Skip to main content
Umsögn

6. Heilbrigðisþjónusta vegna COVID-19 smits

By 8. október 2020No Comments

COVID-19 göngudeild Landspítala sinnir einstaklingum sem eru veikir heima í einangrun. Hópur lækna og hjúkrunarfræðinga sinnir ráðgjafa- og símaeftirliti hjá fólki sem hefur greinst með COVID-19 og er heima í einangrun. Markmið þjónustunnar er að veita þessum sjúklingahópi bestu mögulegu þjónustu á viðeigandi stigi, meðal annars með sérhæfðri fjarheilbrigðisþjónustu, ráðgjöf og stuðningi svo ekki þurfi að koma til innlagnar. Með þessu er verið að tryggja öryggi sjúklinga og hámarka þann tíma sem þeir geta verið heima.

Þegar sjúklingur hefur greinst með jákvætt veirupróf er hringt til hans frá Landspítala. Fyrsta símtal er frá lækni sem fer yfir heilsufarssögu og möguleg undirliggjandi vandamál. Læknir metur núverandi ástand og einkenni. Með þessu fyrsta símtali hljóta sjúklingar strax fyrsta áhættumat. Í kjölfarið er eftirlit í höndum hjúkrunarfræðinga göngudeildarinnar í samráði við lækna. Fylgst er með líðan sjúklinga með reglubundnum hætti og mat lagt á hvort þörf er á vitjun heim til þeirra eða hvort þeir þurfi að koma í formlegra mat og skoðun á göngudeildinni með blóðprufum og röntgenmyndatöku. Á göngudeildinni tekur sérhæft teymi hjúkrunarfræðinga og lækna á móti sjúklingum.