Hér getur þú leitað að einhverju á síðu obi.is,
sláðu inn leitarorðið og leitaðu
Aðgengi að biðstöðvum var oft á tíðum mjög slæmt. Það sem verra var að þar sem gangbrautir, gangstéttar, biðskýli og biðstæði sem hafa nýlega verið verð gerð upp eins og við Grensásveg og Borgartún, hafði ekki verið unnið samkvæmt aðgengisstöðlum eða þá að kastað hafi verði til hendinni við framkvæmd verksins.
Aðgengi: Aðgengi að strætóstöðvum er oft á tíðum ótrúlegt. Myndirnar segja alla söguna.
Leiðarlínur: Þar sem að leiðarlínur eru á annað borð eru þær ekki nógu skýrar.
Áherslusvæði til þess að bíða er 12 metrar frá biðskýli.
Gangbrautir: Þær eru oft illa merktar og það er erfitt að gera greinarmun á milli staðahindrunar og gangstéttar. Það þyrfti að fara í átak við merkingu. Það eru hnappar við sum umferðarljós. Þessir hnappar eru oft á tíðum alls ekki aðgengilegir fyrir hvorki hreyfihamlaða né sjónskerta einstaklinga. Hnapparnir eru almennt allt of nálægt götunni þannig að blindrastafurinn er kominn út á götuna og einstaklingur í hjólastól er sömuleiðis kominn hálfur úr á götu, þetta er hættulegt.
Leiðartöflur: Það er greinilega átak í að hafa leiðartöflur í réttri hæð fyrir einstaklinga í hjólastól. Ásetningurinn er góður en oft er frágangur við biðskýli svo lélegur að leiðartöflurnar eru út í móa eða þá að leiðartöflur eru faldar inn í laufskrúði trjáa.
Hvað er til ráða?: Það verður að efla eftirlit með framkvæmdum. Útfærsla á aðgengisstöðlum þarf að vera skynsamleg. Það verður að koma í veg fyrir framkvæmd eins og efst á Grensásvegi þar sem að merkt biðsvæði er 12 metra frá biðskýli. Þar lítur út fyrir að biðstæði hafi gleymst og fattast eftir á og skellt niður einhvers staðar. Einnig verður að vinna sig aftur á bak með það að leiðarljósi að efla og bæta aðgengi en ekki að búa til vinnu fyrir verktaka.
Það verður að hugsa heildstætt með þarfir allra megin fötlunarhópa í huga.
Að fara inn og út úr vagninum: Allir vagnarnir voru með rampplötu sem hægt er að leggja niður. Þessi rampur er að við aftari hurðina og er felldur ofan í gólfið. Það þarf að setja rampinn niður með handafli. Flestir bílstjórar aðstoðuðu ekki við að setja rampinn niður heldur sátu kyrrir í sætinu sínu (fram í) Hreyfihamlaðir geta ekki sett rampinn niður og það er alls óvíst hvort að aðstoðarmenn viti hvernig rampurinn virkar. Ef að staðið er í miðrými vagnsins þá þarf að biðja fólk um að færa sig o.s.frv.
Flestir vagnarnir hafa merkingar sem segja til um að útfellanlegur rampur og svæði fyrir hjólastóla sé í strætisvagninum.
Að festa hjólastól: Það er eitt öryggisbelti sem snýr í öfuga akstursstefnu sem getur verið mjög óþægilegt fyrir fólk með skerta hreyfigetu sem er oft á tíðum mjög svimagjarnt. Öryggisbelti nær ekki að halda við venjulegan hjólastól (ekki rafmagnsstól) og fer stóllinn á fleygiferð í beygjum. Okkur var sagt að beltið ætti ekki halda fólki heldur bara stól en leiðbeiningar þess efnis eru ekki vel sýnilegar og þá einnig hvernig stóllinn er festur.
Öryggi farþega í hjólastól: Það er sama og ekkert öryggi. Aðstoðarmaður og aðrir farþegar þurfa að halda við hjólastólinn í venjulegum akstri svo að það þarf ekki að spyrja að leikslokum ef slys verður.
Upplifun: Erfitt að snúa baki í akstursstefnu. Gluggar eru háir þegar fólk er ekki á upphækkuðu svæðunum. Lítið útsýni. Þetta eru erfiðar aðstæður fyrir fólk með undirliggjandi svima, bílveiki og mígreni.
Tilkynningar: Voru til fyrirmyndar. Tilkynningakerfið var mjög gott.
Hvað er til ráða?: Það er ekki auðvelt fyrir vagnstjóra að standa upp og hjálpa til. Það er nauðsynlegt að rampurinn sé bílstjóramegin í vagninum. Rampurinn þyrfti einnig að vera rafknúinn, við sáum og notuðum slíkan ramp í Dublin fyrr í mánuðinum. Einnig er nauðsynlegt að hreyfihamlaðir og aðrir sem þurfa aðstoð og eftirlit sé í rýminu næst við bílstjórann svo að hann geti haft eftirlit og gripið inn í ef þarf.
Almennt séð ekki gott. Nokkrir bílstjórar voru kurteisir, alúðlegir og hjálpsamir, aðrir bílstjórar voru sýndu enga burði til þess að aðstoða og enn aðrir voru beinlínis ókurteisir. Dæmi:
Hvað er til ráða?: Það er það sama til ráða og varðandi strætóinn sjálfan. Nauðsynlegt að hreyfihamlaðir og aðrir sem þurfa aðstoð og eftirlit séu í rýminu sem næst við bílstjórann svo að hann geti haft eftirlit og gripið inn í ef þarf. Efla þarf fræðslu til bílstjóra og þá sérstaklega til undirverktaka strætó. Bílstjórum þarf að líða þannig að þeir finnist þeir geta aðstoðað fólk sem að þarf aðstoð þótt það komi niður á ákveðnum tímamörkum.
Skemmtilegt en þó erfitt að upplifa að það þarf að taka á flestum þáttum varðandi gangbrautir, biðstöðvar, biðskýli, strætisvagnana sjálfa og viðmót og eflaust fræðslu til bílstjóra.
Ég er með mígreni og bílveikur og það hamlaði mér í að fara nógu margar ferðir. Verkefnið var vel skipulagt og auðvelt að fylgja spurningablöðunum og fylla inn í rafræna formið.
Það var gaman og gefandi að taka þátt í málþinginu, „Hvert er förinni heitið?“
Aðgengi fyrir hreyfi- og sjónskerta að strætó í víðasta skilningi er í ólestri. Leiðir að stoppustöðvum eru oft á tíðum mjög snúnar. Gangstéttir eru oft illa farnar en yfirleitt var þó hægt að komast um. Gangstéttarmerkingar við gangbrautir eru ekki nógu skýrar. Biðskýlin eru allskonar, sum góð og önnur léleg. Leiðarlínur eru merkilegt fyrirbæri sem virðast ekki nógu markvissar, t.d. var ég í Dublin um daginn og þá sá ég að línurnar voru miklu lengri en yfirleitt hérna svo það fór ekki á milli mála fyrir þann sjónskerta í hvaða átt línurnar vísuðu.
Varðandi framkvæmdahluta aðgengismála þá virðist vanta hugsun og skynsemi í að koma aðgenginu í gott ástand. Það kostar jafn mikið að framkvæma hlutina vel eins og illa.
Varðandi strætó og bílstjóra þá vantar forgangsröðun og fræðslu. Það verður að vera mögulegt fyrir vagnstjóra að aðstoða einstaklinga sem þurfa aðstoð. Gæta verður að öryggi fatlaðra einstaklinga. Rými fyrir þá sem þurfa aðstoð verða að vera næst vagnstjóra annars er ekki eðlilegt að vagnstjóri geti haft yfirsýn.
Eins og staðan er í dag er ekki hægt að mæla með því að einstaklingar í hjólastól noti strætó, það er bara of hættulegt.
Könnun á aðgengi strætisvagna og biðstöðva - lokaskýrsla (mars, 2019) PDF