Skip to main content
Frétt

„Enginn okkar var frjáls“

By 2. mars 2018No Comments

„Mér fannst það bara hræðilegt. Ég var enginn afbrotamaður,“ segir Ólafur Hafsteinn Einarsson, sem var vistaður í kvennafangelsinu í Bitru í fjögur ár, vegna fötlunar sinnar.

Fréttastofa Rúv fjallaði ítarlega um mál Ólafs í sjónvarpsfréttum á föstudagskvöld og ræddi við hann. Ólafur óskaði eftir fundi með dómsmálaráðherra í upphafi síðasta mánaðar, en fékk ekki svar fyrr en í dag. Hann fær fund með ráðherra á miðvikudag til að miðla reynslu sinni. Öryrkjabandalag Íslands og Landssamtökin Þroskahjálp vöktu athygli á málinu fyrr í vikunni.

Full ástæða til rannsóknar

Hann sagði við fréttastofu Rúv að hann og aðrir fatlaðir einstaklingar sem vistaðir voru í Bitru hafi ekki átt góða vist. „Enginn okkar var frjáls,“ sagði hann og lýsti því hvernig hann og aðrir fatlaðir einstaklingar voru læstir inni á kvöldin og sættu illri meðferð. Það hafi verið hræðilegt. Hann hafi ekkert brotið af sér.

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar, segir við fréttastofu Rúv að það sé sláandi að fötluðu fólki hafi verið komið fyrir í fangelsi.

„Mér finnst það bara hrein hörmung. Og ég er ekki einu sinni viss um að ég hefði keypt þennan söguþráð ef ég hefði verið að lesa skáldsögu,“ segir Bryndís og bætir því við að málið verði að rannsaka. „Já mér finnst full ástæða til að rannsaka það hvort það hafi verið. Þarna var verið að gera samninga við fjölskyldur um að þær veittu fötluðu fólki þjónustu án nokkurs eftirlits. Og þetta átti við fleiri tilfelli þótt þetta hafi ekki alltaf verið í fangelsum.“

Fundurinn marki upphaf 

Nú þurfa stjórnvöld að láta hendur standa fram úr ermum. Það er mikilvægt að fundurinn marki upphafið þess að stjórnvöld fari vandlega í saumana á því hvernig staðið hefur verið að vistun fatlaðra barna annars staðar en á Kópavogshæli og fullorðins fatlaðs fólks sem ekki buðust aðrir búsetukostir og rétti hlut þess eins og kostur er með því að gangast við því sem aflaga hefur farið og greiði þeim sem enn lifa bætur vegna þess óréttar sem þeir hafa mátt þola.

Virðing fyrir mannlegri reisn

Það er ekki síður mikilvægt að hlutaðeigandi stjórnvöld dragi af þessari sögu þá einu ályktun sem við blasir. Mannréttindi fatlaðs fólks og virðingu fyrir mannlegri reisn þess verður að tryggja og verja með tiltækum ráðum. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er tækið sem þau hafa til þess og það er algjörlega undir þeim komið hvort hann verður fyrst og fremst falleg orð á blaði sem stjórnmálamenn lesa upp hátt fyrir sjálfa sig og kjósendur á tyllidögum eða gríðarlega gagnlegt og öflugt verkfæri sem snarbætir lífsgæði og tækifæri fatlaðs fólks á Íslandi í nútíð og framtíð. Vilji er allt sem þarf!