Skip to main content
AðgengiHúsnæðismálNPAUmsögn

Jöfnunar­sjóður sveitar­félaga

By 30. nóvember 2023No Comments

„ÖBÍ leggur til að Jöfnunarsjóður verði nýttur til að tryggja búsetufrelsi fatlaðs fólks og geri sveitarfélögum kleift að uppfylla skyldu sína að tryggja lögbundin réttindi fatlaðs fólk til NPA þjónustu.“

Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um frumvarp til laga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, þskj. 526, mál nr. 478.

ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) taka undir markmið frumvarpsins um mikilvægi þess að efla sveitarfélög landsins til að mæta þeim margvíslegum áskorunum sem þau og samfélagið allt stendur frammi fyrir á hverjum tíma. Sveitarfélög og þjónustusvæðum ber að framfylgja lögbundnum skyldum sínum en þurfa jafnframt að hafa aðgang að traustum tekjustofnum í samræmi við umfang og útgjaldaþarfir. Dæmi eru um að sveitarfélög neiti fötluðu fólki um lögbundna þjónustu á grundvelli óaðgengilegra innviða, skort á félagslegum leiguíbúðum og skort á fjármagni. ÖBÍ vill koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.

1.

Í nýrri skýrslu ÖBÍ um húsnæðismál fatlaðs fólks kemur fram að togstreita milli ríkis og sveitarfélaga sem og ólík forgangsröðun sveitarfélaga í málefnum fatlaðs fólks bitnar á framfylgd lögbundinnar þjónustu. Árið 2015 skrifuðu ríki og sveitarfélög undir lokasamkomulag um fjárhagsramma þjónustu sveitarfélaga við fatlaðs fólk. Í ljós kom að of mikið bar á milli aðila til þess að unnt væri að ná samkomulagi innan verkefnisstjórnarinnar um sameiginlega tillögu að breytingu á útsvarsprósentu sveitarfélaga. Skortur á félagslegu húsnæði, fjármagni auk stærðar sveitarfélags og eða þjónustusvæðis veitir ekki undanþágu frá lögbundinni þjónustu. Í því ljósi ber sérstaklega að nefna togstreitu ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun notendastýrðra persónulegrar aðstoðar (NPA) samninga og áhrifin sem það hefur á búsetufrelsi og lífsgæði fatlaðs fólks. ÖBÍ hvetur ríki og sveitarfélög til að ná sáttum um fjármögnun málaflokks fatlaðs fólks.

ÖBÍ leggur til að Jöfnunarsjóður verði nýttur til að tryggja búsetufrelsi fatlaðs fólks og geri sveitarfélögum kleift að uppfylla skyldu sína að tryggja lögbundin réttindi fatlaðs fólk til NPA þjónustu.

2.

Í 11. gr. um framlög vegna málefna fatlaðs fólks kemur fram að framlögin skulu reiknuð á grundvelli samræmds mats á stuðningsþörf á landsvísu. Þetta samræmda mat er einnig þekkt undir heitinu SIS-mat en það hentar illa sem samræmt matskerfi fyrir fjölbreyttan hóp fatlaðs fólks, sérstaklega þá sem eru með geðrænar áskoranir eða hreyfihömlun. ÖBÍ leggur áherslu á að SIS-mat verði ekki gert að algildu skilyrði til að fá þjónustu og framþróun þess leiði ekki til þess að matið verði notað sem algilt mælitæki á þjónustuþörf og ákvörðunarforsendu við úthlutun þjónustu við fatlað fólk.

3.

Meirihluti íbúðarhúsnæðis á Íslandi er óaðgengilegt fötluðu fólki. Óaðgengileg hönnun íbúða og nærumhverfis þrengir verulega að tækifærum fatlaðs fólks um að komast í örugga búsetu á eigin forsendum. Dæmi eru um að fatlað fólk hafi þurft að hætta við fyrirhuguð kaup eða leigu sökum þess að það gat ómögulega athafnað sig í íbúðinni eða gat ekki komist inn án aðstoðar. Þá eru dæmi um að lausum félagslegum leiguíbúðum sé ekki úthlutað til fatlaðs fólks á sömu forsendum.

Brýnt er að tryggja fötluðu fólki aðgang að styrkjum til breytinga á húsnæði, enda um gríðarlegt lífsgæðamál að ræða. Í dag er Ísland eina Norðurlandið sem veitir ekki styrki til einstaklinga til breytinga á húsnæði vegna fötlunar. Að mati ÖBÍ þarf fasteignasjóður Jöfnunarsjóðs rýmri heimild til stuðla að bættu aðgengi og húsnæðisöryggi fatlaðs fólks.

ÖBÍ leggur til að fasteignasjóður geti úthlutað framlögum til sveitarfélaga vegna breytinga á húsnæði á vegum einstaklinga sem annars þyrftu að flytja í sérútbúið húsnæði eða stofnun. Óski einstaklingur eftir styrk til breytinga á húsnæði vegna fötlunar eða fötlunar barns geti sveitarfélag sótt um úthlutun úr fasteignasjóði, hvort sem um ræðir eigin húsnæði eða húsnæði í leiga.

Til viðbótar munu húsfélög geta óskað eftir lyftustyrk úr fasteignasjóði í gegnum sitt sveitarfélag fyrir uppsetningu á lyftum í fjölbýlishús þar sem lyftur eru ekki til staðar.

Jafnframt leggur ÖBÍ að HMS muni veita sveitarfélögum og Jöfnunarsjóði ráðgjöf við framkvæmd og útfærslu t.a.m. við hönnun auk þess að upplýsa sveitarfélög um kosti breytinga á húsnæði fyrir fatlað fólk. Styrkur til breytinga á húsnæði felur einnig í sér ávinning fyrir ríki og sveitarfélög þar sem þeir aðilar sem fá styrk þurfa ekki að flytja á stofnun með tilheyrandi kostnaði og eru líklegri til að þurfa minni stuðning við athafnir daglegs lífs. Óþarfi er að reyna finna upp hjólið þegar það er nú þegar til staðar, en Husbanken í Noregi og systurstofnun HMS hefur um áratuga skeið sinnt slíku samfélagshlutverki í þágu húsnæðisöryggis og búsetufrelsis fatlaðs fólks.

ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ

Guðjón Sigurðsson
verkefnastjóri ÖBÍ


Jöfnunar­sjóður sveitar­félaga
478. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 30. nóvember 2023