Skip to main content
SRFFUmsögn

568. mál Ný þýðing á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

By 19. apríl 2021september 1st, 2022No Comments
Nefndasvið Alþingis
Allsherjar- og menntamálanefnd
Austurstræti 8-10

150 Reykjavík

Reykjavík, 14. apríl 2021

Efni: Umsögn um tillögu til þingsályktunar á nýrri þýðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, 568. mál.

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) fagnar framkominni tillögu til þingsályktunar um nýja þýðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) og vill koma eftirfarandi á framfæri.

Fimmtu þýðingu samningsins má þakka góðri samvinnu hagsmunasamtaka, fræðafólks og stjórnvalda og undirstrikar mikilvægi þess að viðhaft sé náið samráð frá upphafi og hvetur ÖBÍ stjórnvöld til þess að halda slíku samráði til streitu.

Það er mikilvægt að farið verði í vinnu við að koma hinum fjórum þýðingu úr umferð svo borgarinn geti gengið að því vísu að hann sé að lesa og styðjast við rétta þýðingu. ÖBÍ vill árétta mikilvægi þess að þýðing SRFF verði aðgengileg öllum, á auðlesnu formi, á táknmáli, í hljóðútgáfu og á blindraletri, svo dæmi séu tekin. Jafnframt hvetur ÖBÍ stjórnvöld til þess að fara í kynningarátak samningnum og þýðingunni fyrir fatlað og ófatlað fólk, starfsfólk ríkis og sveitarfélaga, sbr. 8. gr. SRFF um vitundarvakningu.

19. gr. –  Að lifa sjálfstæðu lífi án aðgreiningar í samfélaginu

b) að fatlað fólk hafi aðgang að ýmiss konar þjónustu, svo sem heimaþjónustu, búsetuþjónustu og annarri samfélagslegri stuðningsþjónustu, þar á meðal persónulegri aðstoð, sem nauðsynleg er til stuðnings lífi án aðgreiningar í samfélaginu og til að koma í veg fyrir einangrun og aðgreiningu frá samfélaginu,

ÖBÍ telur að hér þurfi að standa „notendastýrðri persónulegri aðstoð“, en skv. almennum athugasemdum (e. General Comment No. 5) sérfræðinefndar samningsins nr. 5 um 19. gr. samningsins segir í kafla II um skilgreiningar, d-liður: „ Personal assistance refers to person-directed/“user“-led human support available to a person with disability and is a tool for independent living.“ [1]

Með því að bæta inn orðinu „notendastýrðri“ er allur vafi af því tekinn að það sé notandi persónulegrar aðstoðar sem sé við stjórnvölinn.

Tillaga að breyttu orðalagi:

b) að fatlað fólk hafi aðgang að ýmiss konar þjónustu, svo sem heimaþjónustu, búsetuþjónustu og annarri samfélagslegri stuðningsþjónustu, þar á meðal notendastýrðri persónulegri aðstoð, sem nauðsynleg er til stuðnings lífi án aðgreiningar í samfélaginu og til að koma í veg fyrir einangrun og aðgreiningu frá samfélaginu.

Jafnframt vill ÖBÍ hvetja stjórnvöld til þess að þýða almennar athugasemdir sérfræðinefndar samningsins sem í dag eru sjö talsins, en athugasemdirnar varða túlkun einstakra ákvæða samningsins.

Ekkert um okkur án okkar

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ 
Alma Ýr Ingólfsdóttir, lögfræðingur ÖBÍ

[1] UNCRPD, General Comment No. 5: Article 19 /Living independently and being included in the community), 27. október 2017, CRPD/C/GC/5: