Skip to main content

Íslenska skuggaskýrslan fyrir Kvennasáttmálann 2022

Í skýrslu ríkisstjórnarinnar er að finna ítarlegt yfirlit yfir lagasetningu og stjórnvaldsaðgerðir hér innanlands sem eru mikilvægar fyrir framkvæmd samningsins.

Inngangur

Á undanförnum árum hafa íslensk stjórnvöld stigið nokkur mikilvæg skref til að bregðast við mismunun gagnvart konum og kynjamismunun. Ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, voru samþykkt árið 2020. Lögin leggja bann við fjölþættri mismunun og endurspegla nýlega alþjóðlega þróun í jafnréttismálum. Oft getur reynst erfitt að staðfesta að mismunun sé eingöngu vegna kyns en þegar öðrum ástæðum mismununar á borð við þjóðerni, fötlun, kynhneigð, aldur eða trúarbrögð er bætt við jöfnuna kemur gjarnan í ljós að um sé að ræða fjölþætta mismunun. Samkvæmt lögunum skal fyrirtæki eða stofnun þar sem 25 eða fleiri starfa að jafnaði á ársgrundvelli öðlast jafnlaunavottun að undangenginni úttekt vottunaraðila á jafnlaunakerfi fyrirtækisins eða stofnunarinnar sem staðfestir að jafnlaunakerfið og framkvæmd þess uppfylli kröfur staðalsins ÍST 85:2012. Sem fyrr er sala einstaklings á eigin líkama ekki ólögleg á Íslandi en kaup á líkama annars einstaklings eru refsiverð. Árið 2018 voru gerðar breytingar á almennum hegningarlögum og ákvæði um nauðgun kveður nú á um að einstaklingur sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við annan einstaklings án samþykkis viðkomandi gerist sekur um nauðgun. Árið 2015 voru samþykkt ný lög um opinber fjármál þar sem kveðið er á um kynjaða fjárlagagerð.

Í þessari skýrslu er fjallað um ábendingar Mannréttindaskrifstofu Íslands, Kvenréttindafélags Íslands, UN Women á Íslandi, Öryrkjabandalags Íslands og Öfga – aðgerðarhóps gegn kynbundnu ofbeldi (hér eftir kallað „samtökin“) hvað varðar löggjöf, stefnu og fjármögnun íslenskra stjórnmála til stuðnings jafnrétti kynjanna, auk þess sem tillögur eru lagðar fram.

Þetta er ekki tæmandi listi en á meðal þess sem við bendum á og leggjum til að gert sé á Íslandi er eftirfarandi:

  • Samtökin lýsa yfir áhyggjum af skorti á fjármögnun til Fæðingarorlofssjóðs. Ein af grunnstoðum jafnrar stöðu kvenna og karla í íslensku samfélagi er fæðingarorlofið okkar sem skiptist jafnt á milli tveggja foreldra. Síðan greiðslur voru lækkaðar hefur hlutfall feðra sem tekur fæðingarorlof einnig lækkað.
  • Samtökin mælast til þess að ríkisstjórnin haldi áfram endurskoðun sinni á aðalnámskrám grunn- og framhaldsskóla og geri kynjafræði að skyldufagi á öllum skólastigum.
  • Samtökin hafa áhyggjur af því að skortur á fjármagni komi í veg fyrir að stjórnvöld geti unnið að því að tryggja jafna stöðu karla og kvenna. Við bendum á að Jafnréttisstofa, ríkisstofnun sem ber að hafa eftirlit með framkvæmd íslenskra laga um jafnan rétt kynjanna, hefur verið undirfjármögnuð undanfarin ár.
  • Skortur á fjármagni hefur haft áhrif á jafnréttismál á öllum stjórnsýslustigum og í öllum ríkisstofnunum undanfarin sjö ár. Við hvetjum íslensk stjórnvöld til að skuldbinda sig heilshugar því að tryggja jafnrétti kynjanna með því að úthluta nægilegu fjármagni til jafnréttisverkefna og lögbundinna verkefna ríkisstofnana.
  • Samtökin lýsa yfir áhyggjum af réttarkerfinu vegna lágs hlutfalls sakfellinga, hvernig gerendur geta beitt réttarkerfinu gegn þolendum sínum, langs málsmeðferðartíma, vægra refsinga og fyrningarfrests.

1. grein – Mismunun

Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020 er að finna skilgreiningu á bæði beinni og óbeinni kynbundinni mismunun, fjölþættri mismunun, kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni, kynferðislegri áreitni, samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða og sértækum aðgerðum til að jafna stöðu kynjanna. Á heildina litið eru lögin í samræmi við ákvæði Kvennasáttmálans.

Kvennasáttmálinn hefur þó ekki verið innleiddur í íslensk lög sem gerir það að verkum að almenningur, þingmenn og jafnvel einstaklingar sem starfa fyrir stofnanir og fyrirtæki sem sérfræðingar í málefnum kynjanna hafa ekki upplýsingar um alþjóðlegar skuldbindingar Íslands til að tryggja jafnan rétt kynjanna, og þetta hefur áhrif á opinbera umræðu um löggjöf sem tengist jafnrétti kynjanna.

  • Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að innleiða Kvennasáttmálann í íslensk lög og fræða almenning um alþjóðlegar skuldbindingar okkar hvað varðar kynjajafnrétti.

2. grein – Stefnumarkmið og aðgerðir

Lög um jafnan rétt kynjanna

Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020[1] tóku gildi 6. janúar 2021, og leystu af hólmi lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 (jafnréttislög). Lögin gilda um öll kyn, konur, karla og fólk með hlutlausa kynskráningu. Í lögunum er að finna ný ákvæði um fjölþætta mismunun sem og ýmsar úrbætur og skilgreiningar fyrir önnur ákvæði.

Íslensk stjórnvöld starfa nú samkvæmt framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2020-2023.

Samkvæmt 27. gr. laga nr. 150/2020 skal starfa jafnréttisfulltrúi sem hefur sérþekkingu á jafnrétti kynjanna í hverju ráðuneyti. Jafnréttisfulltrúi fjallar um og hefur eftirlit með jafnréttisstarfi á málefnasviði viðkomandi ráðuneytis og stofnana þess, sérstaklega verkefnum sem tilgreind eru í 17. gr. laganna auk starfa við samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í ráðuneytinu. Samtökin lýsa engu að síður yfir áhyggjum af því að jafnréttisfulltrúar íslenskra ráðuneyta vinni ekki að samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða á málefnasviðum viðkomandi ráðuneyta. Þetta er bein afleiðing af skorti á fjármagni til að ráða jafnréttisfulltrúa í fullt starf. Þetta þýðir að ríkisstjórnin hefur ekki getað framfylgt 17. gr. jafnréttislaga og unnið að samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða á öllum sviðum stjórnsýslunnar.

  • Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að tryggja viðunandi fjármagn fyrir stöður jafnréttisfulltrúa í ríkisstofnunum.
  • Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að vinna að samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða á öllum sviðum stjórnsýslunnar.

Samtökin fagna nýrri löggjöf sem samþykkt var árið 2015, lögum nr. 123/2015, sem kveða á um kynjaða fjárlagagerð sem höfð skal til hliðsjónar við gerð fjárlaga, ásamt því að frumvarpinu fylgi greinargerð um áhrif þess á jafna stöðu kynjanna.

Jafnréttisstofa

Jafnréttisstofa hefur eftirlit með framkvæmd laga nr. 150/2020, laga nr. 85/2018 og laga nr. 86/2018. Jafnframt annast Jafnréttisstofa stjórnsýslu á sviði jafnréttismála í samræmi við lög um stjórnsýslu jafnréttismála nr. 151/2020[2]. Jafnréttisstofa veitir stjórnvöldum og öðrum aðilum ráðgjöf um jafnréttismál, fylgist með þróun jafnréttismála í samfélaginu, vinnur að forvörnum og rannsóknum og gegnir hlutverki eftirlitsaðila sem fylgist með opinberum aðilum og einkaaðilum til að tryggja að ofangreindum lögum sé fylgt. Þrátt fyrir að lögin frá 2020 hafi aukið verulega við vinnuálag og ábyrgðarsvið Jafnréttisstofu hefur fjármagn til hennar aukist lítið sem ekkert. Samtökin óttast því að Jafnréttisstofa geti ekki sinnt öllum verkefnum sínum með fullnægjandi hætti vegna skorts á fjármagni og starfsfólki. Jafnréttisstofu hefur tekist að sækja sér aukið fjármagn með utanaðkomandi styrkjum, en þeir eru oftast veittir til tiltekinna verkefna. Það er óviðunandi að ríkisstofnun sem á að fylgjast með og tryggja framkvæmd jafnréttismála fyrir hönd hins opinbera þurfi að reiða sig á utanaðkomandi samkeppnissjóði.

  • Samtökin hafa áhyggjur af því að Jafnréttisstofa sé ekki nægilega vel fjármögnuð til að standa við grundvallarskyldu sína, að hafa eftirlit með lögunum þremur, og hvetur íslensk stjórnvöld til að veita stofnuninni nægilegt fjármagn.

 

3. grein – Skylda til að gera ráðstafanir til að tryggja mannréttindi og grundvallarfrelsi

Ísland hefur undirritað, en ekki fullgilt, samningsviðauka nr. 12 við Mannréttindasáttmála Evrópu, sem felur í sér almennt bann við mismunun. Ísland hefur einnig undirritað, en ekki enn fullgilt, valfrjálsa bókun við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.

  • Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að fullgilda samningsviðauka nr. 12 og valfrjálsa bókun við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og innleiða það í íslensk lög til að efla takmarkaða löggjöf gegn mismunun sem er til staðar í landinu.

Það er engin sjálfstæð mannréttindastofnun á Íslandi og því hefur Mannréttindaskrifstofa Ísland tekið sér það hlutverk, en það er óháð stofnun sem er þó að mestu fjármögnuð af ríkinu. Íslensk stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau ætli að setja mannréttindastofnun á laggirnar, auk þess sem vinna við grænbók með yfirliti yfir stöðu mannréttinda á Íslandi er hafin. Þau hafa einnig lýst því yfir að frumvarp um stofnun mannréttindastofnunar verði lagt fyrir Alþingi árið 2023.

  • Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að framkvæma áform sín um stofnun mannréttindastofnunar og nýta sér reynslu, tengslanet og sérþekkingu Mannréttindaskrifstofu Íslands.
  • Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að tryggja að ferlið sé opið, gagnsætt og unnið í samráði við samtök sem vinna að mannréttindum ýmissa hópa.

4. grein – Sértækar aðgerðir

Þrátt fyrir að lög nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna kveði á um jafnrétti kvenna, karla og fólks með hlutlausa skráningu kyns eru ákvæði um að hlutfall karla og kvenna skuli vera sem jafnast, sem ætlað er að jafna stöðu þessara tveggja hópa hvað varðar þátttöku í samfélaginu, óbreytt úr fyrri jafnréttislögum. Grein sem fjallar um þátttöku í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera var breytt með tilliti til réttinda fólks með hlutlausa skráningu kyns.

  • Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að halda áfram að leggja grunn að aðgengi kvenna og fólks með hlutlausa skráningu kyns að áhrifastöðum.

5. grein – Kynjahlutverk, staðalímyndir og fordómar

Samtökin fagna aukinni umræðu um femínisma og aukinni vitund um mikilvægi jafnréttis kynjanna í íslensku samfélagi. Undanfarinn áratug hefur orðið mikil aukning á fjölda félagasamtaka sem vinna að jafnrétti kynjanna, sérstaklega með tilliti til þverlægrar kynjamismununar.

Í lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna er kveðið á um samráðsvettvang um jafnréttismál sem halda skal að minnsta kosti einu sinni á ári. Vettvangurinn skal samanstanda af fulltrúum frá aðilum vinnumarkaðarins, fræðasamfélaginu og samtökum sem vinna að kynjajafnrétti samkvæmt lögunum. Hingað til hefur einn slíkur vettvangur verið kallaður saman, þann 1. júní 2021. Samkvæmt samantekt fundarins sneru helstu niðurstöður að jafnréttisfræðslu, sérstaklega í opinberri stjórnsýslu. Til að hægt sé að sinna málefninu með hætti sem skilar árangri þarf þekking á því að vera til staðar. Einnig var rætt um mikilvægi virkrar jafnréttisfræðslu fyrir atvinnulífið, starfsfólk almennt og stjórnendur.

  • Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að nota allar upplýsingarnar sem komu fram í umræðuhópum til að gera árangursríkar ráðstafanir.

Samtökin hafa einnig áhyggjur af því að engar afleiðingar séu af því að stjórnmálamenn viðhafi skaðlega orðræðu, bæði opinberlega og í einrúmi, gegn jafnrétti kynjanna og tali niðrandi um konur.

  • Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að gera ráðstafanir um viðeigandi viðbrögð við skaðlegri orðræðu.

6. grein – Aðgerðir gegn mansali og vændi

Samtökin fagna því að árið 2018 varð Ísland 30. ríkið til að fullgilda Istanbúlsamninginn. Enn er þó verk að vinna eins og lýst er hér að neðan.

Vændi, nektardansstaðir og mansal

Íslenskir sakborningar sem eru sektaðir eða dæmdir fyrir kaup á vændi njóta enn í dag nafnleyndar. Samtökin lýsa yfir áhyggjum af því að nafnleynd fólks sem kaupir vændi geri forvarnargildi laganna að engu.

Fjöldi mála sem lögreglan hefur til rannsóknar er mjög breytilegur milli ára. Þörf er á meira fjármagni og mannafla hjá lögreglu fyrir rannsókn og ákærur í málum vegna vændis og mansals.

Árið 2019 innleiddi ríkisstjórnin metnaðarfulla aðgerðaáætlun til að berjast gegn mansali. Hluti af áætluninni fólst í stofnun viðbragðsteymis fyrir þolendur kynlífsmansals[3]. Bjarkarhlíð hefur starfrækt viðbragðsteymi fyrir þolendur kynlífsmansals frá 1. júlí 2020. Árin 2020 og 2021 sinnti teymið 15 málum, 9 málum vegna vinnumansals (1 mál var bæði vegna vinnu- og kynlífsmansals), 4 mál vegna kynlífsmansals og 2 mál vegna smygls á fólki. Teymið var stofnað með samningi við félagsmálaráðuneytið. Það ætti að tryggja skjót viðbrögð við tilkynningum um kynlífsmansal, tryggja að málin séu unnin rétt frá byrjun og veita þolendum viðeigandi stuðning. Þrátt fyrir jákvæðar aðgerðir á þessu sviði er enn skortur á heildstæðri nálgun og skilvirku kerfi. Þolendur þurfa fleiri úrræði, þar á meðal úrræði utan Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins, og auka þarf fræðslu um kynlífsmansal fyrir fólk sem kemur að slíkum málum og almenning. Rannsaka þarf stöðu erlendra kvenna á vinnumarkaði og umfang mansals til vinnu og í vændi. Enn fremur vantar úrræði fyrir konur sem vilja hætta í vændi eða losna úr mansali og fyrir konur í vændi sem þurfa á aðstoð og stuðningi að halda. Það eru til ýmis úrræði fyrir þolendur ofbeldis en eina úrræðið sem er með sérstakan hóp fyrir konur í vændi er Stígamót, miðstöð fyrir þolendur kynferðisofbeldis.

Samkvæmt Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, varð aukning á fjármunum sem varið er í kaup á vændi á Íslandi árin 2016-2019, en það er áhyggjuefni. Árið 2019 fjallaði Kveikur (verðlaunaður fréttaskýringaþáttur á RÚV) um vændi og komst að þeirri niðurstöðu að það sé jafn auðvelt að kaupa vændi og skyndibita á Íslandi.

  • Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að auka fjármagn lögreglu til rannsókna á vændis- og mansalsmálum og við hvetjum Ríkislögreglustjóra til að sjá til þess að vændi verði rannsakað með virkum hætti í öllum lögregluumdæmum landsins.
  • Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að veita aukið fjármagn til aðgerða gegn mansali og sjá til þess að konur sem eru þolendur mansals fái aðstoð og geti leitað réttar síns.

Ofbeldi gegn konum

Samkvæmt almennum hegningarlögum er hvers kyns ofbeldi gegn konum refsivert en undanfarið hafa þolendur kynbundins ofbeldis bent á óréttlæti í réttarkerfinu, til dæmis með að benda á lágt hlutfall sakfellinga, hvernig gerendur geta beitt kerfinu gegn þolendum sínum með því að leggja fram gagnákæru fyrir meiðyrði og langan málsmeðferðartíma. Niðurstöður úr „Áfallasögu kvenna“, vísindarannsókn á vegum Háskóla Íslands sem 32.811 íslenskar konur tóku þátt í, leiddu í ljós að 40% allra kvenna á Íslandi hafa verið beittar líkamlegu og/eða kynferðislegu ofbeldi. Einn fjórði þátttakenda hafði orðið fyrir nauðgun eða tilraun til nauðgunar.

Árið 2021 samþykkti Alþingi frumvarp um breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga um stafrænt kynferðisofbeldi (áður kallað „klám án samþykkis“ eða „hefndarklám“). Lagaramminn er til staðar en honum þarf að beita oftar.

  • Samtökin mæla með því að bæta forvarnir og fræðslu um stafrænt kynferðisofbeldi auk þess sem efla þarf stuðning við þolendur ofbeldis.

Fyrningarfrestur kynferðisbrota er mismunandi. Nauðgun og sum önnur kynferðisbrot fyrnast ekki ef þolandi er undir 18 ára aldri. Fyrir önnur brot byrjar fyrningartími ekki að telja fyrr en þolandi nær 18 ára aldri. Ef þolandi er eldri en 18 ára hefst fyrningartími um leið og glæpurinn er framinn.

  • Samtökin hvetja stjórnvöld til að fella niður fyrningarfrest í kynferðisafbrotamálum.

Á Íslandi mildaði Landsréttur refsingu í 26% kynferðisafbrotamála á árunum 2018-2020. Á þessum árum staðfesti Landsréttur dóma héraðsdómstóla í 45% tilfella. Það er áhyggjuefni að Landsréttur mildi oftar dóma í kynferðisafbrotamálum en öðrum sakamálum.

Stígamót, miðstöð fyrir þolendur kynferðisofbeldis, hafa skorað á dómsmálaráðherra að huga að því að gera þolendur ofbeldis að málsaðilum í ofbeldismálum í stað þess að vera vitni. Í yfirlýsingu sem einnig var undirrituð af 12 öðrum samtökum, og afhent dómsmálaráðherra, er útskýring á mikilvægi þess að þolendur ofbeldis fái sama aðgang og sakborningar að gögnum sem snúa að málinu. Í mars 2022 voru dómsmálaráðherra afhentar fleiri en 12.000 undirskriftir frá einstaklingum sem skoruðu á ráðherra að bæta lagalega stöðu þolenda ofbeldis.

Niðurstöður skýrslu sem var gefin út árið 2013 (nýlegasta samantektin) leiddu í ljós að aðeins 17% nauðgunarmála fóru fyrir dóm og aðeins 13% leiddu til sakfellingar. Mál voru felld niður vegna þess að fyrningarfrestur var liðinn, vitni voru ekki kölluð til yfirheyrslu, sönnunargögnum á borð við áverka, vottorð frá sálfræðingum, myndbandsupptökur og jafnvel sönnunargögn af glæpavettvangi var gefið lítið vægi o.s.frv[4]. Nýlegar breytingar á almennum hegningarlögum, þ.e. breyting á lagalegri skilgreiningu nauðgunar á grundvelli samþykkis, virðast ekki skila sér í dómum í nauðgunarmálum þar sem enn er notast við eldri skilgreiningu.

Samtökin lýsa yfir áhyggjum af því að íslenska réttarkerfið sé að bregðast þolendum kynferðisofbeldis sem leggja fram kæru. Tölfræðilegar upplýsingar styðja við þessar áhyggjur þegar fjöldi þolenda ofbeldis sem leita aðstoðar hjá Stígamótum, Bjarkarhlíð og neyðarmóttöku Landspítalans er borinn saman við fjölda mála sem tilkynnt eru til lögreglu og mála sem ákæruvaldið fær til meðferðar. Árið 2020 voru skráðar samtals 1256 nýjar heimsóknir, en einungis 100 nauðgunarmál voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og samkvæmt gögnum ríkissaksóknara voru 325 mál tengd kynferðisofbeldi til meðferðar hjá ákæruvaldinu á því ári. Þar sem ársskýrsla Ríkislögreglustjóra fyrir árið 2020 hefur ekki enn verið gefin út er aðeins verið að bera saman fjölda heimsókna ofbeldisþola og tilkynnt nauðgunarmál í Reykjavík, en ekki um allt land.

  • Samtökin fagna stofnun sérstaks starfshóps um forvarnir og vitundarvakningu gegn kynferðisbrotum og kynbundnu ofbeldi [5] og hvetja íslensk stjórnvöld til að grípa til róttækra aðgerða.

Konur eru í minnihluta á meðal íslenskra lögregluþjóna og mikill fjöldi kvenkyns lögregluþjóna hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni. Samkvæmt nýjustu tölum um kynjahlutfall sem Ríkislögreglustjóri hefur gefið út voru 28% lögregluþjóna konur í febrúar 2019. Í skýrslu sem Ríkislögreglustjóri lét gera fyrir íslensku lögregluna árið 2013 segir að 31% kvenkyns lögregluþjóna hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni við störf sín. Þær voru áreittar af samstarfsmönnum, yfirmönnum og aðilum utan lögreglunnar.

Árið 2018 kom upp mál þar sem trans kona tilkynnti um mismunun þegar henni var meinaður aðgangur að skemmtistað. Lögreglan sinnti máli hennar illa og það tók hana þrjú ár að koma því fyrir dómstóla, en málsmeðferð stendur yfir núna. Trans konan og hagsmunafélag hinsegin fólks á Íslandi hafa sakað lögregluna um að hafa sýnt af sér transfóbíu í samskiptum við hana.

  • Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að gera nýja skýrslu um lögregluna á Íslandi með tilliti til stöðu kvenna innan lögreglunnar, þar sem bent er á mögulegar lausnir til að bæta stöðuna.
  • Samtökin lýsa yfir áhyggjum af miklum fjölda nauðgunar- og kynferðisofbeldismála sem ríkissaksóknari fellir niður auk lágs hlutfalls sakfellinga í slíkum málum.
  • Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að gera rannsókn innan lögreglunnar til að kanna hvort transfóbía sé til staðar, og ef svo er að grípa til aðgerða.

Í mars 2021 kærði hópur níu kvenna íslenska ríkið til Mannréttindadómstóls Evrópu fyrir brot á réttinum til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi. Konurnar tilkynntu nauðganir, heimilisofbeldi og kynferðislega áreitni til lögreglu en öll málin voru felld niður af hálfu ákæruvaldsins. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur óskað eftir að íslenska ríkið svari því hvers vegna mál fjögurra kvennanna voru felld niður og hvort það hafi samræmst Mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt kærendum lágu fyrir gögn í öllum málunum sem hefðu átt að leiða til þess að þau færu fyrir dóm. Íslenska ríkið hafði frest til haustsins 2021 til að svara spurningum dómstólsins [6].

  • Samtökin mælast til þess að ríkisstjórnin veiti nægt fjármagn til rannsókna og ákæra í kynferðisafbrota- og heimilisofbeldismálum sem og til að fræða lögregluþjóna, saksóknara og dómara um löggjafarviljann sem kemur fram í refsiákvæðum um kynferðisbrot og ofbeldi í nánum samböndum, sér í lagi um ákvæði almennra hegningarlaga þar sem nauðgun er skilgreind út frá samþykki.
  • Samtökin hvetja dómsmálaráðherra til að íhuga ábendingar frá fjölda samtaka um að þolendur ofbeldis verði málsaðilar í stað þess að vera vitni í eigin málum. Samtökin minna stjórnvöld á mikilvægi þess að málsmeðferð ofbeldismála sé ekki í höndum einstaklinga sem tengjast þolanda eða sakborningi. Einnig þarf að koma upp sérstöku eftirliti fyrir tilvik þar sem lögregluþjónar eru kærðir fyrir kynferðisofbeldi, til dæmis með því að láta ákæruvaldið sjá um rannsókn málsins.

Ofbeldi gegn fötluðum konum

Í skýrslu sem Ríkislögreglustjóri sendi frá sér í ágúst 2020 kemur fram að fólk með fatlanir sé mun líklegra til að verða fyrir ofbeldi en fólk sem ekki er fatlað og að mál er varða ofbeldi og misnotkun á fólki með fatlanir séu mun ólíklegri til að leiða til sakfellinga en mál ófatlaðra þolenda [7]. Frumvarp um breytingar á lögum um meðferð sakamála sem ætlað er að bæta réttarstöðu fatlaðra þolenda ofbeldis hefur verið lagt fyrir á Alþingi [8]. Hins vegar er þörf á meiri vinnu og fræðslu.

  • Samtökin mæla með því að stjórnvöld komi sér upp fræðsluáætlun fyrir lögreglu, saksóknara og dómara um aðferðir til að yfirheyra fatlaða þolendur og aðrar aðferðir sem eru nauðsynlegar til að tryggja eins réttláta og ítarlega málsmeðferð og kostur er á.

Ofbeldi gegn konum sem eru innflytjendur

Árið 2018 sendu konur af erlendum uppruna á Íslandi frá sér yfirlýsingu með frásögnum af ofbeldi, áreitni og misrétti. Í sögunum var sagt frá fordómum, mismunun, kerfisbundinni niðurlægingu, einangrun, þvingun og misnotkun af verstu gerð. Konurnar greindu frá því að þeim fyndist þær vera yfirgefnar og einangraðar. Þær kröfðust þess að vera hafðar með við áætlanagerð um aðgerðir gegn kynbundinni mismunun, ofbeldi og áreitni og að aðgerðaáætlanir innihéldu sértækar aðgerðir fyrir konur af erlendum uppruna.

Fáar rannsóknir hafa verið gerðar á ofbeldi gegn konum af erlendum uppruna á Íslandi. Í skýrslu sem félagsmálaráðuneytið lét gera árið 2019 kom fram að konur af erlendum uppruna vita oft ekki af úrræðum sem þeim standa til boða, til dæmis varðandi kynferðisofbeldi [9]. Þar kemur einnig fram að tölur frá lögreglunni bendi til hærri tíðni ofbeldis gegn innflytjendakonum. Skortur á upplýsingum og rannsóknum á ofbeldi gegn konum af erlendum uppruna er áhyggjuefni.

Í sömu skýrslu kom fram að konur af erlendum uppruna á Íslandi upplifðu minna öryggi vegna skorts á stuðningi í nærumhverfinu í íslensku samfélagi og lögð er áhersla á að vekja athygli á duldum valdaaðstæðum sem stuðla að ákveðnum gildum og viðmiðum sem geta leitt til kynbundins ofbeldis á vinnustöðum og heimilum.

Í rannsókn Félagsvísindastofnunar á einelti og kynferðislegri áreitni á vinnustað gáfu niðurstöðurnar til kynna að starfsfólk með erlendan ríkisborgararétt væri ólíklegra til að tilkynna kynferðislega áreitni á vinnustað en starfsfólk með íslenskan ríkisborgararétt.

Fjöldi innflytjendakvenna sem leitar aðstoðar hjá Kvennaathvarfinu fer vaxandi. Ný gögn sýna að konur af erlendum uppruna leita oftar aðstoðar og dvelja að meðaltali lengur í athvarfinu en íslenskar konur. Árið 2020 voru 64% þeirra kvenna sem dvöldu í athvarfinu innflytjendur en árið 2014 voru þær 32% íbúa. Þennan mun má líklega rekja til þess að innflytjendakonur hafa ekki sama öryggisnet fjölskyldu og konur sem fæddust á Íslandi.

  • Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að efla rannsóknir á ofbeldi gegn innflytjendakonum á Íslandi og skoða öryggi innflytjendakvenna á vinnustöðum.
  • Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að tryggja að í framtíðinni taki aðgerðaáætlanir gegn heimilis- og kynferðisofbeldi tillit til þarfa og velferðar innflytjendakvenna. Auk þess er hvatt til þess að sjálfboðasamtök sem veita ráðgjöf fyrir þolendur kynferðisofbeldis, og staðsett eru utan Reykjavíkur, fái nægilegt fjármagn til að sinna starfsemi sinni jafn vel og samtök á höfuðborgarsvæðinu.
  • Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að veita Fjölmenningarsetri nægilegt fjármagn og auka aðgengi að þjónustu þess.
  • Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að tryggja betra aðgengi innflytjendakvenna að upplýsingum og efla þjónustu viðbragðsteyma fyrir þolendur kynlífsmansals utan Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins.

7. grein – Stjórnmál og opinber vettvangur

Íslandi hefur tekist að ná kynjajafnvægi í kosningum án þess að nota kynjakvóta. Sumir stjórnmálaflokkar nota kynjakvóta, en ekki allir, og ekki er gerð krafa um slíkt í lögum.

Samtökin fagna innleiðingu kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja, en ítreka þá afstöðu sína að kynjakvótar eigi frekar að gilda um stjórnir fyrirtækja með 25 starfsmenn eða fleiri en um fyrirtæki með 50 starfsmenn eða fleiri eins og nú er kveðið á um. Samkvæmt 28. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna skal við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga gera sérstakar ráðstafanir til þess að hlutfall kvenna og karla verði sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Þetta á einnig við um stjórnir opinberra hlutafélaga og fyrirtækja sem ríki eða sveitarfélag er aðaleigandi að. Hins vegar var hlutfall kvenna í stjórnum stórra fyrirtækja, með þrjá í stjórn, 34,8% hjá opinberum hlutafélögum árið 2021 og 29,3% hjá einkahlutafélögum. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands. Hlutfall kvenna í stjórnum stórra fyrirtækja, með fleiri en 50 starfsmenn og fjóra eða fleiri í stjórn, var 41,5% hjá opinberum hlutafélögum árið 2021 og 38,3% í einkahlutafélögum.

Í fyrirtækjum sem greiða laun og eru skráð í hlutafélagaskrá var hlutfall kvenna í stjórnum rétt rúmlega fjórðungur í árslok 2021, eða 27%. Hlutfall kvenna í framkvæmdastjórastöðum hefur hækkað lítillega milli ára, en hlutfall kvenna í stöðum stjórnarformanna var 24,7% í árslok 2021. Í könnun sem gerð var árið 2020 meðal 186 forystukvenna í íslensku viðskiptalífi kom í ljós að róttækra breytinga var þörf. Meirihluta viðmælenda fannst reglugerðin frá 2010 ekki hafa skipt verulegu máli.

  • Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að setja skyldu um kynjakvóta innan stjórnmálaflokka.
  • Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að skoða leiðir til að fjölga konum í stjórnum fyrirtækja með 25 starfsmenn eða fleiri og konum í stjórnendastöðum í einkafyrirtækjum.

8. grein – Umboð til að koma fram fyrir hönd ríkis á alþjóðavettvangi

Þrátt fyrir að kerfisbundið hafi verið unnið að því að jafna kynjahlutfall í íslensku utanríkisþjónustunni hallar þar enn töluvert á konur. Í maí 2022 störfuðu 19 karlar (68%) sem sendiherrar erlendis og 9 konur (32%). Í síðustu skýrslu um Kvennasáttmálann var kynjahlutfallið 69/31 svo hlutfallið hefur ekkert batnað. Í fyrsta skipti eru bæði forsætisráðherra og utanríkisráðherra Íslands konur. Nú er því einstakt tækifæri til að gera miklar breytingar og ná fram auknu jafnrétti í íslenskri utanríkisþjónustu. Það er mjög mikilvægt að konur fái sæti við borðið sem alþjóðlegir fulltrúar svo þær geti komið sínum sjónarmiðum um alþjóðleg málefni á framfæri.

  • Samtökin ítreka mikilvægi þess að fjölga konum í íslensku utanríkisþjónustunni.

10. grein – Menntun

Frá árinu 2011 hefur jafnrétti verið einn af sex grunnþáttum menntunar í íslenska skólakerfinu. Engu að síður virðist það ekki hafa skilað sér í stundaskrár skólanna. Við leggjum áherslu á nauðsyn þess að kenna kynjafræði í skólum.

Kynjahlutfall í námsbókum er áhyggjuefni. Þrátt fyrir vitundarvakningu undanfarin ár og skýrslu frá árinu 2011 sem sýndi fram á að mikið hallar á umfjöllun um konur í sögubókum sem skrifaðar voru fyrir íslenska grunnskóla [10] er skortur á rannsóknum um þetta efni.

Árið 2020 skipaði mennta- og menningarmálaráðherra starfshóp um eflingu kynfræðslu í grunn- og framhaldsskólum. Hópurinn gaf út skýrslu árið 2021 sem fjallar um hugmyndafræði kynheilbrigðis og alhliða kynfræðslu, lagalega skyldu og samþykktir en jafnframt um aðalnámskrá grunn- og framhaldsskóla. [11]

  • Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að kynna sér skýrsluna með áherslu á að gera kynjafræði og kynfræðslu að skyldufagi í skólum.
  • Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að gera kynjafræði að skyldufagi á grunn- og framhaldsskólastigi. Með menntun er hægt að koma sjálfbærum samfélagsbreytingum og jafnrétti kynjanna í framkvæmd.
  • Samtökin mælast til þess að íslensk stjórnvöld endurskoði kennslubækur sem notaðar eru á grunn- og framhaldsskólastigi og sjái til þess að þær innihaldi jafnt hlutfall allra kynja.

11. grein – Atvinna

Leiðréttur launamunur kynjanna á Íslandi árið 2020 var 4,1%.

  • Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að halda áfram vinnu við að útrýma launamun kynjanna.

Jafnlaunastaðallinn

Samtökin fagna því starfi sem íslensk stjórnvöld hafa unnið við þróun staðalsins ÍST 85:2012 – Jafnlaunakerfi, en það er ISO-vottunarkerfi sem var unnið í samvinnu við Alþýðusamband Íslands og Samtök iðnaðarins til að staðfesta að konur og karlar sem starfa hjá sama fyrirtæki fái sömu laun og starfskjör fyrir sömu eða sambærileg störf.

  • Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að halda áfram vinnu við að innleiða jafnlaunastaðalinn að fullu og kynna hann á heimsvísu.

Innflytjendakonur á vinnumarkaði

Í áhættumatsskýrslu um skipulagða glæpastarfsemi sem Ríkislögreglustjóri gaf út árið 2019 [12] kemur fram að borist hafi tilkynningar um mansal á vinnumarkaði. Frá árinu 2015 og til 16. mars 2019 voru 35 mál vegna vinnumansals rannsökuð og mögulegir þolendur voru 48. Þrátt fyrir það hafa engar frekari rannsóknir á mansali innflytjenda á Íslandi verið gefnar út, né hefur farið fram greining á kynjahlutföllum í þessum málum.

  • Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að efla rannsóknir á stöðu innflytjendakvenna á vinnumarkaði og umfangi mansals á Íslandi.

Fæðingarorlof

Réttur til fæðingarorlofs á Íslandi er sex mánuðir fyrir hvort foreldri en flytja má sex vikur frá einu foreldri til annars. Til viðbótar á annað foreldrið rétt á fjögurra mánaða foreldraorlofi til að annast barnið þar til það nær 8 ára aldri. Frá árinu 2007 hafa um 90% íslenskra feðra tekið fæðingarorlof eftir fæðingu barna sinna.

Fæðingarorlofssjóður greiðir foreldrum í fæðingarorlofi 80% af meðaltali heildarlauna.

Við lýsum yfir áhyggjum af því að foreldrum er einungis tryggður réttur til 12 mánaða fæðingarorlofs og börnum er einungis tryggð dagvistun frá tveggja ára aldri, þótt það sé mismunandi milli sveitarfélaga. Mæður taka oft að sér umönnun barna á tímabilinu frá því að fæðingarorlofi lýkur og þar til dagvistun hefst, sem krefst þess að konur ýmist lækki starfshlutfall sitt eða fari alfarið af vinnumarkaði. Þetta bil á milli fæðingarorlofs og dagvistunar hefur þannig neikvæð áhrif á stöðu kvenna á vinnumarkaði og í samfélaginu.

  • Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að veita Fæðingarorlofssjóði nægilegt fjármagn.
  • Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og dagvistunar.

12. grein – Heilbrigðisþjónusta

Með gildistöku laga nr. 35/2019 um ófrjósemisaðgerðir fengu konur aukin frjósemisréttindi. Ófrjósemisaðgerðir eru eingöngu heimilar að ósk einstaklinga sem hafa náð 18 ára aldri og einungis er heimilt að framkvæma þær á einstaklingum undir 18 ára aldri þegar ætla má að frjósemi viðkomandi hafi alvarleg áhrif á líf eða heilsu einstaklingsins og skal liggja fyrir staðfesting tveggja lækna um slíkt, auk samþykkis sérstaklega skipaðs lögráðamanns.

Minnihlutahópar, svo sem fatlaðar konur (sérstaklega konur með þroskahömlun, andlegar og geðrænar áskoranid, sálfélagslegar fatlanir og vímuefnavandamál), eiga erfitt með að nýta sér almenna heilbrigðisþjónustu. Þessir hópar upplifa fordóma og í sumum tilfellum niðurlægingu. Það virðist vera skortur á því að komið sé til móts við þá, bæði hvað varðar upplýsingagjöf og aðgengi.

  • Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að grípa til aðgerða svo allar konur finni til öryggis og geti leitað sér nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu.

Íslensk stjórnvöld fullgiltu samning um réttindi fatlaðs fólks þann 23. september 2016 en hafa enn ekki fullgilt valfrjálsu bókunina við samninginn.

  • Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að fullgilda valfrjálsu bókunina við samning um réttindi fatlaðs fólks og innleiða hana í landslög til að efla þá takmörkuðu löggjöf gegn mismunun sem er fyrir hendi.

Réttur trans kvenna, trans karla og kynsegin einstaklinga var aukinn með lögum nr. 80/2019 um kynrænt sjálfræði. Lögin kveða á um rétt einstaklinga til að skilgreina kyn sitt og að sú skilgreining sé viðurkennd fyrir lögum. Enn fremur vernda lögin rétt einstaklinga til líkamlegrar friðhelgi og sjálfræðis um breytingar á kyneinkennum.

Heilbrigðisþjónusta trans einstaklinga hefur hins vegar lengi verið vanrækt innan íslenska heilbrigðiskerfisins. Löng bið er í kynleiðréttingaraðgerðir, stundum allt að nokkur ár. Enn fremur bendir margt til þess að upplýsingaflæði til trans fólks innan kerfisins sé ábótavant [13].

  • Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að stytta bið í kynleiðréttingaraðgerðir og tryggja viðunandi upplýsingagjöf til trans fólks og kynsegin fólks.

13. grein – Efnahags- og félagslíf

Lífeyrisréttindi

Samkvæmt rannsókn [14] frá árinu 2021 fá konur á Íslandi að meðaltali 13,2% lægri lífeyrisgreiðslur en karlar. Ýmsar ástæður geta legið að baki, svo sem að konur taki lengra fæðingarorlof, fari fyrr af vinnumarkaði eða séu frekar í hlutastörfum vegna umönnunar barna. Samtökin hafa áhyggjur af þessu. Þrátt fyrir að hjón geti skipt lífeyrisgreiðslum á milli sín ýtir þetta undir þá hugmynd að kona þurfi að vera gift til að njóta sömu kjara og karlar.

  • Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að finna lausnir og leiðrétta þennan mun.

Konur í kvikmyndagerð og tónlistariðnaði

Frá árinu 2010 hefur hlutfall íslenskra kvikmynda sem leikstýrt er af konum smám saman minnkað. Það stendur nú í 6%. Gögnin koma frá Hagstofu Íslands [15], sem reiknaði út að á árunum 2010 til 2017 hefðu konur leikstýrt 6 af hverjum 65 íslenskum kvikmyndum.

Einnig má bæta stöðu kvenna í íslenskum tónlistariðnaði töluvert. Konur fá aðeins 19,44% af öllum gjöldum sem innheimt eru af STEF [16], félagasamtökum sem sjá um að innheimta og úthluta höfundarréttargjöldum til tónlistarflytjenda og -útgefanda fyrir opinberan tónlistarflutning. Konur fá minna greitt fyrir tónlist sína, því tónlist eftir konur fær minni spilun opinberlega en tónlist sem karlmenn semja.

Þó að samtökin fagni því að á vefsíðum listamannalauna og Rannís megi nú fá upplýsingar um kynjahlutfall úthlutana, og að íslensk stjórnvöld fari yfir slík gögn, er það enn áhyggjuefni hvort verið sé að bregðast við þessu á viðunandi hátt.

  • Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að endurskoða reglugerðir um fjárveitingar ríkisins til menningarmála og íhuga valkosti til að tryggja að framlög hins opinbera til menningarmála skiptist jafnt á milli kynja.

Misræmi milli karla- og kvennaíþrótta

Enn má sjá kynjamismunun í íþróttum, þar sem mun fleiri karlar eru formenn íþróttafélaga en konur, launamunur er á milli kynja bæði í landsliðum og flestum almennum íþróttafélögum á Íslandi og konur upplifa minna öryggi og hvatningu. Dæmi er um að kvennalið sem skila hagnaði fái töluvert minni tekjur en karlalið sem rekin eru með tapi. Í ársskýrslu KSÍ fyrir árið 2021 má sjá mun á launum og verktakagreiðslum, þar sem kvennalandsliðið fékk 57.191.429 kr. og karlalandsliðið fékk 121.512.117 kr.

Við verðum að tryggja að konur séu öruggar í íþróttum. Árið 2021 opnuðu þolendur ofbeldis og baráttufólk gegn kynbundnu ofbeldi umræðu um þöggun og yfirhylmingu Knattspyrnusambands Íslands á ofbeldismálum. Í kjölfarið sögðu formaður KSÍ og 15 stjórnarmenn af sér. Árið 2021 sendi Aþena, körfuboltafélag sem var stofnað með það markmið að valdefla ungt fólk, einkum ungar konur og ungmenni af erlendum uppruna, frá sér yfirlýsingu um að Körfuknattleikssamband Íslands (KKÍ) þaggaði niður kynbundið ofbeldi. Félagið krafðist aðgerða af hálfu sambandsins vegna óviðunandi stöðu þar sem stúlkur væru ekki öruggar innan íþróttasamfélagsins vegna óuppgerðra mála og aðgerðaleysis varðandi kynbundið ofbeldi.

  • Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að sjá til þess að íþróttaiðkun sé jafn örugg og hvetjandi fyrir konur og karla.
  • Samtökin hvetja til aðgerða til að brúa launamun í íþróttum.
  • Samtökin leggja til að rannsaka jafnrétti kynjanna í stjórnun íþróttafélaga þar sem mun fleiri karlar en konur eru formenn.

14. grein – Konur í dreifbýli

Þrátt fyrir að athvarf fyrir þolendur heimilisofbeldis hafi verið opnað á Akureyri dugir það ekki til. Nú eru tvö athvörf, eitt í Reykjavík og eitt á Akureyri. Einnig eru úrræðin Bjarkarhlíð, Bjarmahlíð og Sigurhæðir – miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis í Reykjavík, Akureyri og á Suðurlandi. Konur sem búa í dreifbýli á Íslandi þurfa enn að leita sér aðstoðar utan sinnar heimabyggðar. Enn eru aðeins tvö sjúkrahús á Íslandi (á Akureyri og í Reykjavík) sem veita þolendum kynferðisofbeldis sérhæfða móttöku og þjónustu. Enn er mikil þörf á úrbótum á þessu sviði til að allir þolendur kynferðisofbeldis á Íslandi geti farið í læknisskoðun og fengið aðstoð, óháð heimilisfangi. Þökk sé félagasamtökum á Íslandi hafa þolendur kynferðisofbeldis aðgang að ráðgjöf. Stígamót veita einstaklingum þjónustu með mánaðarlegum heimsóknum á Ísafjörð og einstaklingsráðgjöf í gegnum síma, Skype-samtöl og netspjall í rauntíma. Biðlistar hjá sálfræðingum í opinbera heilbrigðiskerfinu eru mjög langir og stjórnvöld niðurgreiða ekki kostnað við sálfræðiaðstoð á einkareknum sálfræðistofum, jafnvel þótt það hafi verið leitt í lög. Það getur því verið mjög kostnaðarsamt fyrir þolendur ofbeldis að fá aðstoð og ná bata. Þetta á sérstaklega við um dreifbýlið, þar sem fáir eða engir möguleikar á andlegum stuðningi standa til boða.

  • Samtökin leggja áherslu á mikilvægi stuðnings við alla þolendur heimilis- og kynferðisofbeldis á Íslandi og hvetja íslensk stjórnvöld til að tryggja öllum þolendum heimilis- og/eða kynferðisofbeldis jafnan aðgang að stuðningi og þjónustu um allt land.

Heimildir [neðanmálsgreinar]

[1] Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020. PDF
[2] Lög um stjórnsýslu jafnréttismála nr. 151/2020. PDF
[3] Dómsmálaráðuneytið. (2019, mars). Áherslur stjórnvalda í aðgerðum gegn mansali og annars konar hagnýtingu. PDF
[4] Hildur Fjóla Antonsdóttir og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir. (2013, október). Tilkynntar nauðganir til lögreglu á árunum 2008 og 2009: Um afbrotið nauðgun, sakborning, brotaþola og málsmeðferð. Háskóli Íslands og Edda – Öndvegissetur í samstarfi við innanríkisráðuneytið. Bls. 4. PDF
[5] Dómsmálaráðuneytið. (2022, 20. maí). Nýjar áherslur í vitundarvakningu gegn kynferðisofbeldi. Frétt
[6] RÚV. (2021, 10. júní). MDE krefst svara frá ríkinu um málsmeðferð 4 kvenna. Frétt
[7] Ríkislögreglustjóri . (2020, október). Ofbeldi gegn fötluðum á Íslandi. Stefnumiðuð greiningarskýrsla. Bls. 3. PDF
[8] Þingskjal 1197. (2020-2021). Frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008 (réttarstaða brotaþola, fatlaðs fólks og aðstandenda). Þingtíðindi
[9] Unnur Dís Skaptadóttir og Kristín Loftsdóttir. (2019). Konur af erlendum uppruna. Hvar kreppir að? Skýrsla unnin fyrir Félagsmálaráðuneytið. PDF
[10] Kristín Linda Jónsdóttir. (2011, ágúst). Rannsókn á hlutdeild kynjanna í námsefni í sögu á miðstigi grunnskóla. Jafnréttisstofa. PDF
[11] Mennta- og barnamálaráðuneytið. (2021, 6. júlí). Markvissari kennsla um kynheilbrigði og virkar ofbeldisforvarnir. Frétt
[12] Ríkislögreglustjóri. (2019, maí). Skipulögð brotastarfsemi á Íslandi. Áhættumatsskýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra. PDF
[13] Fréttablaðið. (2022, 18. febrúar). Vanræktur hópur í heilbrigðiskerfinu. Frétt
[14] Mercer. (2021). Mercer CFA Institute Global Pension Index. PDF
[15] Hagstofa Íslands. (2018, 9. febrúar). Tíundu hverri íslenskri langri leikinni kvikmynd leikstýrt af konu. Frétt
[16] STEF. (2020). Ársskýrsla 2019-2022. PDF