæði sem uppfyllir allar grunnþarfir fatlaðs fólks
• Fjármögnunarúrræði verði aðgengilegri hjá fjármálastofnunum þegar um félagslegt húsnæði er að ræða
• Ólíkir hópar eigi kost á að velja á milli ólíkra búsetuúrræða á eigin forsendum

4.
Meirihluti íbúðarhúsnæðis á Íslandi er óaðgengilegur fötluðu fólki og þjóðin er skarpt að eldast. Við þurfum húsnæði sem er aðgengilegt og endist. Stafræn vegferð þjóðarinnar hefur skilið eftir fólk á jaðrinum án aðgangs að heilbrigðis-, félags- og bankakerfinu. Hugmyndafræði algildrar hönnunar felur í sér að við hönnun kerfa, hvort sem um er að ræða þjónustu, tækni, mannvirkja eða annað sem snertir á mannlegu lífi og upplifun, þurfi að horfa til þess þegar í upphafi að afurðin muni nýtast öllum sem best til framtíðar og að þá sé fyrst litið til þarfa fatlaðs fólks og annara viðkæmra hópa sem sitja oftast eftir. Þegar ekki er horft til þarfa allra frá upphafi þarf að fara í kostnaðarsamar úrbætur eða viðbætur og auka þjónustustig síðar meir. ÖBÍ leggur til að íslensk stjórnvöld innleiði eftirtaldar áherslur sem aðgerðir við innleiðingu heimsmarkmiðanna:

• Farið sé eftir alþjóðlegum samningum, skuldbindingum, stöðlum og lögum sem skilgreina kröfur um aðgengi.
• Horft verði á aðgengismál í víðu samhengi með aukna áherslu á stafrænt aðgengi.
• Virkt samtal um notendamiðaða hönnun þar sem allt þjónustuferli, þar með talið rafræn, séu þróuð út frá þörfum notenda en ekki þeirra sem þjónustuna veita.
• Opinberir aðilar einfaldi þjónustu og uppræti óskilvirkni innan kerfis svo að gögn ferðist á milli staða en ekki fólk
• Auka áherslu á umbætur í manngerðu umhverfi hvað varðar aðgengi og ferðafrelsi
• Styrkja umgjörð um algilda hönnum og tryggja að gildandi lögum og reglugerðum sé fylgt eftir

5.
Fatlað fólk á rétt á menntun á öllum skólastigum með viðeigandi aðlögun og án aðgreiningar. Mikilvægt er að stuðningsúrræði séu aðgengileg og fullmönnuð og gætt þess að fólk með ósýnilegar fatlanir sem þurfa stuðningsúrræði sé ekki hlunnfarið af réttindum sínum. ÖBÍ leggur til að íslensk stjórnvöld innleiði eftirtaldar áherslur sem aðgerðir við innleiðingu heimsmarkmiðanna:

• Tryggja aðgengi að námi á öllum skólastigum óháð fötlun eða öðrum hindrunum.
• Regluleg og stóraukin fræðsla innan skólasamfélagsins um fötlun og fjölbreytileika.
• Fjölga menntunarvalmöguleikum fatlaðs fólks.
• Nýta kosti fjarkennslu.

6.
Veruleg þörf er á tryggu aðgengi fatlaðs fólks að vinnumarkaði samhliða því að draga úr tekjuskerðingum vegna atvinnutekna. Stjórnvöld hafa þá skyldu að vinna að inngildum vinnumarkaði fyrir alla. Aðgerðir þurfa að fylgja sem gera fötluðu fólki betur kleift að fá atvinnu við hæfi og vera á vinnumarkaði án þess að bera kostnað af atvinnuþátttöku sinni og geti aukið ráðstöfunartekjur sínar með vinnuframlagi sínu. ÖBÍ leggur til að íslensk stjórnvöld innleiði eftirtaldar áherslur sem aðgerðir við innleiðingu heimsmarkmiðanna:

• Fatlað fólk fái atvinnu í samræmi við menntun, hæfni og reynslu án þess að lífeyri og réttindi skerðist.
• Skapa fleiri störf og þá sérstaklega hlutastörf í öllum greinum atvinnulífsins.
• Nýta möguleika fjarvinnu í virku samtali við atvinnulífið.
• Aukinn sveigjanleiki í atvinnulífinu í samstarfi við fólk og fyrirtæki til að koma til móts við ólíkar þarfir og stöðu fólks.
• Fyrirtæki sýni samfélagslega ábyrgð með ráðningu fatlaðs fólks (öryrkja).

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir Kjartan Þór Ingason
formaður ÖBÍ réttindsamtaka

Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ réttindasamtaka


Innleiðing Íslands á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Mál nr. 98/2023.  Forsætisráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 25. maí 2023