Skip to main content
AðgengiHúsnæðismálUmsögn

Stefna í neytendamálum til ársins 2030

By 14. maí 2024No Comments

Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um tillögu til þingsályktunar um stefnu í neytendamálum til ársins 2030

ÖBÍ réttindasamtök fagna því að til standi að auka neytendavernd með stefnu sem gerir ráð fyrir bættri löggjöf og faglegri umgjörð sem eigi að tryggja að hagsmunir neytenda séu að leiðarljósi. ÖBÍ bendir jafnframt á að við erum öll neytendur. Hagsmunir fatlaðs fólks hafa oft fengið að víkja þegar í orði kveðnu er horft til heildarinnar. Jaðarhópar verða til þegar einstaklingar falla ekki inn í mengið sem nær utan um flesta.

Hér á eftir fylgja ábendingar sem horfa þarf til við stefnu og breytingar á lögum og framkvæmd hvað varðar neytendamál.

Innleiðing ESB tilskipana

Í aðgerðum 1 og 3 er lögð áhersla á uppfærða löggjöf til eflingar neytendaverndar annars vegar og áherslu á netviðskipti og stafvæðingu á sviði neytendamála hins vegar, meðal annars með hliðsjón af samræmi við EES löggjöf og innleiðingu ESB tilskipana. Í 5. kafla greinargerðar er vikið að tveimur ESB reglugerðum og tilskipunum sem þarf að innleiða en ekki er orði vikið að innleiðingu tilskipana og staðla sem öðrum fremur myndi tryggja aðgengi allra að stafrænu efni, vöru og þjónustu.

Dregist hefur úr hófi að innleiða WCAG staðalinn, sem er forsenda þess að fatlað fólk hafi aðgang að stafrænu efni. Nú mun það aftur vera á áætlun með áætlaðri innleiðingu tilskipunar EU 2016/2102 í haust. En þá á enn eftir að innleiða tilskipun EU 2019/882 sem snýr einmitt að stafrænu aðgengi hjá einkafyrirtækjum og tengist þannig neytendavernd.

Ekki er útlit fyrir að Evrópska aðgengistilskipunin (EAA) verði innleidd í bráð í íslenskt regluverk. EEA á að tryggja fötluðu fólki jafnan rétt og aðrir að vöru og þjónustu. Norðmenn hafa þegar tileinkað sér WCAG staðalinn og stefna að innleiðingu EAA í júní 2025.

  • Lagt er til að sett verði í forgang að fylgja fordæmi Norðmanna með innleiðingu ofangreindra aðgengistilskipana.

Aukin neytendavernd við fasteignakaup

Í drögunum að þingsályktunartillögunni er fjallað um aukna neytendavernd við fasteignakaup. Lagt er til að lög nr. 70/2015 um sölu fasteigna og skipa og lög nr. 40/2002 um fasteignakaup verði tekin til endurskoðunar með áherslu á úrbætur sem stuðla að aukinni neytendavernd og réttaröryggi á sviði fasteignakaupa. Meðal annars nái það til ákvæða um ástandsskýrslur fasteinga, hlutverk og ábyrgð fasteignasala og fleiri þátta. Í umfjöllun um áform um skyldubundna ástandsskoðun eru nefnd fimm markmið sem segir að miði að því að tryggja bætta stöðu neytenda á fastignamarkaði með þvi auka fyrirsjáanleika og öryggi við sölu fasteigna og draga þannig úr tjóni og óþörfum deilu- og dómsmálum, neytendum til hagsbóta.

Í þessu samhengi vill ÖBÍ vekja athygli á alvarlegu vandamáli sem fatlað fólk hefur til langs tíma glímt við sem varðar ástand fasteigna og hefur ÖBÍ m.a. þurft að standa í málarekstri f.h. einstakling vegna slíks. Með gildistöku mannvirkjalaga nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012 var lögfest að tryggja eigi aðgengi allra. Mannvirki sem hönnuð eru og byggja á grundvelli algildrar hönnunar, skv. 6.1.3. gr. byggingarreglugerðar eiga að vera fyllilega aðgengileg öllum að fenginni lokaúttekt en aðgengilegar að svo miklu leyti sem það snúi að öryggisþáttum, þ.m.t. eldvarna, við öryggisúttekt. Afhenda má mannvirki til notkunar sem staðist hafa öryggisúttekt en ítrekað hefur það gerst að fatlaðir íbúar hafa þá ekki haft það aðgengi að íbúðum sínum og mannvirkinu sem krafist er skv. löggjöfinni og verið háðir öðrum um að komast leiðar sinnar.

Stærstur hluti íbúðarhúsnæðis á Íslandi er raunar óaðgengilegur hreyfihömluðu fólki sem hefur treyst á að nýtt íbúðarhúsnæði uppfylli kröfur um aðgengi þegar það tekur við lyklunum. Margir hafa því keypt köttinn í sekknum þegar ekki aðeins er húsnæðið óaðgengilegt við afhendingu heldur mega líða þrjú ár fram að lokaúttekt.

Ljóst er að víða er pottur brotinn hvað varðar að eftirlit sé fullnægjandi með því að dýrasta fjárfesting í lífi flestra uppfylli þau skilyrði sem lög segja til um. Í 2. mgr. 19. gr. laga um fasteignakaup nr. 40/2002 er fjallað um galla í fasteign þegar um er að ræða neytendakaup. Segir þar að í neytendakaupum skuli ástand og búnaður fasteignar eða hluta hennar vera í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í lögum, stjórnvaldsreglum eða fyrirmælum reistum á þeim er voru í gildi þegar fasteign eða hlutar hennar voru byggðir eða endurgerðir. Að mati ÖBÍ er í framkvæmd ekki verið að tryggja aðgengi fatlaðs fólks að þeim fasteignum sem það kaupir í neytendakaupum, nánar tiltekið nýjum og endurgerðum byggingum, á því tímabili sem líður á milli öryggisúttektar og lokaúttektar. Í framkvæmd hefur fötluðu fólki verið gert erfitt um vik að tryggja rétt sinn til aðgengis á þessu tímabili en sem fyrr segir getur verið um að ræða allt að þrjú ár. Að mati ÖBÍ hafa þau réttarúrræði sem til staðar eru samkvæmt mannvirkjalögum og byggingarreglugerð ekki gagnast fötluðu fólki til að tryggja rétt sinn hvað þetta varðar.

  • Leggur ÖBÍ því til að í anda þingsályktunartillögunnar um stefnu í neytendamálum verði réttarstaða fatlaðs fólks við neytendakaup á fasteignum styrkt. Þeim verði tryggð nægilega skjót úrræði til að leita réttar síns um aðgengi frá afhendingu fasteignar óháð byggingarstigi.

Sérstakar þarfir viðkvæmra hópa

Áttunda aðgerð stefnunnar tekur til sérstakra þarfa viðkvæmra hópa en hún á ekki við um ofangreint þegar nánar er skoðað. Í greinargerð er lögð áhersla á viðskiptahætti gagnvart börnum og unglingum og svo málefni smálána. Hvoru tveggja eru vandamál sem þarf að bregðast við. En fólk telst ekki síður í viðkvæmri stöðu þegar það hefur ekki greitt aðgengi að vöru og þjónustu og vernd þegar lögbundið eftirlit bregst.

ÖBÍ hefur ekki komið að undirbúningi þessa frumvarps né er samtakanna getið sem mögulegs samstarfsaðila í aðgerðaáætlun. Að gefnu tilefni er ítrekað að stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF), enda segir í 3. mgr. 4. gr., „aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ


Drög að tillögu til þingsályktunar um stefnu í neytendamálum til 2030
Mál nr. S-96/2024. Menningar- og viðskiptaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 14. maí 2024