Skip to main content
Frétt

„Bætt lífskjör öryrkja mannréttindamál“

By 4. október 2021No Comments

Atli Þór Þorvaldsson, formaður málefnahóps ÖBÍ um kjaramál

„Ég hef verið formaður hópsins síðan á síðasta aðalfundi ÖBÍ þegar Bergþór, sem var formaður, var kjörinn varaformaður ÖBÍ. Helstu baráttumálin eru að hækka örorkulífeyri og draga úr tekjuskerðingu. Bætt lífskjör öryrkja eru að mínu mati mannréttindamál,“ segir Atli Þór.

„Það hefur verið talað fyrir daufum eyrum þegar reynt er að fá samtal við stjórnvöld um kjör öryrkja. Fátæktargildra öryrkja er staðreynd og verkalýðshreyfingin tekur undir það með öryrkjum. Nú liggja fyrir ýmis gögn sem styðja talsvert betur við málstaðinn, en kjör öryrkja hafa því miður dregist aftur úr flestum öðrum undanfarin ár. Lítið skref var stigið þegar króna á móti krónu-skerðingar breyttist í króna á móti 65 aurum. Hækkanir örorkulífeyris eru minni en almennar launahækkanir í landinu og tekjuskerðingar læsa öryrkja í fátækt. Mannleg reisn er mikilvæg öllum, líka öryrkjum. Sköpum öllum mannsæmandi líf.“

Ertu með skilaboð til stjórnvalda? „Nú er kosningaár. Leggið fram áætlun fyrir næsta kjörtímabil um leiðréttingar á kjörum öryrkja.“

„Mannleg reisn er mikilvæg öllum, líka öryrkjum. Sköpum öllum mannsæmandi líf.“

Umsjón: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir. Mynd: Hallur Karlsson.

Tímarit ÖBÍ 1. tbl. 2021 | Öryrkjabandalag Íslands (obi.is)