Skip to main content
FréttSRFF

Talsmenn fatlaðs fólks tilnefndir á Alþingi

By 19. nóvember 2025No Comments
Nýir talsmenn fatlaðs fólks á Alþingi. Frá vinstri: Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Ólafur Adolfsson, Grímur Grímsson.

ÖBÍ réttindasamtök fagna því að í fyrsta sinn hafi þingflokkar á Alþingi tilnefnt sérstaka talsmenn fatlaðs fólks. Hlutverk þeirra er að huga að hagsmunum fatlaðs fólks í þingstörfum og tryggja skýran farveg fyrir sjónarmið fatlaðs fólks inn í ákvarðanatöku.

Skipan talsmannanna er hluti af Landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks sem Alþingi samþykkti á síðasta ári og er jafnframt mikilvægur liður í innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Alþingi samþykkti að lögfesta í síðustu viku.

Verkefnið er á ábyrgð félags- og húsnæðismálaráðherra og voru allir þingflokkar beðnir um að tilnefna einn talsmann úr hverjum flokki. Fimm flokkar af sex tilnefndu talsmann og eru þeir:

  • Grímur Grímsson, Viðreisn
  • Ólafur Adolfsson, Sjálfstæðisflokki
  • Halla Hrund Logadóttir, Framsóknarflokki
  • Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Flokki fólksins
  • Sigmundur Ernir Rúnarsson, Samfylkingu

Talsmennirnir fengu fyrir helgi fræðslu um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, heyrðu reynslusögur fatlaðs fólks og kynntust betur reynsluheimi þess. Á meðal þeirra sem héldu tölu á góðum fundi með talsmönnum voru Alma Ýr Ingólfsdóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka, Sigurborg Sveinsdóttir, ritari Geðhjálpar, Fabiana Morais, talskona fatlaðs fólks hjá Landssamtökunum Þroskahjálp, og Ásta Kristín Benediktsdóttir, sérfræðingur hjá félags- og húsnæðismálaráðuneytinu auk Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra. Góðar og líflegar umræður spunnust um réttindi fatlaðs fólks og hlutverk talsmannanna.

Við lok fundarins undirrituðu talsmennirnir heiðursmannasamkomulag um að að hafa samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að leiðarljósi í störfum sínum og gæta réttinda fatlaðs fólks.