
ÖBÍ réttindasamtök vilja þakka öllum þeim sem tóku þátt í átakinu Upplýst samfélag í ár og lýstu mannvirki fjólublá, klæddust fjólubláu eða vörpuðu ljósi á réttindabaráttu fatlaðs fólks með einum eða öðrum hætti. ÖBÍ stendur fyrir átakinu þann 3. desember ár hvert, á alþjóðadegi fatlaðs fólks, en fjólublár er einmitt einkennislitur réttindabaráttu fatlaðs fólks.
Alþjóðadagur fatlaðs fólks hefur verið haldinn frá árinu 1992 að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna. Markmiðið er að efla skilning á stöðu fatlaðs fólks, styrkja réttindi þess og minna á að fullt og virkt aðgengi að samfélaginu er mannréttindamál. Jafnframt er lögð áhersla á að sýna hvernig þátttaka fatlaðs fólks á öllum sviðum samfélagsins gerir samfélagið betra fyrir alla.
Undanfarin ár hafa fjölmörg ráðuneyti, sveitarfélög og stofnanir, sem og fyrirtæki og einstaklingar tekið þátt með því að lýsa upp ráðhús, stjórnsýsluhús, íþróttamannvirki og önnur kennileiti í fjólubláum lit. Þannig er fallegum ljósum breytt í skýra áminningu um að fatlað fólk eigi að njóta mannréttinda til jafns við aðra.

