Skip to main content
Umsögn

Lestur SRFF – 31. til 50 gr.

By 22. október 2019No Comments

31. gr.

Tölfræðilegar upplýsingar og gagnasöfnun.

1. Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að safna viðeigandi upplýsingum, meðal annars tölfræðilegum gögnum og rannsóknargögnum, sem gera þeim kleift að móta og framfylgja stefnum samningi þessum til framkvæmdar. Vinnuferli við að safna og viðhalda þessum upplýsingum skulu:
a) vera í samræmi við lögmæltar öryggisráðstafanir, þar á meðal löggjöf um gagnavernd, til þess að tryggja trúnað og virðingu fyrir einkalífi fatlaðs fólks;
b) vera í samræmi við alþjóðlega viðurkennd viðmið um vernd mannréttinda og grundvallarfrelsis og siðferðileg viðmið við söfnun og notkun tölfræðilegra upplýsinga.
2. Upplýsingar, sem er safnað samkvæmt þessari grein, skal sundurliða eftir því sem við á og nota til þess að meta hvernig aðildarríkjunum miðar að innleiða skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum og til að greina og takast á við þær hindranir sem fatlað fólk stendur frammi fyrir þegar það hyggst nýta sér réttindi sín.
3. Aðildarríkin skulu ábyrgjast miðlun fyrrnefndra tölfræðilegra upplýsinga og tryggja fötluðu fólki og öðrum aðgengi að þeim.

32. gr.

Alþjóðlegt samstarf.

1. Aðildarríkin viðurkenna mikilvægi alþjóðlegs samstarfs og eflingu þess til stuðnings innlendum aðgerðum til þess að tilgangur og markmið samnings þessa megi verði að veruleika og munu gera viðeigandi og árangursríkar ráðstafanir hvað það varðar milli og meðal ríkja og, eftir því sem við á, í samvinnu við hlutaðeigandi alþjóða- og svæðisstofnanir og borgaralegt samfélag, einkum samtök fatlaðs fólks. Slíkar ráðstafanir gætu meðal annars tekið til þess:
a) að tryggja að alþjóðlegt samstarf, þar á meðal alþjóðlegar þróunaráætlanir, nái til fatlaðs fólks og sé því aðgengilegt,
b) að greiða fyrir og styðja uppbyggingu þekkingar og getu, þar á meðal með því að skiptast á og miðla upplýsingum, reynslu, þjálfunaráætlunum og bestu starfsvenjum,
c) að greiða fyrir samvinnu á sviði rannsókna og auðvelda aðgengi að vísinda- og tækniþekkingu,
d) að láta í té, eftir því sem við á, tækni- og efnahagsaðstoð, meðal annars með því að auðvelda aðgang að og miðla aðgengilegri og styðjandi tækni og með yfirfærslu á tækni.

2. Ákvæði þessarar greinar hafa engin áhrif á þá skyldu sérhvers aðildarríkis að efna skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum.

33. gr.

Framkvæmd og eftirlit innan lands.

  1. Aðildarríkin skulu tilnefna, í samræmi við stjórnskipulag sitt, eina miðstöð eða fleiri innan stjórnsýslunnar vegna mála er varða framkvæmd samnings þessa og taka til tilhlýðilegrar umfjöllunar hvort koma skuli á eða tiltaka samræmingarkerfi innan stjórnsýslunnar í því skyni að greiða fyrir skyldum aðgerðum á ólíkum sviðum og ólíkum stigum.
  2. Aðildarríkin skulu, í samræmi við réttar- og stjórnkerfi hvers ríkis um sig, viðhalda, treysta, tiltaka eða koma á innviðum, þar á meðal einu eða fleiri sjálfstæðum kerfum, eftir því sem við á, í því skyni að styrkja, vernda og hafa eftirlit með framkvæmd samnings þessa. Aðildarríkin skulu, þegar þau tiltaka slíkt kerfi eða koma því á, taka mið af þeim meginreglum sem gilda um stöðu og starfsemi þjóðbundinna mannréttindastofnana.
  3. Borgaralegt samfélag, einkum fatlað fólk og samtök sem koma fram fyrir þess hönd, skal eiga hlut að og taka fullan þátt í eftirlitsferlinu.

34. gr.

Nefnd um réttindi fatlaðs fólks.

  1. Setja ber á stofn nefnd um réttindi fatlaðs fólks (hér eftir nefnd „nefndin“) sem skal vinna þau verk sem kveðið er á um hér á eftir.
  2. Þegar samningur þessi tekur gildi skulu tólf sérfræðingar skipa nefndina. Eftir að sextíu aðilar til viðbótar hafa fullgilt samninginn eða gerst aðilar að honum skal fjölga í nefndinni um sex fulltrúa sem þýðir að hámarksfjöldi fulltrúa í nefndinni verður átján.
  3. Nefndarfólk situr í nefndinni á eigin forsendum sem einstaklingar og skal hafa sterka siðferðisvitund og viðurkennda hæfni og reynslu á því sviði sem samningur þessi tekur til. Óskað er eftir því að aðildarríkin taki eðlilegt tillit til ákvæða 3. mgr. 4. gr. samnings þessa þegar þau tilnefna frambjóðendur sína.
  4. Aðildarríkin kjósa fulltrúa í nefndina að teknu tilliti til jafnrar dreifingar milli heimshluta, þess að fulltrúar komi frá ólíkum menningarþjóðfélögum og helstu réttarkerfum og að teknu tilliti til jafnrar þátttöku kynjanna og þátttöku fatlaðra sérfræðinga.
  5. Fulltrúarnir í nefndinni skulu kjörnir í leynilegri atkvæðagreiðslu af lista einstaklinga, sem aðildarríkin tilnefna úr hópi borgara sinna, þegar fundir þings aðildarríkjanna fara fram. Á þeim fundum, sem eru ákvörðunarbærir, eigi tveir þriðju aðildarríkjanna þar fulltrúa, skulu þeir einstaklingar sem eru kjörnir til setu í nefndinni vera þeir sem hljóta flest atkvæði og hreinan meiri hluta atkvæða þeirra aðildarríkja sem eiga fulltrúa sem eru viðstaddir og greiða atkvæði.
  6. Halda ber fyrstu kosningu eigi síðar en sex mánuðum eftir þann dag þegar samningur þessi öðlast gildi. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal senda aðildarríkjunum bréf eigi síðar en fjórum mánuðum fyrir dagsetningu sérhverrar kosningar og óska eftir tilnefningum þeirra innan tveggja mánaða. Aðalframkvæmdastjórinn tekur því næst saman skrá í stafrófsröð yfir allt það fólk sem þannig er tilnefnt og þar sem fram kemur hvaða aðildarríki tilnefndi það og sendir að svo búnu skrána þeim ríkjum sem eru aðilar að samningi þessum.
  7. Kjörtímabil fulltrúa í nefndinni er fjögur ár. Heimilt er að endurkjósa þá einu sinni. Engu að síður skal kjörtímabili sex þeirra sem eru kosnir í fyrstu kosningu ljúka að tveimur árum liðnum; strax að lokinni fyrstu kosningu skal fundarstjóri, á fundi þeim er um getur í 5. mgr. þessarar greinar, velja nöfn fyrrnefndra sex nefndarfulltrúa með hlutkesti.
  8. Kjör hinna sex viðbótarfulltrúa í nefndinni skal fara fram þegar reglubundnar kosningar fara fram í samræmi við viðeigandi ákvæði þessarar greinar.
  9. Falli nefndarfulltrúi frá eða segi af sér eða lýsi því yfir að hún eða hann geti ekki, af einhverri annarri ástæðu, gegnt skyldum sínum skal aðildarríkið, sem tilnefndi fulltrúann, skipa annan sérfræðing, sem hefur þá hæfni og uppfyllir þær kröfur er um getur í viðeigandi ákvæðum þessarar greinar, til þess að starfa í nefndinni út kjörtímabilið.
  10. Nefndin skal setja sér eigin starfsreglur.
  11. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal útvega nauðsynlegt starfsfólk og aðstöðu til þess að nefndin geti sinnt störfum sínum með árangursríkum hætti samkvæmt samningi þessum og boða til fyrsta fundar hennar.
  12. Þau sem sitja í nefndinni, sem er komið á fót samkvæmt samningi þessum, skulu með samþykki allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna þiggja laun úr sjóðum Sameinuðu þjóðanna samkvæmt þeim skilmálum og skilyrðum sem allsherjarþingið kann að ákveða, að teknu tilliti til mikilvægis þeirra ábyrgðarstarfa sem nefndin sinnir.
  13. Fulltrúar í nefndinni eiga tilkall til aðstöðu, réttinda og friðhelgi sérfræðinga, sem reka erindi Sameinuðu þjóðanna, eins og mælt er fyrir um í viðeigandi hlutum Samningsins um réttindi og friðhelgi Sameinuðu þjóðanna.

35. gr.

Skýrslugjöf aðildarríkjanna.

  1. Sérhvert aðildarríki skal senda nefndinni, fyrir milligöngu aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, heildstæða skýrslu um ráðstafanir sem hafa verið gerðar í því skyni að efna skuldbindingar þess samkvæmt samningi þessum og um framfarir, sem hafa orðið á því sviði, innan tveggja ára frá því að samningur þessi öðlast gildi gagnvart hlutaðeigandi aðildarríki.
  2. Eftir það skulu aðildarríkin senda skýrslur sínar eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti og oftar í hvert sinn sem nefndin fer fram á það.
  3. Nefndin skal ákvarða allar leiðbeiningar um efni skýrslnanna.
  4. Aðildarríki, sem hefur sent nefndinni heildstæða frumskýrslu, þarf ekki að endurtaka áður veittar upplýsingar í skýrslum sem á eftir koma. Óskað er eftir því, þegar aðildarríkin undirbúa skýrslur til nefndarinnar, að þau geri það með opnum og gagnsæjum hætti og taki eðlilegt tillit til ákvæðisins í 3. mgr. 4. gr. samnings þessa.
  5. Í skýrslunum er heimilt að geta um þá þætti og erfiðleika sem hafa áhrif á það hvernig miðar að efna skuldbindingar samkvæmt samningi þessum.

36. gr.

Umfjöllun um skýrslur.

  1. Nefndin skal fjalla um sérhverja skýrslu og gera þær tillögur og leggja fram þau almennu tilmæli sem hún telur við eiga og senda hlutaðeigandi aðildarríki. Aðildarríkið getur svarað með því að láta nefndinni í té allar upplýsingar sem það kýs. Nefndin getur óskað eftir frekari upplýsingum frá aðildarríkjunum sem varða framkvæmd samnings þessa.
  2. Dragist verulega á langinn að aðildarríki sendi skýrslu sína getur nefndin tilkynnt hlutaðeigandi aðildarríki um að nauðsynlegt sé að kanna framkvæmd samnings þessa í því aðildarríki, á grundvelli áreiðanlegra upplýsinga sem nefndin hefur aðgang að, hafi viðkomandi skýrsla ekki verið send innan þriggja mánaða frá tilkynningunni. Nefndin skal bjóða hlutaðeigandi aðildarríki að taka þátt í slíkri könnun. Bregðist aðildarríkið við með því að senda viðkomandi skýrslu gilda ákvæði 1. mgr. þessarar greinar.
  3. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal gera öllum aðildarríkjunum kleift að nálgast skýrslurnar.
  4. Aðildarríkin skulu gera skýrslur sínar aðgengilegar almenningi í eigin löndum og greiða fyrir aðgangi að þeim tillögum og tilmælum sem varða þessar skýrslur.
  5. Nefndin skal, eftir því sem hún telur við eiga, senda sérstofnunum, sjóðum og áætlunum Sameinuðu þjóðanna og öðrum bærum stofnunum, skýrslur frá aðildar-ríkjum, til þess að unnt sé að taka fyrir beiðni um eða vísbendingu um þörf fyrir tæknilega ráðgjöf eða aðstoð, sem þar kemur fram, ásamt athugasemdum nefndarinnar og tilmælum, ef um þau er að ræða, viðvíkjandi þessum beiðnum eða vísbendingum.

37. gr.

Samvinna milli aðildarríkjanna og nefndarinnar.

  1. Sérhvert aðildarríki skal vinna með nefndinni og aðstoða nefndarfólk við að uppfylla skyldur sínar eftir því umboði sem veitt er.
  2. Nefndin skal, í samskiptum sínum við aðildarríkin, taka eðlilegt tillit til leiða og aðferða við að auka getu innan lands til þess að framfylgja samningi þessum, þar á meðal í gegnum alþjóðlegt samstarf.

38. gr.

Tengsl nefndarinnar við aðrar stofnanir.

Í því skyni að greiða fyrir árangursríkri framkvæmd samnings þessa og stuðla að samvinnu þjóða í milli á því sviði sem hann fjallar um:
a) Skulu sérstofnanir Sameinuðu þjóðanna og aðrar stofnanir þeirra hafa rétt til þess að eiga fyrirsvar þegar fjallað er um framkvæmd þeirra ákvæða samnings þessa sem umboð þeirra tekur til. Nefndin getur óskað eftir því við sérstofnanirnar og aðrar bærar stofnanir, eftir því sem hún telur við hæfi, að þær leggi fram sérfræðiálit um framkvæmd samningsins innan þeirra sviða sem umboð hverrar um sig tekur til. Nefndin getur óskað eftir því við sérstofnanir og aðrar stofnanir Sameinuðu þjóðanna að þær leggi fram skýrslur um framkvæmd samningsins á þeim sviðum sem starfsemi þeirra tekur til.
b) Þegar nefndin uppfyllir skyldur sínar eftir umboði sínu skal hún hafa samráð, eftir því sem við á, við aðrar hlutaðeigandi stofnanir, sem er komið á fót samkvæmt alþjóðasamningum um mannréttindi, í því skyni að tryggja samræmi leiðbeininga, tillagna og almennra tilmæla hverrar um sig viðvíkjandi skýrslugerð og að forðast tvíverknað og skörun í störfum þeirra.

39. gr.

Skýrsla nefndarinnar.

Nefndin skal gefa allsherjarþinginu og efnahags- og félagsmálaráðinu skýrslu um starfsemi sína og getur lagt fram tillögur og almenn tilmæli byggð á könnun skýrslna og upplýsingum frá aðildarríkjunum.

Slíkar tillögur og almenn tilmæli ber að fella inn í skýrslu nefndarinnar ásamt athuga-semdum, ef einhverjar eru, frá aðildarríkjunum.

40. gr.

Þing aðildarríkjanna.

  1. Fulltrúar aðildarríkjanna skulu hittast reglulega á þingi aðildarríkjanna í því skyni að fjalla um hvers kyns mál er varða framkvæmd samnings þessa.
  2. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal kalla saman þing aðildarríkjanna eigi síðar en sex mánuðum eftir að samningur þessi öðlast gildi. Aðalframkvæmda-stjórinn boðar til funda annað hvert ár eftir það eða eins oft og þing aðildarríkjanna ákveður.

41. gr.

Vörsluaðili.

Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal vera vörsluaðili samnings þessa.

42. gr.

Undirritun.

Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar af hálfu allra ríkja og svæðisstofnana um samvinnu í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York frá og með 30. mars 2007.

43. gr.

Samþykki fyrir því að vera bundinn af samningi þessum.

Samningur þessi er með fyrirvara um fullgildingu undirritunarríkja og formlega staðfestingu svæðisstofnana um samvinnu sem undirrita hann. Samningurinn skal liggja frammi til aðildar af hálfu sérhvers ríkis eða svæðisstofnunar um samvinnu sem ekki hefur undirritað hann.

44. gr.

Svæðisstofnanir um samvinnu.

  1. „Svæðisstofnun um samvinnu“ merkir stofnun sem fullvalda ríki á tilteknu svæði koma á fót og hefur valdheimildir, sem aðildarríki hennar veita henni, til að fara með málefni sem samningur þessi fjallar um. Svæðisstofnanir um samvinnu skulu greina, í skjölum sínum um formlega staðfestingu eða aðild, frá valdmörkum sínum með tilliti til málefna sem samningur þessi fjallar um. Þær skulu síðar meir tilkynna vörsluaðila um hverja þá breytingu sem verða kann á valdheimildum þeirra og skiptir máli.
  2. Vísanir til „aðildarríkja“ í samningi þessum eiga við slíkar stofnanir eins langt og valdheimildir þeirra ná.
  3. Að því er varðar 1. mgr. 45. gr. og 2. og 3. mgr. 47. gr. samnings þessa skal eigi telja með skjöl sem svæðisstofnun um samvinnu afhendir til vörslu.
  4. Svæðisstofnanir um samvinnu geta, í málum sem valdheimildir þeirra ná til, neytt atkvæðisréttar á þingi aðildarríkja með sama fjölda atkvæða og fjöldi aðildarríkja þeirra, sem eru aðilar að samningi þessum, segir til um. Slík stofnun skal ekki neyta atkvæðisréttar síns ef eitthvert aðildarríki hennar neytir atkvæðisréttar síns og öfugt.

45. gr.

Gildistaka.

  1. Samningur þessi öðlast gildi á þrítugasta degi eftir að tuttugasta skjalið um fullgildingu eða aðild hefur verið afhent til vörslu.
  2. Gagnvart sérhverju ríki eða svæðisstofnun um samvinnu, sem fullgildir samning þennan, staðfestir hann formlega eða gerist aðili að honum eftir afhendingu tuttugasta skjalsins um slíka athöfn til vörslu, skal samningurinn öðlast gildi á þrítugasta degi eftir að hlutaðeigandi ríki eða slík stofnun hefur afhent viðkomandi skjal sitt til vörslu.

46. gr.

Fyrirvarar.

Óheimilt er að gera fyrirvara sem eru ósamrýmanlegar markmiðum og tilgangi samnings þessa.
Heimilt er að draga fyrirvara til baka hvenær sem er.

47. gr.

Breytingar.

  1. Sérhvert aðildarríki getur lagt fram breytingartillögu við samning þennan og sent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Aðalframkvæmdastjórinn skal senda aðildarríkjunum allar breytingartillögur, ásamt beiðni um að honum verði tilkynnt hvort þau séu því meðmælt að haldið verði þing aðildarríkja í því skyni að fjalla um þær og afgreiða. Komi í ljós, innan fjögurra mánaða frá því að aðalframkvæmdastjórinn sendir slíkar tillögur, að minnst þriðjungur aðildarríkjanna sé meðmæltur þinghaldi skal aðalframkvæmdastjórinn kalla þingið saman á vegum Sameinuðu þjóðanna. Aðalframkvæmdastjórinn skal senda allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sérhverja breytingartillögu, sem er samþykkt með tveimur þriðju hluta atkvæða þeirra aðildarríkja sem eiga fulltrúa sem eru viðstaddir og greiða atkvæði, til samþykktar og í framhaldi af því öllum aðildarríkjum til staðfestingar.
  2. Breyting, sem er innleidd og samþykkt í samræmi við 1. mgr. þessarar greinar, öðlast gildi á þrítugasta degi eftir að fjöldi skjala um staðfestingu, sem hafa verið afhent til vörslu, jafngildir fjölda samningsríkja að tveimur þriðju þann dag þegar breytingin er samþykkt. Eftir það öðlast breytingin gildi gagnvart hvaða aðildarríki sem er á þrítugasta degi eftir að það afhendir skjal sitt um staðfestingu til vörslu. Breyting er aðeins bindandi fyrir þau aðildarríki sem hafa staðfest hana.
  3. Breyting, sem er innleidd og samþykkt í samræmi við 1. mgr. þessarar greinar og varðar 34., 38., 39. og 40. gr. einvörðungu, skal, ákveði þing aðildarríkja það einróma, öðlast gildi gagnvart öllum aðildarríkjum á þrítugasta degi eftir að fjöldi skjala um staðfestingu, sem hafa verið afhent til vörslu, jafngildir fjölda aðildarríkja að tveimur þriðju þann dag þegar breytingin er samþykkt.

48. gr.

Úrsögn.

Aðildarríki getur sagt sig frá samningi þessum með skriflegri tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Úrsögnin tekur gildi einu ári eftir þann dag þegar aðalframkvæmdastjórinn veitir tilkynningunni viðtöku.

49. gr.

Aðgengilegt form.

Texti samnings þessa skal liggja frammi í aðgengilegu formi.

50. gr.

Gildir textar.

Textar samnings þessa á arabísku, kínversku, ensku, frönsku, rússnesku og spænsku eru jafngildir.

ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirritaðir fulltrúar, sem til þess hafa fullt umboð ríkisstjórna sinna, undirritað samning þennan.