
Einstök bar er handhafi Fjólublás ljóss við barinn, aðgengisviðurkenningar UngÖBÍ, árið 2025. Verðlaunagripurinn var afhentur við hátíðlega athöfn á barnum 16. október.
„Þetta er aðgengisviðurkenning sem við hjá UngÖBÍ erum einstaklega stolt af. Markmiðið er að hvetja bari og skemmtistaði til að bæta aðgengi og fagna þeim sem gera gott á því sviði,“ sagði Eiður Welding, formaður UngÖBÍ, í ræðu sinni á viðburðinum.
Stemning skiptir nefnilega máli í aðgengismálum og hana á að verðlauna, sagði Eiður og bætti við: „Í ár veitum við Einstök bar viðurkenninguna. Hér geta allir setið, allir komast leiðar sinnar og stemningin er frábær.“
Fjólubláa ljósið er veitt þeim sem hafa stuðlað að bættu aðgengi fatlaðs fólks að skemmtanalífi á Íslandi. Þetta er í annað sinn sem viðurkenningin er veitt en síðast féll hún í skaut Bíó Paradísar.
UngÖBÍ er vettvangur fyrir ungt fatlað fólk á aldrinum 18 til 35 ára til að vinna að sínum hagsmunamálum og öðlast rödd í réttindasamtökunum.

