
Alþingi samþykkti í dag að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF). ÖBÍ réttindasamtök fagna áfanganum innilega og óska landsmönnum öllum til hamingju. Með þessu eru mannréttindi fatlaðs fólks tryggð í íslenskum lögum.
„Í dag uppskerum við rækilega eftir langa baráttu. ÖBÍ hefur í meira en áratug haldið þessu máli á lofti, unnið með félögum, stjórnvöldum og sérfræðingum og krafist þess að samningurinn yrði lögfestur,“ segir Alma Ýr Ingólfsdóttir, formaður ÖBÍ.
Hvað þýðir lögfesting í reynd
Lögfesting SRFF þýðir á mannamáli að samningurinn verður hluti af íslenskum rétti. Réttindin sem hann lýsir, eins og jafnt aðgengi, bann við mismunun, þátttaka á eigin forsendum og krafa um viðeigandi aðlögun, verða þannig alveg skýr í íslensku réttarkerfi. Því er um að ræða gríðarlega réttarbót fyrir allt fatlað fólk hér á landi.
„Fólk þarf ekki að reiða sig á vilja stjórnvalda hverju sinni heldur getur vísað beint í þennan mikilvæga mannréttindasamning þegar réttindi eru brotin. Þetta einfaldar leiðina að lausnum og hraðar umbótum,“ segir Alma Ýr.
Þökk til Alþingis og ráðherra
ÖBÍ vill þakka bæði þingmönnum og félags- og húsnæðismálaráðherra fyrir að hafa gert lögfestinguna að veruleika. Hún markar kaflaskil í íslensku samfélagi og nú reynir á stjórnvöld að tryggja að fatlað fólk njóti þeirra réttinda sem útlistuð eru í samningnum.
„Lögfestingin er mikið fagnaðarefni en það er margt enn óunnið. Nú þarf að tryggja að hér ríki raunverulegt jafnrétti. Íslenskt samfélag þarf að standa undir ákvæðum samningsins. ÖBÍ mun halda áfram að vinna að því markmiði að staðfestu,“ segir Alma.
Langvarandi barátta skilar árangri
ÖBÍ réttindasamtök hafa barist fyrir lögfestingu SRFF í meira en áratug, lagt fram ábendingar, skýrslur og tillögur og staðið fyrir viðburðum og vitundarvakningu. Markmiðið hefur alla tíð verið að tryggja að réttindi fatlaðs fólks séu virt.
Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 13. desember 2006. Ísland undirritaði samninginn 30. mars 2007 og fullgilti hann 23. september 2016. Með lögfestingu tekur Ísland næsta skref og innleiðir samninginn beint í landsrétt.

