Skip to main content
DómsmálFrétt

Hæstiréttur Íslands samþykkir aðgreiningu

By 25. október 2018ágúst 31st, 2022No Comments

Hæstiréttur hefur með dómi í dag að engu sanngjarnar kröfur og fellst á heimild opinberra aðila til þess að aðgreina fólk frá þátttöku í samfélaginu. Með öðrum orðum hefur Hæstiréttur í dómi sínum lagt blessun sína yfir markvissa mismunun sveitarfélags gagnvart íbúum.

Sérstaka athygli vekur samt sem áður fordæmalaust ákall Hæstaréttar um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Slíkt ákall dómstóla um lögfestingu alþjóðasamnings hefur væntanlega aldrei sést áður í íslenskri réttarsögu.

Sveitarfélög, og aðrir sem veita opinbera þjónustu verða einnig að fara átta sig á því að margbreytileikinn er hið eðlilega form mannlegrar tilvistar og að aðgreining og útilokun er mismunun. Löggjafinn verður einnig að fara að átta sig á því að honum ber eftir fullgildingu samningsins að tryggja eitt samfélag fyrir alla.

Eftirfarandi er yfirlýsing frá stjórn Öryrkjabandalags Íslands, samþykkt á fundi stjórnarinnar 25. október 2018:

Yfirlýsing stjórnar Öryrkjabandalags Íslands, 25. október 2018

 

Hæstiréttur Íslands samþykkir aðgreiningu – Ákall um lögfestingu samnings SÞ

 

Hæstiréttur hefur með dómi sínum í máli Arnars Helga og Samtaka endurhæfðra mænuskaddaðra (SEM Samtakanna) gegn Fasteignafélaginu Fasteign ehf. og Reykjanesbæ, að engu . Í málinu kröfðust Arnar og SEM þess að sveitarfélagið og fasteignafélagið myndu ráðast í úrbætur á fasteignunum Duusgötu 2 og Hafnargötu 88 í Reykjanesbæ. Á báðum stöðunum veitti sveitarfélagið þjónustu til bæjarbúa.

Mannréttindabarátta fatlaðs fólks hefur ávallt verið barátta gegn aðgreiningu og mismunun. Helsta baráttumál ÖBÍ frá upphafi hefur jafnframt verið raunverulegt jafnræði einstaklinga í einu samfélagi fyrir alla.

Allir eru jafnir og mismunun á grundvelli fötlunar er bönnuð, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Mannréttindanálgun á fötlun felur í sér að allir fatlaðir einstaklingar eigi sama rétt og aðrir og leggur skyldur á samfélagið að grípa til aðgerða til að tryggja jafna þáttöku allra.

Með samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er orðið ljóst að allir aðilar, hvort sem það eru þeir sem taka ákvarðanir eða kveða upp dóma, verða að gera sér grein fyrir því að aðgreining, ein og sér, er mismunun. Dómstólum ber að tryggja rétt fatlaðs fólks til samfélagsþátttöku til jafns við aðra. Á þessu flaskaði Hæstiréttur í dag.

Jafnræðisreglan felur meðal annars í sér að allt fatlað fólk á rétt á sömu opinberu þjónustu og aðrir. Opinberir aðilar sem neita að verða við slíkum kröfum eru með vitund og vilja að aðgreina fatlað fólk frá samfélaginu og mismuna því. Stefnandi í málinu gerði einfalda kröfu um aðgengi að opinberri þjónustu, sem sveitarfélagið varð ekki við. Hér var því um viljandi mismunun af hendi sveitarfélagsins að ræða. Skömm þess er því mikil.

Í dag var lagt fyrir Hæstarétt það lagalega álitaefni sem hann hefur, því miður, átt erfitt með síðustu ár: á fatlað fólk jafnan rétt á við aðra, það er raunverulega jafnan rétt? Dómstólnum var gefið tækifæri á því að kveða upp stefnumarkandi dóm sem tryggði efnislegt gildi 65. gr. stjórnarskrárinnar. Ákvæði sem dómstóllinn er bundinn af. Hæstiréttur féll á prófinu.

Í stað þess að átta sig á því hverslags mál dómstóllinn stóð frammi fyrir ákvað hann hvorki að nálgast út frá kröfunni um jafnræði né út frá þeim lagaákvæðum og reglugerðum sem stefnandi taldi vera brotin í málinu. Með vísan til sjálfsstjórnarréttar sveitarfélaga fann dómstóllinn út að engin lagaleg skylda væri fyrir hendi og því gat hann ekki dæmt með þessum hætti. Dómstóllinn þurfti t.d. að taka fram í tvígang að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks væri ekki lögfestur hér á landi. Slíkt ákall dómstóla um lögfestingu alþjóðasamnings hefur væntanlega aldrei sést áður í íslenskri réttarsögu.

Í dag olli Hæstiréttur sárum vonbrigðum.

Lokaorð

Hæstiréttur verður að fara að átta sig á því að hann er dómstóll allra landsmanna. Jafnræðisregla stjórnarskrárinnar felur í sér bann við mismunun á grundvelli fötlunar. Sveitarfélög, og aðrir sem veita opinbera þjónustu verða einnig að fara átta sig á því að margbreytileikinn er hið eðlilega form mannlegrar tilvistar og að aðgreining og útilokun er mismunun. Löggjafinn verður einnig að fara að átta sig á því að honum ber eftir fullgildingu samningsins að tryggja eitt samfélag fyrir alla.