Skip to main content
AðgengiFrétt

Aðgengileg útivist er samvinnuverkefni

By 5. september 2025september 8th, 2025No Comments

Dr. TA Loeffler, prófessor í útimenntun og afþreyingu við Memorial-háskóla á Nýfundnalandi, hélt fyrirlestur í Mannréttindahúsinu í gær undir yfirskriftinni „Útivist fyrir okkur öll“. Viðburðurinn var samstarfsverkefni ÖBÍ réttindasamtaka og námsbrautar í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands og var vel sóttur.

Fyrirlestur Loeffler fjallaði um aðgengilega útivist og hennar reynslu af því að tryggja að öll fái notið útivistar. Sýndi hún sömuleiðis fjölda mynda og myndbanda frá leiðöngrum sínum og þær lausnir sem hún hefur leitað til þess að gera útivist aðgengilega öllum.

Að sögn Loeffler er samvinna lykillinn að því að gera útivist aðgengilega. Fólk þarf að vinna saman að lausnum. Þá er einnig þörf á raunverulegum vilja til þess að skoða hverjar þarfirnar eru og hvaða lausnir virka hverju sinni.

„Varðandi aðgengilega útivist vil ég sérstaklega benda á nokkur atriði. Hvernig komumst við þangað sem við viljum? Eru aðgengilegir hjóla- eða göngustígar? Í öðru lagi, þegar við komum á áfangastað, hvernig er yfirborðið og möguleikinn á að nota hjálpartæki? Í þríðja lagi, hvernig miðlum við upplýsingum? Notum við fjölbreyttar leiðir? Erum við með skilti á blindraletri eða með QR kóða eða sem tala upphátt? Þannig hlutir gera útivist aðgengilega í víðum skilningi.“

Dr. TA Loeffler er þekkt víða um heim fyrir fræðastörf, ævintýramennsku og náttúruvernd og er jafnframt virtur kennari, rithöfundur og fyrirlesari. Hún er handhafi Brigding the Gap verðlauna Recreation Newfoundland and Labrador en verðlaunin eru veitt einstaklingum eða samtökum sem hafa stuðlað að aukinni þátttöku og inngildingu fatlaðs fólks í tómstundir, íþróttir og virkni.