Skip to main content
Frétt

Höfum við gengið til góðs?

By 1. október 2021No Comments

Stofnaði kvennahreyfingu innan ÖBÍ

Í allri hugsjónabaráttu er nauðsynlegt að staldra við reglulega og taka stöðuna. Hefur vel tekist til, hvað hefur náðst fram og hvað er eftir? Í þeim tilgangi að fá svör við slíkum spurningum var haft samband við tvo hugsjónamenn, annan eldri og hinn yngri sem eiga það sameiginlegt að vilja skapa samfélag þar sem allir fá notið sín.

Guðríður Ólafs Ólafíudóttir var virk í starfi að réttindamálum fatlaðra alla sína starfsævi. Hún er nú komin á eftirlaun og var beðin um að líta til baka yfir farinn veg og tala um þau mál sem helst brunnu á fólki að leysa þegar hún stóð vaktina.

Guðríður hlaut fálkaorðuna í upphafi árs, fyrir framlag sitt til velferðar- og mannúðarmála en starfsferillinn er langur og fjölbreyttur. Hvenær komstu fyrst að réttindamálum fatlaðs fólks? „Ég byrjaði að vinna hjá Sjálfsbjörg félagi fatlaðra árið 1967. Ég var þar bæði hjá félaginu og síðan Landsambandinu samtals í tuttugu og tvö ár. Þá var ég eiginlega búin að fá nóg af því. En þar var aðallega hugsað um hreyfihamlaða. Eftir það fór ég um tíma í vinnu hjá Svæðisskrifstofu Reykjavíkur, eiginlega var það starf hugsað til að brúa bilið þar til ég fengi annað að gera. Þá var ég komin á svolítið annan vettvang. Þar voru húsnæðismál ofarlega á baugi. Ég fór þaðan í vinnu hjá Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni og var þar framkvæmdastjóri í átta ár. Í sautján mánuði vann ég hjá félagsþjónustu Reykjavíkurborgar þegar var verið að breyta yfir í Félagsbústaði. Fékk það verkefni að reyna að semja við fólk því Félagsbústaðir vildu auðvitað ekki taka við skuldum og það var dálítið mikil vinna.“

Í þeirri vinnu fékk Guðríður góða innsýn í hvernig húsnæðismálum tekjulægri hópa er háttað hér á landi en þess má einnig geta að hún var formaður Sjálfsbjargar um tíma. Hún hóf störf sem félagsmálafulltrúi hjá Öryrkjabandalagi Íslands árið 1998 og gegndi því til ársins 2014. Hvaða mál fannst henni helst brenna á fólki þegar þangað var komið? „Yfirgnæfandi var það fátæktin,“ segir hún með áherslu. „Sumum tekst með ótrúlegum hætti að lifa af þessum launum ef þeir eru það heppnir að vera ekki í mjög dýru húsnæði.“

Aðgengismálin batnað en enn langt í land

Hefur eitthvað þokast áfram í þessum baráttumálum frá því þú tókst til starfa árið 1967?

„Já, já, vissulega hefur það gerst að sumu leyti. Aðgengismálin hafa batnað töluvert mikið þótt aldrei sé nóg og næstu hundrað árin verður ábyggilega nóg af byggingum hér í Reykjavík sem ekki eru aðgengilegar með sama framhaldi.“

Hvað um atvinnuþátttöku fatlaðs fólks og möguleika þeirra á vinnumarkaði, hefur staðan batnað þar? „Nei, það á að breyta almannatryggingakerfinu þannig núna að farið verði að dæma getu fólks en ekki vangetu, sem er mjög gott,“ segir Guðríður. „Það væri mjög æskilegt að fólk fengi vinnu og að prófa sig áfram án þess að missa spón úr aski sínum fyrst til að byrja með. Nú er það þannig að fólk getur ekki látið reyna á vinnuþrekið. Í sumum löndum er það þannig að fatlað fólk fær tækifæri á að prófa í allt að þrjú ár hvort þeir geti stundað vinnu án þess að tekjur þeirra skerðist. Þetta er svona reynslutími sem er afskaplega gott og mín meining er sú að ríkiskassinn muni ekki tapa á því að leyfa slíkt því þar koma skattar á móti.“

Læknirinn þorði ekki að koma aftur

Í gegnum tíðina hefur Guðríður gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir bæði Öryrkjabandalagið og ýmis önnur mannúðarsamtök og getur litið stolt til baka yfir farinn veg.

„Þegar ég kom til Öryrkjabandalagsins frá Reykjavíkurborg var mér boðið að vera félagsmálafulltrúi, staða sem Helgi Seljan gegndi áður. Hann var þá að taka við sem framkvæmdastjóri Öryrkjabandalagsins og ég tók við hans stöðu. Verkefnin voru margvísleg, maður þurfti að sjá um skattamál fyrir fólk, hafa samband við ráðuneyti og sjúkrahús og lækna út um hvippinn og hvappinn til að reyna að tryggja fólki einhver réttindi. Þetta var heilmikil vinna.

Svo datt mér í hug að gott væri að stofna kvennahreyfingu innan Öryrkjabandalagsins. Ég fékk í lið með mér góðar konur frá Kvenfélagssambandi Íslands og við fórum út og suður um allt land og héldum fyrirlestra. En þetta varð til þess að til varð kvennahreyfing og hún er ennþá starfandi. Eitt er mér minnistætt. Konur urðu svo oft fyrir því að þegar þær leituðu til lækna, sérstaklega átti þetta við ef þær voru komnar um miðjan aldur eða þar um bil, að talið var að umkvartanir þeirra væru einhver taugaveiklun eða svoleiðis. Þær fengu gjarnan eitthvað róandi en ef karlmenn komu voru þeir miklu frekar skoðaðir. Ég talaði við lækna og ein læknismenntuð kona hélt erindi um þetta en hún fékk svo miklar snuprur fyrir það frá öðrum læknum að hún kom aldrei aftur til að halda annað svona erindi.“

Átt þú þér einhverja draumsýn um framtíðina? „Já, já, það er kannski svolítið skrýtið að segja það að ég vildi að fólki liði þannig að þessi hagsmunafélög þyrftu ekki að vera til, að hægt væri að leggja þau niður. Að fjölbreytileikinn væri bara sjálfsagt litróf í þjóðlífinu.“

Guðríður er komin á eftirlaun og segist standa fjárhagslega í mjög svipuðum sporum og þegar hún vann fulla vinnu. Hún er samt alls ekki aðgerðalaus. Hún á sér mörg áhugamál og situr enn í stjórnum víða og lætur til sín taka hvenær sem á þarf að halda.

Texti: Steingerður Steinarsdóttir. Myndir: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Tímarit ÖBÍ 1. tbl. 2021 | Öryrkjabandalag Íslands (obi.is)