Skip to main content
Umsögn

723. mál. Aðgerðir í þágu atvinnulausra vegna COVID-19 heimsfaraldursins. 2020

By 15. maí 2020No Comments
Alþingi

Nefndarsvið Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 5. maí 2020

Efni: Umsögn ÖBÍ um tillögu til þingsályktunar um aðgerðir í þágu atvinnulausra vegna COVID-19 heimsfaraldursins, mál 723.
Öryrkjabandalag Íslands hefur fengið til umsagnar tillögu til þingsályktunar um aðgerðir í þágu atvinnulausra vegna Covid-19 heimsfaraldursins og til að mæta fyrirsjáanlegum skorti á sumarstörfum. ÖBÍ vill koma eftirfarandi ábendingum til skila:

ÖBÍ skilur tillöguna sem svo að óskað sé eftir því við ráðherra grípi til allra nauðsynlegra aðgerða til að tryggja að höggið sem er óhjákvæmilegt í kjölfar heimsfaraldursins verði sem minnst fyrir einstaklinga hér á landi. Það er staðreynd að atvinnumissir getur haft slæm áhrif á einstaklinga og langtímaatvinnuleysi getur haft slæmar afleiðingar. Við þessu þarf að bregðast af festu og sem allra fyrst. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar geta skipt sköpum fyrir marga einstaklinga.

ÖBÍ fagnar tillögunni og bendir á að staðan sem upp er komin, kalli á nýja hugsun í uppbyggingu vinnumarkaðar og að ríkið hafi nú tækifæri til þess að skapa aðstöðu fyrir inngildan vinnumarkað (e. inclusive employment market) fyrir alla.

ÖBÍ tekur jafnframt heilshugar undir það markmið tillögunnar að hækka fjárhæðir atvinnuleysisbóta til að mæta tekjufalli þess hóps sem nú þegar er án atvinnu og horfir fram á atvinnumissi á næstunni. Í því samhengi vill ÖBÍ árétta að þau grunnrök sem eiga við um hækkun atvinnuleysistrygginga eiga einnig við um hækkun á greiðslum til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega.

Óvænt tækifæri til endursköpunar íslensks vinnumarkaðar

Ljóst er að staðan á íslenskum vinnumarkaði er alvarleg en í myrkrinu getur falist ljós. Í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna er hamrað á því að í allri sinni stefnumótun skuli aðildarríki Sameinuðu þjóðanna sjá til þess að enginn sé skilinn eftir. Ríkisstjórnin verður að hafa í huga núna að í þeirri alþjóðlegu vinnu sem fram hefur farið varðandi endursköpun vinnumarkaðar, í átt að inngildum vinnumarkaði, felst að vinnumarkaðurinn lagi sig að fjölbreytileika fólks og að vinnustaðir lagi sig að einstaklingum, með sveigjanleika í vinnutíma og verkefnum, með hlutastörfum, og heimavinnu. Með því að skapa jöfn tækifæri fyrir alla á vinnumarkaði eru skapaðar aðstæður fyrir öflugan vinnumarkað, og einnig má segja að með því að skapa slíkar aðstæður mun Ísland fyrr komast upp úr öldudalnum.

Í covid-ástandinu kom berlega í ljós að mörg störf er hægt að vinna að heiman, sem gæti hentað vel fyrir marga í framhaldinu. Hlutastörf urðu jafnframt örsnökkt „normið“ á íslenskum vinnumarkaði. Þar eru skapaðar aðstæður fyrir inngildum vinnumarkaði.

ÖBÍ hefur í áratugi talað fyrir því að skapað verði eitt samfélag fyrir alla. Með fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) skuldbatt íslenska ríkið sig til þess að vinna að einu samfélagi fyrir alla. Í 27. gr. samningsins segir beinlínis að ríkið skuli vinna að inngildum vinnumarkaði fyrir alla. ÖBÍ hvetur til þess að, verði þingsályktunartillagan samþykkt, verði öll vinna sem unnin verður í framhaldinu í samræmi við greinina. Er þá bent á ráðleggingar nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks varðandi atvinnumál. Í þeim ráðleggingum leynist svar við því hvernig hægt er að koma til móts við fólk sem gæti þurft að hefja störf á hlutastörfum, þegar það er að hefja störf eftir atvinnumissi eða veikindi. Sérstaklega er vísað til þess sem nú er orðin lagaskylda á Íslandi með lögum um jafna stöðu á vinnumarkaði, að vinnustaðir veiti fötluðu fólki viðeigandi aðlögun. Hugtakið fatlað er skýrt þar vítt- það er í raun allir þeir sem þurfa á aðlögun að halda- eiga nú rétt á aðlöguninni svo lengi sem hún felur ekki í sér of mikla byrði fyrir vinnuveitanda, t.d. varðandi sveigjanleika á vinnutíma, sveigjanleika í verkefnum, sveigjanleika í starfshlutfalli, með tækjabúnaði, bættu aðgengi eða hverju því sem nauðsynlegt er til þess að tryggja rétt fólks til vinnu. Fleiri einstaklingar þurfa nú mögulega á slíkri aðlögun að halda í kjölfar heimsfaraldursins.

Þessa aðlögun þarf ríkissjóður að tryggja fyrir alla einstaklinga sem verða fyrir áhrifum af faraldrinum.

Atvinnuleitendur eru fjölbreyttur hópur fólks og verða þau úrræði sem stjórnvöld ráðast í að taka tillit til allra hópa á atvinnumarkaði. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að stjórnvöld ætli að skipuleggja framboð hlutastarfa fyrir fólk með skerta starfsgetu. Tímabært er nú að taka þetta upp og fara markvisst í þá vinnu að bjóða fólki með skerta starfsgetu upp á fjölbreytt og sveigjanleg störf með viðeigandi aðlögun. Langtímaatvinnuleysi og sjúkdómar eins og Covid-19 geta bæði leitt til missis starfsgetu og, eins og sagt var hér að ofan, er ríkið í raun skuldbundið til þess að grípa til ráðstafana til að koma til móts við þennan hóp. Hætta er á að fatlað fólk mun fara hallloka gagnvart ófötluðu fólki og mun ekki fá störf með viðeigandi aðlögun nema sértækar aðgerðir komi til.

ÖBÍ hefur lengi lagt til að stofnaður verði sjóður til þess að koma til móts við þann kostnað sem hlýst af því að ráða fatlað fólk til vinnu. Stofnsetning slíks sjóðs væri aðgerð sem myndi vekja athyglli langt fyrir utan landssteinana.

Fatlað fólk hefur nú þegar verið að missa vinnu sína vegna ástandsins og því verður að tryggja að komið verði til móts við það fatlaða fólk sem misst hefur vinnu í þessum hamförum. Ríkið er skuldbundið til þess að tryggja að allir hafi jöfn tækifæri til að snúa aftur á atvinnumarkað.

Þær aðgerðir sem grípa verður til verða að vera yfirgripsmiklar og framkvæmdar af festu. Líkur eru á að þeir efnahagslegu erfiðleikar sem við tökumst á við núna verði til þess að hlutfall atvinnulausra verði hærra en nokkru sinni fyrr og langan tíma taki að reisa atvinnulífið við. Ekki er nóg að fara í fjárhagslegar aðgerðir til þess að aðstoða fólk við að komast í gegnum erfiða tíma heldur þarf einnig að ráðast í aðgerðir í því skyni að styðja fólk félagslega t.d. með úrræðum og námskeiðum hjá Vinnumálastofnun. Allar þessar aðgerðir ættu að sama skapi að vera innan rammans um inngildan vinnumarkað.

ÖBÍ er boðið og búið til þess að aðstoða við þessa vinnu ráðherra og minnir á 3. tölul. 4. gr. SRFF sem segir til um að öllum þeim sem taka ákvarðanir varðandi fatlað fólk beri að hafa náið samstarf við fatlað fólk og hagsmunasamtök þess við alla ákvarðanatöku. ÖBÍ hefur t.d. yfir að ráða grasrótarhópi sérfræðinga í málefnahópi ÖBÍ um i atvinnu-og menntamál. Þaðan getur ráðherra sótt mikla þekkingu og reynslu.

Samanburður hækkanna og fjárhæða á núverandi kjörtímabili

ÖBÍ fagnar hækkun grunnatvinnuleysistrygginga en bendir á að þau sjónarmið sem eiga við um þær hækkanir eiga jafnframt við um hækkun örorku- og endurhæfingarlífeyris.
Í þingsályktunartillögunni kemur fram að grunnatvinnuleysisbætur hafi ekki fylgt launaþróun undanfarinna missera. Hækkun lífeyris almannatrygginga hefur enn síður fylgt eða tekið mið af launaþróun undanfarinna ára, þrátt fyrir að ákvæði í 69. gr. laga um almannatryggingar svohljóðandi:

„Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“

Samanburður á krónutöluhækkunum örorkulífeyris, lágmarkslauna og grunnatvinnuleysisbóta

Mynd 1. 

Krónutöluhækkanir – samanburður 2018-2020

Súlurit

Mynd 2.

Samanburður fjárhæða árin 2017 til 2020

SúluritÍ samanburði á mynd 1 og 2 hér á undan má sjá að lífeyrir [1] almannatrygginga hefur hækkað enn minna en atvinnuleysisbætur síðustu ár, hvort heldur litið er til krónutölu- eða prósentuhækkanna. Munar þar mestu um að atvinnuleysisbætur voru hækkaðar um 12.460 kr. (18,7%) frá 1. maí 2018 til viðbótar við 4,7% hækkun frá 1.1.2018. Það er engin vafi á nauðsyn þess að hækka atvinnuleysisbætur, bæði þá og nú. Hins vegar er ekki síður brýnt að hækka lífeyrir almannatrygginga að minnsta kosti til jafns við atvinnuleysisbætur og á sömu forsendum (sama rökstuðning) og hækkun grunnatvinnuleysisbóta, til að koma til móts við þennan viðkvæma hóp á þessum erfiðu tímum og þó fyrr hefði verið. Lág framfærsla örorkulífeyrisþega hefur stuðlað að jaðarsettningu þeirra í samfélaginu. Öfugt við atvinnu- leysisbætur er örorkulífeyri iðulega framfærsla til lengri tíma og fyrir hluta öryrkja eina framfærsla þeirra.

Í janúar 2020 hækkuðu bætur almannatryggingar og atvinnuleysisbætur um 3,5%. Í krónutölum hækkaði óskertur örorkulífeyrir um 8.651 kr. og grunnatvinnuleysisbætur um 9.790 kr. Hækkun atvinnuleysisbóta um 25.210 kr. eins og lagt er til í þingsályktunar- tillögunni myndi þýða samtals hækkun atvinnuleysisbóta um 35 þúsund kr. á árinu 2020. Bilið á milli óskerts örorkulífeyris og grunnatvinnuleysisbóta myndu hækka úr 33.676 kr. í 58.886 kr. Í áratugi hafa atvinnuleysisbætur, eðlilega, verið lægri en örorkulífeyrir.

 

Hækkun 1.1.2020

Tillaga að viðbótarhækkun

Samtals

Óskertur örorkulífeyrir

8.651 kr.

0

8.651 kr.

Grunnatvinnuleysisbætur

9.790 kr.

25.210 kr.

35.000 kr.

Mismunur

 

 

26.349 kr.

ÖBÍ styður hækkun grunnatvinnuleysisbóta og að gæta þurfi sérstaklega að láglaunafólki. Um leið áréttar ÖBÍ að á sama tíma og samhliða hækkun atvinnuleysisbóta þarf að tryggja að lífeyrir almannatrygginga hækki einnig í takti við launaþróun, sem ekki hefur verið raunin.

Í umræðu um atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóð launa kom fram að ekki væri hægt að bjóða fólki upp á að geta ekki fengið hærri hámarksgreiðslur samanlagt en 254.000 kr.

Við sem samfélag getum ekki heldur boðið lífeyrisþegum upp á að lifa á rúmum 250 þúsund kr. á mánuði fyrir skatt eins og gert er í dag. Óskertur örorkulífeyri er rúmlega 255 þúsund kr. á mánuði.

„ …Þetta eru of lágar fjárhæðir, þessi hópur getur ekki tekið á sig þetta högg. Við þurfum að tryggja að hann búi ekki við enn krappari kjör en nú er. Þessi hópur á erfitt með að eiga til hnífs og skeiðar í hverri einustu viku, hverjum einasta mánuði, sjá fyrir fjölskyldu sinni o.s.frv. Við erum nýbúin að sjá mjög áhrifaríkan Kveiksþátt þar sem einmitt voru birtar aðstæður fólks í fullri vinnu sem er að reyna að framfleyta sér og fjölskyldu sinni. Við verðum að vernda þennan hóp. Það að þeir sem eru með 400.000 kr. fyrir skatt fari niður í 320.000 — það er alveg ljóst að við getum ekki gert þetta svona.“ [2]

Undir þessi orð tekur ÖBÍ heilshugar. Í tilfelli lágtekjulaunafólks sem missir vinnuna ákvað Alþingi að hækka viðmiðin og tryggja að launþegar sæti ekki skerðingum vegna minnkaðs starfshlutfalls ef meðaltal heildarlauna þeirra er undir 400.000 kr. á mánuði miðað við fullt starf [3].

Á sama tíma er lífeyrisþegum með strípaðan lífeyrir ætlað að lifa á rúmum 250.000 kr. og örorkulífeyrisgreiðslur skertar frá fyrstu krónu annars staðar frá. Lífeyrisþegum með óskertar greiðslur frá almannatryggingum er ætlað að lifa á um 150.000 kr. lægri upphæð en Alþingi ákvað að tryggja ætti að launþegar í fullu starfi halda án skerðingar vegna minnkaðs starfshlutfalls.

Lokaorð

ÖBÍ fagnar þessum tillögum en á sama tíma hvetur ríkisstjórnina til þess að sjá til þess að enginn verði skilinn eftir í aðgerðum ríkisstjórnarinnar. ÖBÍ hvetur þingheim til þess að samþykkja þessa tillögu og ráðherra er hvattur til þess að taka til alvarlegrar íhugunar vinnu sem unnin hefur verið innan alþjóðasamfélagsins um sköpun vinnumarkaðar sem gerir ráð fyrir öllum, nú hefur ráðherra tækifæri til að vinna að vinnumarkaði sem gerir ráð fyrir öllum einstakingum í sínum fjölbreytileika. Þar er hægt að vinna leiðir sem myndu auðvelda ríkinu vinnu sína. ÖBÍ undirstrikar að þörf er á hækkun atvinnuleysisbóta og að sama skapi örorkulífeyris.

Ekkert um okkur án okkar

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
Formaður ÖBÍ


[1] Hækkun elli, örorku- og endurhæfingarlífeyris fellur undir ákvæði 69.gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 og fá því sömu prósentuhækkun.
[2] https://www.althingi.is/altext/raeda/150/rad20200317T145127.html. Helga Vala Helgadóttir þingmaður í umræðu um atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa, 76. fundur, 17. mars 2020.
[3] „Samtala launa frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall og atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæði þessu skal ekki sæta skerðingu skv. 2. málsl. 2. mgr. ef meðaltal heildarlauna launamanns er undir 400.000 kr. á mánuði miðað við fullt starf.“ Þingskjal 1173, 150. löggjafarþing 664. mál: atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa (minnkað starfshlutfall).