Skip to main content
HúsnæðismálKjaramálUmsögn

Breytingar á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga

By 10. október 2023júní 6th, 2024No Comments

„Fötlun einstaklinga getur falið í sér að viðkomandi geri sér ekki grein fyrir umfangi skuldbindinga sinna og standa því ekki í skilum. Þá eru mörg sem hafa ekki heilsu til þess að hefja samningaviðræður við kröfuhafa og geta ekki brugðist við innheimtuaðgerðum.“

Umsögn ÖBÍ – réttindasamtaka um breytingar á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga, mál nr. 175/2023.

ÖBÍ – réttindasamtök taka undir fyrirhugaðar breytingar á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 110/2010 og fagna því að betrumbæta eigi og gera málsmeðferðina skýrari og skilvirkari, umsækjendum til hagsbóta. Staða örorkulífeyristaka fer sífellt versnandi og hafa verður þennan hóp sérstaklega í huga við breytingar á lögum um greiðsluaðlögun enda er stór hluti umsækjenda örorkulífeyristakar. ÖBÍ telur markmið frumvarpsdraganna jákvæða þróun en vill koma eftirfarandi áherslum á framfæri.

1.

Fatlað fólk þarf iðulega að reiða sig á greiðslur og stuðning hins opinbera. Lífeyristakar eru í sömu stöðu og þau sem falla undir lög nr. 79/2019, um kjararáð, þar sem þeir semja ekki um hækkanir lífeyris, hafa ekki verkfallsrétt og eru í raun upp á stjórnvöld komin hvað varðar breytingar á lífeyrisgreiðslum. Þessi hópur er því mjög viðkvæmur fyrir fjárhagslegum áföllum. Lífeyristakar hafa ekki sömu bjargráð til að vænka hag sinn og þeir sem hafa fulla starfsgetu. Því er brýnt að stjórnvöld taki tillit til þeirrar stöðu við endurskoðun laganna. Nauðsynlegt er að gerðar verði breytingar á greiðsluaðlögunarkerfinu til hagsbóta fyrir þá skuldara sem verst standa og þurfa af illri nauðsyn að leita á náðir umboðsmanns skuldara.

Fólk sem er jaðarsett hefur minni möguleika til samfélagsþátttöku og þar af leiðandi á lífi til jafns við aðra. Þessu til rökstuðnings vísar ÖBÍ til þess að yfir helmingur þeirra sem leita til umboðsmanns skuldara og þiggur þar aðstoð vegna fjárhagsvanda til þess að greiða fyrir skiptatryggingu gjaldþrotaskipta eru örorkulífeyristakar. Þá eru sömuleiðis hátt hlutfall umsækjenda um greiðsluaðlögun örorkulífeyristakar.

2.

Stór hluti örorkulífeyristaka sitja uppi með námslán vegna menntunar sem þeir koma aldrei til með að geta nýtt sér til tekjuöflunar og geta afborganir vegna þeirra lána verið mjög íþyngjandi fyrir þann hóp. ÖBÍ fagnar því að tryggja eigi skýra meðferð krafna vegna námslána þannig að skuldari mun vera í skilum þegar hann lýkur tímabili greiðsluaðlögunar. ÖBÍ styður þau áform um að kröfur vegna ábyrgðaskuldbindinga á námslánum teljist ekki til krafna vegna námslána og að þær kröfur falli undir greiðsluaðlögun séu þær virkar á hendur ábyrgðarmanni.

3.

Í frumvarpinu er lagt til að embætti umboðsmanns skuldara hafi heimild til að samþykkja umsókn, þrátt fyrir að synjunargrundvöllur liggi fyrir, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi eins og veikindi eða erfiðar félagslegar aðstæður. ÖBÍ telur þetta heimildarákvæði mikilvægt fyrir þann hóp sem verður tímabundið og skyndilega fyrir tekjumissi eins og t.d. endurhæfingarlífeyristakar.

4.

Fatlað fólk er fjölbreyttur hópur einstaklinga. Sumir fæðast með ákveðna fötlun frá fæðingu en aðrir fatlast síðar á lífsleiðinni t.d. í kjölfar slyss eða veikinda. Mikilvægt er að tryggja einstaklingum sem þurfa að minnka starfshlutfall eða hætta á vinnumarkaði sökum fötlunar, fjárhagslegt svigrúm og öruggt húsnæði. Slíkum áföllum fylgja miklar breytingar í lífi fólks og brýnt að opinberir og einkaaðilar dragi úr íþyngjandi fjárkröfum og leiti sátta í samræmi við breytta greiðslugetu fatlaðs fólks.

Brýnt er að sérstaklega verði hugað að og komið á fót réttindagæslu fyrir fatlað fólk í greiðsluvanda. Fötlun einstaklinga getur falið í sér að viðkomandi geri sér ekki grein fyrir umfangi skuldbindinga sinna og standa því ekki í skilum. Þá eru mörg sem hafa ekki heilsu til þess að hefja samningaviðræður við kröfuhafa og geta ekki brugðist við innheimtuaðgerðum. Það er því nauðsynlegt að tryggja sérstaklega að þessi viðkvæmi hópur hafi réttindagæslumann sem væri þeirra málsvari og sæi til þess að greiðsluaðlögunarsamningar fái sanngjarna meðferð og sé fylgt eftir.

ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ

Sunna Elvira Þorkelsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ

Andrea Valgeirsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ


Breytingar á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga
Mál nr. 175/2023. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 10 október 2023