Skip to main content
Frétt

Umboðsmaður fatlaðs og langveiks fólks

By 10. janúar 2019No Comments

ÖBÍ leggur til að sett verði á fót embætti Umboðsmanns fatlaðs og langveiks fólks. Formleg tillaga um þetta var lögð fram á fundi formanna ÖBÍ, Þroskahjálpar og forsætisráðherra sem haldinn var í morgun.

Mannréttinda sé gætt

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, afhenti Katrínu Jakobsdóttur skriflega tillögu um embættið, hlutverk þess og verkefni. Samkvæmt tillögunni yrði hlutverk umboðsmanns fatlaðs og langveiks fólks að taka við erindum frá einstaklingum og fella úrskurði út frá gildandi lögum, sem væru til grundvallar skaðabótamála ef ekki er brugðist við. Þá hefði embættið það hlutverk að benda stjórnvöldum á gloppur í íslenskri löggjöf um mannréttindi út frá skuldbindingum alþjóðasáttmála.

Grundvallarmarkmið í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) er viðurkenning á rétti fatlaðs fólks til að njóta sömu mannréttinda og aðrir samfélagsþegnar og skyldu aðildarríkjanna til að tryggja þau. Embætti umboðsmanns fatlaðs fólks og sjúklinga væri liður í innleiðingu og lögfestingu SRFF.

Fram kemur í tillögu ÖBÍ að sams konar embætti eru starfrækt annars staðar á Norðurlöndunum. Mikilvægt sé að svona embætti verði sett á stofn hérlendis sem fyrst enda hljóti það að vera vilji stjórnvalda að tryggja réttindi þessa hóps og standa þar með jafnfætis þeim löndum sem Íslendingar bera sig saman við.

Undarleg vegferð

Þuríður Harpa og Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar, ræddu ítarlega um kjaramálin á fundinum með Katrínu. Meðal annars var farið yfir fjárlagafrumvarp ársins, fyrirhugaðar breytingar á almannatryggingakerfinu, krónu-á-móti-krónu skerðinguna, SFRR og vinnumarkaðinn og fatlað fólk.

Bent var á að fjárlagafrumvarp þessa árs hefði valdið Öryrkjabandalaginu vonbrigðum. Ljóst væri að kjör öryrkja myndu ekki batna að raungildi í ár. ÖBÍ og Þroskahjálp fagna hækkun atvinnuleysisbóta, en benda á um leið á að þær hækkuðu langt umfram bætur lífeyrisþega. Það væri umhugsunarvert á hvaða vegferð ríkisstjórnin væri þegar svo augljóslega og freklega væri gengið framhjá lífeyrisþegum almannatrygginga.

Þvingunartaktík stjórnvalda

Þuríður Harpa og Bryndís bentu jafnframt á að stórkostlegur niðurskurður á fyrirhugaðri aukningu á framlögum til málaflokksins væri slæmur. Búið var að lofa fjórum milljörðum króna, jafnt í fjármálaáætlun sem lögð var fram síðasta vor, sem og í því fjárlagafrumvarpi sem lagt var fyrir Alþingi í haust. Þessi breyting ein leiðir til þess að öryrkjar á Íslandi verða af ellefu hundruð milljónum króna á árinu 2019 eða sem svarar 55 þúsund krónum að meðaltali á hvern einstakling á ári. Að halda því fram að þetta hafi verið gert vegna vinnu starfshóps sem samtök okkar hafa í góðri trú tekið þátt í stenst enga skoðun. Það er því engin furða að mjög margir öryrkjar telji að stjórnvöld vilji með þessu þvinga þá til að samþykkja nýtt kerfi um starfsgetumat.

Þá er það, að mati samtaka okkar, Öryrkjabandalagsins og Þroskahjálpar, mjög mikið áhyggju- og umhugsunarefni að í allri umræðunni um skerðingar, fjölgun öryrkja og hugsanlega nýtt matskerfi hefur að mestu gleymst að ræða megintilgang almannatrygginga sem er að tryggja framfærslu þess hóps sem vegna fötlunar eða langvarandi sjúkdóma getur ekki séð sér farborða.  

Órétt þarf að bæta

Á fundinum í morgun lögðu Þuríður Harpa og Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar, einnig fram minnisblað um vistun fatlaðs fólks á stofnunum og ræddu við forsætisráðherra um skyldur stjórnvalda til að bregðast við því sem fyrir liggur um þau mál með viðeigandi hætti sem og að bæta þeim sem urðu fyrir órétti eftir því sem mögulegt er.