Skip to main content
AlmannatryggingarKjaramálUmsögn

Skattleysi launatekna undir 400.000 kr.

By 3. nóvember 2023No Comments

„ … ávísun á fátækt og jaðarsetningu að missa heilsuna, slasast alvarlega eða vera með meðfæddar skerðingar. Þessu þarf að breyta.“

Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um tillögu til þingsályktunar um skattleysi launatekna undir 400.000 kr.  4. mál.

ÖBÍ fagnar fram kominni tillögu og tekur undir með flutningsmönnum hennar að lífeyristakar hafa setið eftir við kjarabætur síðustu ára og að nauðsynlegt er að bæta verulega kjör þeirra. Það er nauðsynlegt að setja raunhæf viðmið um viðunandi framfærsluþörf fólks til lengri tíma og tryggja að ákvörðun framfærslugreiðslna byggi á þeim.

Hækkun húsnæðiskostnaðar kemur verst við tekjulágt fólk sem ver stærstum hluta tekna sinna í húsnæðiskostnað. Í rannsókn sem ÖBÍ réttindasamtök lét gera kom fram að 39% greiddu meira en helming ráðstöfunartekna sinna í húsnæðiskostnað og tæp 12% meira en 75% ráðstöfunartekna sinna. Húsnæðiskostnaður hjá þeim sem eru í eigin húsnæði getur einnig verið stórt hlutfall ráðstöfunartekna, sérstaklega afborganir lána og kostnaður vegna viðhalds húsnæðis. Verðbólga mælist nú 7,9% á ársgrundvelli og hefur verið yfir 7,5% frá maí 2022. Hækkun verðbólgu kemur verst við lágtekjufólk en þar undir falla örorku- og endurhæfingarlífeyristakar og hluti ellilífeyristaka.

Að sama skapi hafa skattkerfisbreytingar áranna 2020 og 2021 náð mjög takmarkað að bæta stöðu þeirra lífeyristaka sem ekki fá greidda heimilisuppbót og hafa engar eða lágar tekjur til viðbótar við lífeyri almannatrygginga. Skattlagning lágra tekna lækkar enn frekar þá lágu fjárhæð sem fólk hefur til framfærslu.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni kemur fram að framfærsluþörf lífeyristaka sé almennt jafn mikil og framfærsluþörf vinnandi fólks. Í því sambandi er rétt að árétta að lífeyristakar hafa almennt meiri kostnað vegna heilbrigðisþjónustu, lyfja og annarrar þjónustu en aðrir hópar í samfélaginu.

Í fyrirliggjandi þingsályktunartillögu eru sett saman tvö þingmál annars vegar um lágmarksframfærslu almannatrygginga og hins vegar um skattleysi launatekna í þeim tilgangi að tryggja að lífeyristakar með fullan lífeyri almannatrygginga fá útborgað 400.000 kr. Það er mat ÖBÍ réttindasamtaka að það hefði farið betur að halda þessum tveimum þingmálum aðskildum.

Lífeyrisgreiðslur verði 400.000 kr. skerðingarlaust.

Í núverandi kerfi geta hámarksgreiðslur til örorku- eða endurhæfingarlífeyristaka verið 358.359 kr. á mánuði eftir skatt og eru greiddar til einstaklinga sem fá greidda 100% aldursviðbót (fyrsta örorkumat 18-24 ára) og heimilisuppbót auk þess sem þeir eru ekki með neinar aðrar tekjur. Árið 2019 átti þetta við um 9 manns samkvæmt upplýsingum frá TR. Aðrir fá lægra og oft mun lægri greiðslur frá TR. Án heimilisuppbótar eru hámarksgreiðslur 304.217 kr. á mánuði eftir skatt.

Framfærslukostnaður fyrir einstakling sem býr einn og greiðir 165 þúsund kr. á mánuði í húsnæðiskostnaði er rúmar 380 þúsund kr. á mánuði. Heildartekjur fyrir skatt þurfa því að vera að um 500.000 kr. á mánuði til að mæta framfærslukostnaði upp á rúmar 380 þúsund kr. á mánuði. Í dæminu er leigufjárhæðin varlega áætluð, húsaleiga einstaklings er yfirleitt hærri.

Örorku- og endurhæfingarlífeyrisgreiðslur eru skertar frá fyrstu krónu ef einstaklingur er með einhverjar tekjur annars staðar frá. Framfærsluuppbótin skerðist mest, eða 65% af tekjum fyrir skatt. Aðrir greiðsluflokkar skerðast um 9% (örorkulífeyrir og aldurstengd örorkuuppbót), 38,35% (tekjutrygging), og 12,96% (heimilisuppbót). Því til viðbótar er mikið um innbyrðis skerðingar á milli greiðsluflokka auk þess samlagning skerðingarprósentna eykur enn á tekjuskerðingar. Sem dæmi getur samanlögð skerðingarhlutfall farið upp upp í rúm 60%.

Ekki er ætlunin að fara djúpt í áhrif tekna eða skerðinga í almannatryggingakerfinu. Nánar er fjallað um tekjuskerðingar í nýlegri skýrslu Kolbeins Stefánssonar „Lásar gera bara gagn ef þeir eru læstir“ 2. útgáfa.

Skattlagning lágra tekna.

Í umsögnum ÖBÍ til Alþingis hefur skattlagning lágra tekna, sem ekki duga til framfærslu, verið gagnrýnd ítrekað. Því styður bandalagið þingsályktunartillögur sem fela í sér að lækka skattbyrði lágtekjufólks og leiðrétta þá miklu tilfærslu skattbyrðar frá efstu tekjuhópum til lægri- og milli tekjuhópa, sem átt hefur sér stað um langt skeið. Rannsóknir hafa sýnt að lágtekjufólk hefur borið sífellt þyngri skattbyrði síðustu árin. Mjög mikilvægt er að jafna skattbyrði milli tekjuhópa þannig að hún verði líkari því sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum og hlífa lágtekjufólki við skattbyrði.

Síðustu breytingar á skattkerfinu voru meðal annars kynntar á þann hátt að þær væru í þágu þeirra tekjulægriog myndu létta til muna skattbyrði lágtekju- og millitekjuhópa og var því haldið fram að breytingin myndi alls hækka ráðstöfunar- tekjur þeirra tekjulægstu um rúmlega 120 þúsund krónur á ári. Áhrif skattkerfisbreytinganna fyrir örorkulífeyristaka og aðra með mjög lágar tekjur eru mun minni og hækkar ráðstöfunartekjur þeirra mun minna.
Skattkerfisbreytingarnar hækkuðu ráðstöfunartekjur örorku- og endurhæfingar- lífeyristaka með óskertar örorkugreiðslur (273.024 kr. frá 1.1.2021) aðeins um 6.466 kr. á mánuði eða 77.592 kr. á árinu.

Árið 2023 greiða lífeyristakar tekjuskatt af tekjum yfir 190.000 kr. á mánuði. Einstaklingur með óskertan örorkulífeyrir almannatrygginga, rúmar 350.000 kr. á mánuði greiðir rúmar 50.000 kr. í staðgreiðslu. Hækkun skattleysismarka í 400.000 kr. yrði því umtalsverð breyting, sem myndi auka sérstaklega ráðstöfunartekjur þeirra sem eru á lágum launum á vinnumarkaði eða á lífeyri. Fólki með lágar tekjur munar mikið um þær upphæðir sem það greiðir í skatt. Til samanburðar voru tekjur lægstu tíu prósenta framteljenda skattfrjálsar til ársins 2001. „Þetta átti við um lágmarkslaun á vinnumarkaði þess tíma, meðal lífeyristekjur eftirlaunafólks og tekjur þorra öryrkja. Allir þessir tekjuhópar voru án tekjuskatts, sem hjálpaði þeim verulega við að ná endum saman í framfærslu sinni.“

Lokaorð. 

ÖBÍ hvetur þingmenn alla sem einn að sameinast um þessa tillögu þannig að fjármunum verði forgangsraðað til að tryggja öllum lífeyrisþegum mannsæmandi framfærslu. Í stað þess að tryggja rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þeirra til viðunandi lífskjara og til sífellt batnandi lífskilyrða án mismununar vegna fötlunar, eins og áskilið er samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, hefur staðan verið sú að það verður að teljast ávísun á fátækt og jaðarsetningu að missa heilsuna, slasast alvarlega eða vera með meðfæddar skerðingar. Þessu þarf að breyta.

Ekkert um okkur án okkar.

Virðingarfyllst,

Bergþór H. Þórðarson
varaformaður ÖBÍ

Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
félagsráðgjafi ÖBÍ


Skattleysi launatekna undir 400.000 kr.
4. mál, þingsályktunartillaga.
Umsögn ÖBÍ, 3. nóvember 2023