Skip to main content
AlmannatryggingarUmsögn

553. mál. Endurskoðun laga um almannatryggingar

By 19. apríl 2021september 1st, 2022No Comments

Nefndarsvið Alþingis
Velferðarnefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 8. apríl 2021

Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um þingsályktunartillögu um endurskoðun á lögum um almannatryggingar nr. 100/2007, þingskjal 920 – 553 mál.

ÖBÍ lýsir stuðningi við tillögu til þingsályktunar um að að skipa starfshóp sem skoði hvort rétt kunni að vera að skipta upp lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, þannig að sérstök löggjöf gildi um ellilífeyri og önnur um greiðslur til öryrkja að því gefnu að skipun starfshópsins tefji ekki nauðsynlegar úrbætur á almannatryggingakerfinu og kjarabætur til lífeyrisþega. ÖBÍ hefur ítrekað, meðal annars í umsögnum til nefndarsviðs Alþingis, bent á leiðir til að bæta kjör öryrkja og nauðsynlegar úrbætur á almannatryggingakerfinu sem hægt væri að fara í nú þegar ef vilji er fyrir hendi.

ÖBÍ leggur mikla áherslur á að fulltrúar ÖBÍ og annarra hagsmunasamtaka fatlaðs fólks verði skipaðir í starfshópinn, ef af skipun hans verður.

Í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem hefur verið fullgiltur af Alþingi Íslendinga, er skýrt kveðið á um lögbundina samráðsskyldu þegar kemur að gerð laga og reglna sem með einhverjum hætti fjalla um fatlað fólk eða málefni sem tengjast því.
„Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.“

Er hérna átt við merkingarbært samráð, en í því felst, að sá hópur sem frumvarpið á að hafa áhrif á, hafi rétt til þátttöku frá fyrstu stigum máls og taki virkan þátt í að móta hugmynda- og aðferðafræðina sem viðkomandi laga- og reglusetning tekur mið af.

Ekkert um okkur án okkar!

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi ÖBÍ