Skip to main content
HeilbrigðismálUmsögn

Lög um sjúklingatryggingu

By 6. nóvember 2023nóvember 10th, 2023No Comments

„ÖBÍ leggur til að skylda sjúkratryggingastofnunar verði ekki afnumin enda mun áfram hvíla rík leiðbeiningar- og upplýsingaskylda á stofnuninni.“

Umsögn um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sjúklingatryggingu, nr. 177/2023.

ÖBÍ – réttindasamtök (ÖBÍ) taka undir þær breytingar sem koma fram í því frumvarpi sem hér er til umsagnar en óska eftir að koma eftirfarandi á framfæri varðandi leiðbeiningar- og upplýsingaskyldu. Ákvæðið um leiðbeiningarskyldu í lögum um sjúklingatryggingu nr. 111/2000 er sérákvæði og því hvílir ríkari leiðbeiningarskylda á heilbrigðisstarfsmönnum og sjúkrastofnuninni að kynna ákvæði laganna fyrir almenningi en leiðir af 7. gr. stjórnsýslulaga.

Til ÖBÍ hafa leitað einstaklingar sem hafa orðið fyrir líkamlegu eða geðrænu tjóni hér á landi í tengslum við sjúkdómsmeðferð á sjúkrahúsi, heilsugæslustöð eða annarri heilbrigðisstofnun, í heimahúsi, sjúkraflutningum eða hjá heilbrigðisstarfsmanni sem starfar sjálfstætt. Því miður hefur í mörgum málum reynt á fyrningu vegna skorts á leiðbeiningar- og upplýsingaskyldu og því telur ÖBÍ brýnt að lögð verði rík áhersla á lagaákvæði um leiðbeiningarskylduna og fyrningu við frekari vinnslu frumvarpsins. Eins og gefur að skilja er ótækt að einstaklingar sem hafa orðið fyrir líkamlegu og/eða geðrænu tjóni þurfi að þola það að mál þeirra séu fyrnd vegna skorts á leiðbeiningum og upplýsingum á hugsanlegum rétti þeirra á bótum úr sjúklingatryggingu.

Í frumvarpinu kemur fram að rétt sé að afnema skyldu sjúkratryggingastofnunar að kynna ákvæði laganna fyrir almenningi. ÖBÍ leggur til að skylda sjúkratryggingastofnunar verði ekki afnumin enda mun áfram hvíla rík leiðbeiningar- og upplýsingaskylda á stofnuninni.

ÖBÍ leggur til að ákvæði um leiðbeiningar- og upplýsingarskyldu verði svohljóðandi:

Heilbrigðisstofnunum, heilbrigðisstarfsfólki og sjúkrastofnuninni er skylt að upplýsa notendur heilbrigðisþjónustu og aðstandendur þeirra um sjúklingatryggingu.

Ekkert um okkur án okkar!

Virðingafyllst,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Bára Brynjólfsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ


Drög að frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu
Mál nr. S-177/2023. Heilbrigðisráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 6. nóvember 2023