Skip to main content
Umsögn

342. mál. Breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld (skattalegir hvatar fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla)

By 15. mars 2021No Comments

Nefndarsvið Alþingis
B.T. Efnahags- og viðskiptanefndar 
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 17. desember 2020.

Efni: Umsögn um: Breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld (skattalegir hvatar fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla) 342. mál, lagafrumvarp. 151. Löggjafarþing 2020-2021

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) er heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi, regnhlífarsamtök yfir félög fatlaðs fólks, langveikra og aðstandenda. Undir regnhlíf bandalagsins eru 43 félög, öll mismunandi að stærð og styrk með um 40.000 félagsmenn.

ÖBÍ lýsir ánægju sinni með framlagt lagafrumvarpi. Með því er gott framfaraskref stigið til að bæta skattaumhverfi almannaheillasamtaka. Um leið verður að tryggja að ríkið dragi ekki úr fjárframlögum sínum til almannaheillasamtaka, sem mörg hver sinna umfangsmiklu hlutverki í þágu ýmissa hagsmunahópa, og sinna þar með oft verkefnum sem ríkið ætti í raun að sinna.

Sérstaklega ber að fagna því að í frumvarpinu er horft til þess að styrkja starfsemi þriðjageirans með því að útvíkka skattalega hvata, en eins og áður segir má það ekki verða til þess að ríkið dragi úr framlögum sínum til félaga sem starfa í þágu almannaheilla.

ÖBÍ hefði viljað sjá mun lengra gengið varðandi virðisaukaskatt á almannaheillafélög. Greiðslur vegna virðisaukaskatts eru með þeim stærri sem félög sem starfa í þágu almannaheilla, inna af hendi.

Má nefna að ýmis kostnaður vegna reksturs almannaheillafélags, s.s. virðisaukaskatts af tækjum, ráðgjöf, auglýsinga og markaðsefni og framleiðslu sjónvarps- og kynningarefnis til upplýsinga fyrir almenning og í þágu fatlaðs fólks, svo eitthvað sé nefnt.

Hér er um að ræða óhagnaðardrifin almannaheillasamtök sem innheimta ekki útskatt en greiða innskatt. Mikilvægt væri fyrir rekstur almannaheillafélaga að virðisaukaskattur væri endurgreiddur af fleiru en mannvirkjaframkvæmdum. ÖBÍ hvetur til þess að það verði gert.

Öryrkjabandalagið styður þetta lagafrumvarp og hvetur til þess að það verði að lögum.

Ekkert um okkur án okkar

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður Öryrkjabandalags Íslands