Skip to main content
Málefni barnaSRFFUmsögn

Reglugerð um ættleiðingar

By 30. júní 2023júlí 4th, 2023No Comments

Efni: Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um drög að reglugerð um ættleiðingar, mál nr. 114/2023.

ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) fagna því að ráðuneytið vinni að drögum að reglugerð um ættleiðingar sem leysa eiga að hólmi eldri reglugerð. Ákvæði 9. gr. núgildandi reglugerðar um ættleiðingar getur mismunað fötluðu fólki um að sækja ættleiðingarleyfi en í ákvæðinu eru tilgreindir í lista, sem er ekki tæmandi, sjúkdómar og líkamsástand sem leitt geta til synjunar.

Ánægjulegt er að sjá að í drögunum að reglugerðinni hefur listinn um sjúkdóma og líkamsástand í 9. gr., verið tekinn út. Vert er að taka það fram að hugtakið fötlun er skilgreint þannig að það sé í sífelldri þróun og að fötlun er afsprengi samspils milli fólks með skerðingar annars vegar og umhverfis og viðhorfa hins vegar sem hindra fulla og árangursríka samfélagsþátttöku þess til jafns við aðra.

Í dag liggur fyrir vinna félags- og vinnumarkaðsráðuneyti um landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks sem felur m.a. í sér lögfestingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF). Íslensk stjórnvöld fullgiltu samninginn í september 2016 og skuldbyndu sig til þess að framfylgja ákvæðum hans og í 1.tl. 5. gr. SRFF, um bann við mismunun, segir: „Aðildarríkin viðurkenna að allar manneskjur eru jafnar fyrir og samkvæmt lögum og eiga rétt á jafnri vernd og jöfnum ávinningi af lögum án nokkurra mismununar“.

ÖBÍ lýsir yfir áhuga og vilja til þess að vera ráðuneytinu innan handar við frekari vinnu að reglugerðinni.

Ekkert um okkur án okkar!

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka

Alma Ýr Ingólfsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ réttindasamtaka


Reglugerð um ættleiðingar.
Mál nr. 114/2023. Dómsmálaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 30. júní 2023