
ÖBÍ réttindasamtök lýsa ánægju með að félags- og húsnæðismálaráðherra hafi breytt byggingarreglugerð og sett inn ákvæði um að bílastæði hreyfihamlaðra skuli vera næst aðalinngangi bygginga, ekki fjær en 25 metrar.
Sambærileg regla var felld á brott úr reglugerðinni árið 2016 en síðan þá hefur ÖBÍ barist fyrir því að hún verði sett á aftur.
Haft er eftir Ingu Sæland ráðherra í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins að það hafi verið nauðsynlegt að grípa inn í og breyta reglugerðinni:
„Reglan um 25 metrana gildir alls staðar á Norðurlöndunum og auðvitað á það að vera eins á Íslandi. Gleymum því aldrei að samfélagið okkar er fyrir okkur öll. Til að svo megi verða þurfum við að tryggja aðgengi fyrir alla.“

