Skip to main content
Umsögn

667. mál. Tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví. 2020

By 15. maí 2020No Comments
Velferðanefnd Alþingis
Nefndarsviði
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
                                                              Reykjavík 18. mars 2020
 
Efni: Umsögn um frumvarp til laga um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að sýna merki þess að vera sýktir. Þingskjal 1131 – 667. mál.
 
Öryrkjabandalagið lýsir ánægju sinni með frumvarp  félags- og barnamálaráðherra enda og stuðlar það verulega að því að hægja á útbreiðslu Covid-19. ÖBÍ styður afgreiðslu þess að teknu tilliti til neðangreindra ábendinga.
Athugasemdir við frumvarpið
Tryggja verður rétt foreldra fatlaðra barna sem og rétt maka og aðstandenda fatlaðs einstaklings sem settur eru í sóttkví eða er gert að vera heima vegna lokana dagvistunar, leikskóla, skóla eða þjónustumiðstöðvar eða annars úrræðis fyrir fatlaða fullorðna einstaklinga er lokað vegna Covid-19.
 
ÖBÍ tekur undir umsagnir Þroskahjálpar og Sambands sveitarfélaga, m.a. að mikilvægt sé að foreldrar og aðstandendur fatlaðs fólks njóti sama réttar og mælt er fyrir um í frumvarpinu, enda sé það óhjákvæmilegt að foreldri eða aðstandandi verði að vera heima hjá viðkomandi fötluðum eða langveikum einstaklingi, hvort sem einstaklingurinn er barn eða fullorðinn. Frumvarpið þarf að ná utan um foreldra allra barna sem þurfa að vera í sóttkví vegna Covid-19.
 
Öryrkjabandalagið bendir á 11. gr. SRFF í þessu sambandi, í greininni kemur fram skylda ríkisins til þess að grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana sem þörf er á til að tryggja öryggi og vernd fatlaðs fólks í ástandi sem þessu (situations of risk). Sérstakur skýrslugjafi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var í gær að benda á að ríki verða að gæta sín á því að taka fullt tillit til réttinda fatlaðs fólks, það ætti t.d. við að tryggja aðstandendum fjárhagslegan stuðning. Því er nauðsynlegt að foreldrar og aðstandendur njóti sama réttar og mælt er fyrir í frumvarpinu.[1]
 
ÖBÍ er tilbúið að gera grein fyrir umsögn sinni og sjónarmiðum sem varða mannréttindi og þarfir fatlaðs fólks við meðferð og afgreiðslu frumvarpsins sé þess óskað.
 
Ekkert um okkur án okkar.
 
Þuríður Harpa Sigurðardóttir,
formaður ÖBÍ

[1] Orðrétt segir sérstakur skýrslugjafi SÞ um réttindi fatlaðs fólks, Catalina Devandas:  „Access to additional financial aid is also vital to reduce the risk of people with disabilities and their families falling into greater vulnerability or poverty.“

Devandes, Catalina (2020, 17. mars). COVID-19: Who is protecting the people with disabilities? – UN rights expertThe Office of the High Commissioner for Human Rights (UN Human Rights). Sótt 18. mars 2020 af: https://www.ohchr.org/EN/NewsEvents/Pages/DisplayNews.aspx?NewsID=25725&LangID=E&fbclid=IwAR2czfA34ZT6rGmzmaTuS_ejWUbYtjeWK3aN7rU6zRs5WfZFicF0s48N1U8.


Umsögnin á vef Alþingis