Skip to main content
FréttMálefni barna

Samstarfssamningur við ÍF undirritaður

By 13. nóvember 2025No Comments

Alma Ýr Ingólfsdóttir formaður ÖBÍ réttindasamtaka, og Þórður Árni Hjaltested formaður Íþróttasambands fatlaðra (ÍF) undirrituðu um liðna helgi þriggja ára samstarfssamning um stuðning ÖBÍ við þróunarsvið ÍF og verkefnið Allir með. Samningurinn felur í sér samtals 12 milljóna króna framlag á árunum 2026 til 2028, eða 4 milljónir króna á ári.

Allir með er þróunarverkefni sem miðar að því að efla tækifæri fatlaðra barna og ungmenna til þátttöku í íþróttastarfi. Með samningnum styrkir ÖBÍ þróun og uppbyggingu verkefnisins á næstu árum í nánu samstarfi við ÍF og aðra hagsmunaaðila.

Málefnahópur ÖBÍ um málefni barna átti aðkomu að fyrstu skrefum verkefnisins þegar leitað var eftir sögum og reynslu foreldra fatlaðra barna af íþróttastarfi. Þær upplýsingar komu að gagni við mótun verkefnisins út frá reynslu fjölskyldna og þeim hindrunum sem þær mæta í dag.

„Með þessum samningi erum við að styðja ákaflega mikilvægt verkefni, enda á möguleikinn til þátttöku í íþróttastarfi að vera sjálfsagður réttur allra barna,“ segir Alma Ýr.