Skip to main content
Frétt

Ár uppskeru og stórra verkefna að baki

Mynd af fjölda fólks í réttindagöngunni. Þau kröfuspjöld ÖBÍ sem eru sjáanleg eru 1. Tækifæri til samfélagsþátttöku og 2. Fötluð börn eru líka börn. Forgöngufáni Frjáls Palestína sést einnig á myndinni.

ÖBÍ réttindasamtök óska öllum gleðilegs nýs árs og þakka fyrir samstarfið og samfylgdina á árinu sem leið. Á þessum tímamótum er vert að líta um öxl yfir árið 2025, sem einkenndist einna helst af stórum verkefnum, samstarfi og ríkulegri uppskeru í réttindabaráttunni, og stikla á því allra stærsta.

SRFF lögfestur

Frumvarp um lögfestingu SRFF var lagt fram í vor en náði ekki fram að ganga fyrir þinglok. Það var lagt fram á ný á um haustið, fór í gegnum þingið og var samningurinn svo lögfestur í desember eftir nærri tveggja áratuga baráttu ÖBÍ.

Með lögfestingunni er réttarstaða fatlaðs fólks á Íslandi bætt til muna og verður hægt að byggja beint á ákvæðum samningsins fyrir dómstólum. Umræða um lögfestingu í samfélaginu var að mestu jákvæð, þótt misvísandi og stundum rangar upplýsingar hafi verið settar fram um kostnað vegna lögfestingarinnar. ÖBÍ færir þingmönnum og félagsmálaráðherra þakkir fyrir að hafa stigið þetta skref.

Sögulegur áfangi fyrir íslenskt samfélag

Kerfisbreytingar

Árið sem leið markast ekki síður af gildistöku umfangsmikilla breytinga á almannatryggingakerfinu. Breytingarnar tóku gildi í byrjun september en voru samþykktar á Alþingi árið 2024. Með þeim var almannatryggingakerfið einfaldað, greiðsluflokkar sameinaðir og liðkað fyrir atvinnuþátttöku. Meðal annars með hinni nýju hlutaörorku.

ÖBÍ hefur fylgst náið með því hvernig hið nýja kerfi virkar í raun og mun gera það áfram. Þá höfum við átt í farsælu samstarfi við Vinnumálstofnun og atvinnurekendur undir merkjum Unndísar, sem miðar að því að efla atvinnuþátttöku fatlaðs fólks og fjölga hlutastörfum.

Kraftur í málefnahópum

Málefnahópar ÖBÍ unnu mikið og gott starf árið 2025. Hvort sem það snýr að aðgengismálum, húsnæði, kjörum, atvinnu og menntun, börnum eða heilbrigðismálum. Hóparnir héldu fjölda viðburða, birtu greinar, sinntu samráði um mikilvæg hagsmunamál og fjölmargt fleira.

Hér að neðan má finna eitt dæmi um skemmtileg verkefni málefnahópanna, þar sem Bergur Þorri Benjamínsson, þá formaður aðgengishóps, afhenti Sky Lagoon nýtt skilti.

@obirettindasamtokNýju skilti komið fyrir við Sky Lagoon!♬ original sound – ÖBÍ réttindasamtök

Fátæktargildran vakti athygli

Óhætt er að segja að fátæktargildran sem ÖBÍ reisti við Alþingishúsið á alþjóðlegum baráttudegi gegn fátækt 17. október, og síðar í Smáralind, hafi vakið athygli. Fjallað var um gildruna í öllum stærstu fjölmiðlum og mikill fjöldi flykktist að henni til að skoða.

Gildran var reist í samstarfi við Brandenburg til þess að vekja athygli á þeim stóra hópi fatlaðs fólks á Íslandi sem býr við fátækt. Það er óviðunandi ástand og því þarf að breyta.

Öflugt samstarf

ÖBÍ réttindasamtök eiga sem fyrr í miklu og góðu samstarfi við fjölda aðila, enda næst árangur í réttindabaráttu með samstöðu, samvinnu og samtali. Hér má til dæmis nefna nýjan samstarfssamning ÖBÍ við Hinsegin daga, en ÖBÍ tók þátt í Regnbogaráðstefnunni í ár og gekk í Gleðigöngunni í Reykjavík.

Þá á ÖBÍ fulltrúa í stjórn Kvennaárs og kom að skipulagningu fjöldamargra viðburða á árinu undir þeirra merkjum. Voru fatlaðar konur innan ÖBÍ til dæmis með bás í sögugöngu Kvennaverkfalls sem vakti verðskuldaða athygli.

Hægt væri að tilgreina fjöldan allan af öðrum samstarfsverkefnum en áhugasömum er bent á að skoða ársskýrslu ÖBÍ fyrir frekari upplýsingar um samstarfsverkefni.