
Veruleiki hinsegin fatlaðs fólks var á meðal þess sem var til umræðu á Regnbogaráðstefnunni í Iðnó í gær. Ráðstefnan var haldin af Hinsegin dögum í samstarfi við ÖBÍ réttindasamtök, var vel sótt og samanstóð af fjölda erinda og pallborða.
ÖBÍ stóðu fyrir pallborðsumræðum undir yfirskriftinni „Fjölbreyti innan fjölbreytileikans, samtal um hinsegin fötlun“ þar sem þátttakendur miðluðu eigin reynslu. Sara Dögg Svanhildardóttir stýrði pallborðinu en í því sátu Ólafur Aðalsteinsson, stjórnarmaður í Þroskahjálp, Unnur Þöll Benedeiktsdóttir, varaformaður Daufblindrafélagsins, Sóley Ósk Jónsdóttir, sagnfræðingur og Ólafur Helgi Móberg Ólason, draglistamaður.
Þátttakendur ræddu meðal annars helstu hindranir sem hafa orðið á vegi þeirra.
„Þetta er gríðarlega stór spurning, ef maður fer yfir lífið, fyrsta og augljósasta svarið er í fordómum. Það er allt of oft sem að annar fólk ákveður fyrir mig hvað ég get gert, í stað þess að ég fái að ákveða sjálf eða fái að láta á það reyna og átta mig sjálf á hvað er gerlegt,“ sagði Unnur.
Þá sagði Ólafur Aðalsteinsson að honum hafi þótt sérstaklega erfitt að koma út úr skápnum sem fatlaður hommi. „Því í hinsegin samfélaginu er mikið um útlitsdýrkanir og mér fannst ég ekki nógu góður og fallegur og ég ætti ekki heima hérna. Þannig að mér fannst erfiðara einhvern veginn að sætta mig við að vera fatlaður og hommi, einhvern veginn mátti það ekki vera tvennt saman. Þetta var stærsta hindrunin fyrir mig, en í samfélaginu í heild verð ég að vera sammála með fordómana.“
Pallborðið var sömuleiðis spurt hvað hinsegin samfélagið getur gert betur til að tryggja fulla þátttöku og réttindi fatlaðs fólks og bar þátttakendum saman um að Samtökin ’78 hefðu gert afar vel, þótt enn sé þörf á úrbótum.
„Mér fannst ég vera velkominn og það er einmitt þannig sem manni á að líða, þegar þú veist að þegar þú ert hinsegin, að finnast maður vera velkominn í þetta samfélag,“ sagði Ólafur Helgi. Þó megi gera betur, til dæmis með aukinni fræðslu. Það sé algjört forgangsatriði.
Sóley tók undir það og bætti við að Hinsegin dagar hafi tekið mikilvæg skref í að gera viðburði aðgengilegri fyrir fatlað fólk.
„En það er eitt mikilvægt, sérstaklega varðandi tenginguna milli trans einstaklinga og skynsegin. Það vantar mjög mikið á Íslandi vitneskju um þá staðreynd að trans einstaklingar eru mun líklegri til að vera skynsegin, þannig að þegar hugsað er um rými er mikilvægt að hafa það skynseginvænt, því líkurnar eru meira en 10% að einstaklingar í því rými séu skynsegin.“

