Skip to main content
Frétt

Húsfyllir á málþingi ÖBÍ

By 1. mars 2018No Comments

Húsfyllir var á málþingi Öryrkjabandalags Íslands, Falinn fjársjóður? -sérskólar, kostir og gallar, sem haldið var á Hótel Hilton Nordica í dag. Um 130 gestir sátu í sjálfum salnum meðan mest var og tugir fylgdust með beinni útsendingu á vef ÖBÍ.

Markmiðið með málþinginu var að  varpa ljósi á þá þjónustu sem nemendur með sérþarfir eru í reynd að fá í skólakerfinu og skapa umræðugrundvöll um skólamál í heild sinni. Óhætt er að segja að það markmið hafi náðst. Frummælendur sögðu frá hlutunum eins og þeir eru, bæði frá sjónarhóli sérskóla og almenna skólakerfisins. Þannig var ljósinu varpað að fjölmörgum mikilvægum flötum skólastarfsins. Einnig fengu gestir að hlýða á erindi frá nemanda og foreldri sem sögðu frá reynslu sinni af skólakerfinu og vöktu mikil viðbrögð meðal fundargesta. Þá flutti Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, erindi í upphafi málþingsins. Sigmundur Ernir Rúnarsson, fjölmiðlamaður, stýrði málþinginu með glæsibrag.

Skóli án aðgreiningar er opinber skólastefna hérlendis. Staðreyndin er samt sem áður sú að samhliða eru einnig reknir sérskólar. Öryrkjabandalag Íslands hefur Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að leiðarljósi í sínum störfum. Þar er skýrt kveðið á um menntakerfi á öllum skólastigum án aðgreiningar.

Enda þótt fólk kæmi úr ólíkum áttum, svoru allir sammála um að mikilvægt sé að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri í skólakerfinu til að nýta styrk sinn og hæfileika til að blómstra.

Málþinginu var streymt á netinu á vef ÖBÍ og fylgdust á bilinu 20-30 með málþinginu í beinni útsendingu. Þannig má segja að um 150 manns hafi sótt þingið.

Hér má sjá upptöku af málþinginu og hér að neðan er listi yfir frummælendur ásamt ljósmyndum sem teknar voru á málþinginu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, flutti ávarp í upphafi þingsins.

Steinunn Mar reynslusaga kennara

Steinunn Mar sagði reynslusögu kennara.

Sigrún Birgisdóttir framkvæmdastjóri Einhverfusamtakanna

Sigrún Birgisdóttir framkvæmdastjóri Einhverfusamtakanna fjallaði um mismunandi þarfir sem kalla á mismunandi þjónustu.

 Gestir á málþingi ÖBÍ Falinn fjársjóður

Gestir á málþinginu komu úr ýmsum áttum, en hvert sæti var skipað í dag.

Sara Dögg Svanhildardóttir fagstjóri Arnarskóla

Sara Dögg Svanhildardóttir fagsstjóri hjá Arnarskóla fjallaði um sérskólana sem mótsögn eða mikilvæga viðbót í skólastarfi.

Bryndís Snæbjörnsdóttir framkvæmdastjóri Þroskahjálpar 

Bryndís Snæbjörnsdóttir formaður landssamtakanna Þroskahjálp, fjallaði um menntun á tímum alþjóðlegra mannréttindasamninga.

Eiður Atli Axelsson

Eiður Atli Axelsson, 14 ára, lýsti reynslu sinni af almenna skólakerfinu og hvatti fullorðna til að hlusta á börn.

Árni Einarsson, skólastjóri Klettaskóla

Árni Einarsson skólastjóri Klettaskóla kynnti skólann, starfið þar og söguna.

Arna Hrönn Aradóttir verkefnisstjóri hjá Reykjavíkurborg

Arna Hrönn Aradóttir, verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg, sagði frá atvinnutengdu námi grunnskólanema í 9. og 10. bekk.

Ágúst Kristmanns foreldri

Ágúst Kristmanns lýsti upplifun foreldris en sonur hans hefur bæði verið í almennum skóla með stuðningi og í sérskóla.