Skip to main content
AðgengiUmsögn

Umferðarlög (EES-reglur, ökutæki o.fl.)

By 27. febrúar 2023mars 16th, 2023No Comments

„Fólk með hreyfihömlun nýtur þess ekki að geta valið sér samgöngumáta líkt og aðrir og neyðist oft á tíðum til að nota einkabílinn til að fara milli staða.“

Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 77/2019 (EES-reglur, ökutæki o.fl.)

ÖBÍ varar við mögulegum áhrifum 14. gr. frumvarpsins, enda fari opinberir og einkaaðilar ekki eftir ákvæðum skv. 87. gr. umferðarlaga nr. 77/2019.

Í 14. gr. frumvarpsins segir: „Við 4. mgr. 86. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ríkisaðila er, með samþykki ráðherra, heimilt að setja reglur um notkun stöðureita og gjaldtöku fyrir hana á landi í eigin umráðum.“ Í 86. gr. umferðarlaga er fyrir ákvæði sem veitir sveitarstjórnum sambærilega heimild.

Handhöfum stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða er heimilt að leggja ökutæki í bifreiðastæði sem ætlað er fyrir fatlaða sem og í gjaldskyld bifreiðastæði án greiðslu, skv. 87. gr. umferðarlaga nr. 77/2019.

Hins vegar hafa ríkisaðilar, sveitarstjórnir og stofnanir þeirra jafnt sem einkaaðilar sem reka bílastæði leyft sér að innheimta stöðugjald af handhöfum stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða í trássi við lög. Má þar nefna Vatnajökulsþjóðgarð, Isavia, Bílastæðasjóð Reykjavíkurborgar og 115 Security sem sér t.d. um rekstur bílahúss Hörpu. Telja allir framangreindir aðilar sig vera í fullum rétti að innheimta stöðugjöld en hafa þó í einhverjum tilfellum fellt það niður eftir kvartanir.

Allir þessir aðilar nota myndavélakerfi við eftirlit sem les bílnúmer við innkeyrslu og sektar viðkomandi ef ekki hefur verið greitt við útakstur. Stæðiskort fyrir hreyfihamlaða eru aftur á móti skráð á einstakling en ekki bifreið og þar sem handhafar geta sjaldnast snúið sér til starfsmanna á staðnum fá þeir kröfu í heimabanka sem ekki er hægt að treysta á að verði felld niður. Það verður að tryggja það með tæknilegri eða annarri lausn að fatlað fólk geti nýtt sér réttindi sín án þess að sífellt verða að staðfesta fötlun sína við kerfi sem ekki gera ráð fyrir því.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, SRFF, verður lögfestur á yfirstandandi kjörtímabili, en samkvæmt honum eru grundvallarréttindi fatlaðs fólks að njóta réttinda til jafns við aðra. Þegar í 1. gr. segir að „[m]arkmiðið með samningi þessum er að efla, verja og tryggja að allt fatlað fólk njóti til fulls og til jafns við aðra allra mannréttinda og grundvallarfrelsis og að efla virðingu fyrir eðlislægri reisn þess.“

Í 9. gr. segir jafnframt að aðildarríki samningsins skuli „…gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja fötluðu fólki aðgengi, til jafns við aðra, að efnislegu umhverfi sínu, samgöngum, upplýsingum og samskiptum, þ.m.t. samskiptatækni og -kerfi og að annarri aðstöðu og þjónustu sem opin er eða veitt almenningi hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli.“

Fólk með hreyfihömlun nýtur þess ekki að geta valið sér samgöngumáta líkt og aðrir og neyðist oft á tíðum til að nota einkabílinn til að fara milli staða. Þá tekur það hreyfihamlað fólk lengri tíma en fyrir aðra að yfirgefa og koma sér fyrir í bílnum, sem og að sinna erindum. Það er því íþyngjandi samanborið við aðra og því er mikilvægt að varna því að stofnanir sem eiga að þjóna fólkinu geti leyft sér að brjóta á því.

Við óskum eftir að koma fyrir umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis um þetta mál.

Ekkert um okkur án okkar.

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Bergur Þorri Benjamínsson
formaður aðgengishóps ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ


Umferðarlög (EES-reglur, ökutæki o.fl.). 589. mál, lagafrumvarp
Umsögn ÖBÍ, 27. febrúar 2023