Skip to main content
Frétt

Þingmenn styðja kröfur ÖBÍ

By 1. febrúar 2018No Comments

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar, tekur undir afdráttarlausa kröfu ÖBÍ um fullkomið afnám krónu-á-móti-krónu skerðinga hjá öryrkjum. „Mér heyrist ekki síst stjórnarþingmenn vera því hlynntir og vil hvetja þá til dáða,“ sagði hún á  Alþingi í gær.

Ríkisstjórnin hefur boðað samtal og samráð við ÖBÍ og Þroskahjálp, við endurskoðun á almannatryggingakerfinu og fleiri mikilvæg hagsmuna- og réttindamál. Sú vinna er ekki hafin.

ÖBÍ hefur hins vegar boðið öllum þingmönnum til samtals um verkefnið framundan. Nú hafa verið haldnir fimm fundir með fimm þingflokkum og von á fleirum næstu daga. Á fundunum hefur verið rætt um stöðu og kjör fatlaðs fólks. Hvað gera þarf til að bæta lífskjör fólksins og hvernig. Og svo mikilvægi þess fyri allt sem framundan er, að Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði að fullu innleiddur hér á landi. 

Þorgerður sagðist á Alþingi í gær vilja vekja sérstaka athygli á atvinnuþátttöku fatlaðs fólks „Og því sem stendur m.a. í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en þar er sem betur fer rætt nokkuð mikið um að það eigi að vera samráð við Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp til að efla samfélagsþátttöku fatlaðra, tryggja framfærslu örorkulífeyrisþega.“

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðismanna, hefur einnig nýlega kvatt sér hljóðs á Alþingi þar sem hann tiltók verkefnalistann sem hann birti einnig á Facebook síðu sinni:  „Við eigum eftir að stokka upp tryggingakerfi örorkubóta, afnema krónu-á-móti-krónu skerðingu, og innleiða hlutabótakerfi. NPA – notendastýrða persónulega aðstoð – er annað verkefni. Ísland fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og hefur því undirgengist skyldur sem þarf að uppfylla.“