
Flosi Eiríksson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Örtækni ehf. frá og með 9. september 2025. Örtækni er í eigu ÖBÍ réttindasamtaka.
Flosi hefur fjölbreytta reynslu úr atvinnulífinu og hefur meðal annars starfað sem ráðgjafi hjá Aton og KPMG og verið framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands. Hann þekkir vel til á vinnumarkaði og til margvíslegs reksturs. Flosi er viðskiptafræðingur að mennt og er einnig með sveinspróf í húsasmíði.
„Það er afar spennandi að koma til liðs við Örtækni þar sem starfar gott fólk með mikla reynslu og þekkingu. Örtækni stendur traustum fótum, en með breytingum í lagaumhverfi og rekstrarformi eru margvíslegir möguleikar til vaxa og eflast“ segir Flosi.
Jónas Páll Jakobsson lét af störfum eftir afar farsælt fjögurra ára starf hjá Örtækni, en Jónas tók við sem framkvæmdastjóri Brynju leigufélags í byrjun ágúst.
Starfsemi Örtækni er nokkuð fjölbreytt en Örtækni vinnur með mörgum af framsæknustu fyrirtækjum landsins og þjónustar einhver helstu tækni- og iðnfyrirtæki á Íslandi. Örtækni sérhæfir sig í samsetningu og smíði á öllum gerðum kapla auk þess að bjóða upp á mikið úrval af tengibúnaði fyrir tölvu- og tæknibúnað af öllum stærðum og gerðum. Stór hluti starfseminnar er einnig samsetning á flóknum búnaði fyrir hin ýmsu fyrirtæki, nefna má Vaka fiskeldiskerfi, Marorku, Landsvirkjun, Marel, Össur, Johan Rönning og Faradice.
Örtækni er einnig með ræstingadeild sem sér um daglegar ræstingar fyrir fyrirtæki og stofnanir og má þar m.a nefna Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Brynju leigufélag. Hjá Örtækni starfa um 30 manns.

